Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans upplýsingar. Hann greindi nokkuð frá því sem þarna er á ferðinni og það vekur nú þá spurningu, hvernig stendur á því að það hefur verið farið svo laumulega með þetta mál hér á Íslandi að við erum að heyra þetta fyrst nú?
    Ég hef fengið upplýsingar síðan ég bar fram þessa fsp. frá Noregi um það hvernig þetta mál er til komið. Málið er þannig til komið að það er auðugur útgerðarmaður í Noregi sem átti þá hugmynd að sigla skipinu, Gauksstaðaskipinu, til Ameríku á þeirri forsendu að Leifur heppni hefði verið Norðmaður og hann vissi ekki betur. Þetta var að verða eins og eðlilegt var hneyksli á vissum stöðum og æðstu stöðum í Noregi og til þess að bæta úr var haft samband við Íslendinga og þeim boðið náðarsamlegast að vera með. En það er mjög lítið hlutverk sem þeim er ætlað í þessu efni. Það er talað um t.d. átta manna skipshöfn og það er gert ráð fyrir að þar verði tveir Íslendingar hvort sem þeir verða hafðir í austri eða einhverju öðru.
    Hér er um mál að ræða sem varðar þráláta viðleitni Norðmanna að tileinka sér Leif heppna með sögulegum fölsunum. Hér hefur verið sagt af hæstv. forsrh. að það hafi verið kveðinn upp salómonsdómur í þessu máli milli okkar Norðmanna og Íslendinga. Og hver er salómonsdómurinn? Hann er að Leifur heppni sé að vísu sonur Íslands en sonarsonur Noregs. Já. Ef við færum nú að beita þessum salómonsdómum yfirleitt, þá yrðum við í hvert sinn sem við nefnum fyrsta lögsögumann Alþingis að láta þess getið að hann væri sonarsonur Noregs því að það væri í þessu efni jafn ástatt með Hrafn Hængsson og Leif heppna. Okkur þarf þá að vera tamt að nefna það alltaf þegar við nefnum t.d. Egil Skallagrímsson, sonarsonur Noregs. Nei, þetta er enginn salómonsdómur í þessu efni.
    Ég vil aðeins í tilefni af því sem hér hefur komið fram leggja fram nokkrar spurningar fyrir mig og fyrir þingheim og okkur Íslendinga í þessu efni:
    1. Er það rétt að Íslendingar hlaupi til þátttöku í aðgerðum sem stofnað er til til kynningar á afrekum Leifs heppna á þeirri forsendu að Leifur hafi verið Norðmaður?
    2. Styrkir minni háttar þátttaka okkar Íslendinga í slíkum aðgerðum ekki tilkall Norðmanna til Leifs heppna?
    3. Er ekki rétt að Íslendingar hafi myndugleik til þess að standa sjálfir fyrir kynningu á sögulegum staðreyndum um afrek Leifs og kveða um leið niður hinar þrálátu sögulegu falsanir Norðmanna um þjóðerni hans?
    Það er rétt að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið í þessum efnum eins og hv. 2. þm. Vestf. benti hér réttilega á. Þessi umræða hér verður áreiðanlega ekki síðasta orðið um það hvernig Íslendingar minnast afreka Leifs heppna.