Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir æði margt sem hér hefur verið sagt en tími er ekki til þess. Ég vil taka undir það m.a. með hv. þm. Skúla Alexanderssyni að ég held að það sé mjög verðugt að við kynnum fyrir okkar eigin þjóð m.a. og þeim gestum sem hingað koma þessa sögu. Ég hygg að það séu ekki mjög margir sem vita þær staðreyndir sem í því sambandi hafa verið nefndar.
    Út af spurningum hv. þm., ég hef ekki fengið þær en svona eins og ég man þær, þá held ég satt að segja að þarna hafi verið forðað slysi. Það er rétt að auðugur Norðmaður ákveður þetta. Hann spyr út af fyrir sig engan að því. Hann kostar líka sjónvarpsmynd sem gera á í Noregi. Skipinu hefði verið siglt sem norsku o.s.frv. ef þó hefði ekki tekist að komast inn í þetta mál á þennan máta. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að okkar hlutur þyrfti að vera meiri að sjálfsögðu. En ég tel þó að þarna hafi tekist að forða miklu slysi og vona ég að við getum út af fyrir sig verið sammála um það. Þessi misskilningur í Noregi er afar útbreiddur.
    Ég ætla að segja hér þá litlu sögu að í mjög fjölmennum kvöldverði í sambandi við umhverfisráðstefnu í apríl í Bergen í Noregi sagði mér þáv. forsætisráðherra Noregs í borðræðu frá því að Norðmaðurinn Leifur Eiríksson hefði fundið Norður - Ameríku. Það vildi svo vel til að ég þurfti að þakka fyrir og ég gat leiðrétt þetta. Úr þessu varð hin mesta umræða við borðin á eftir og svo virtist sem jafnvel mjög háttsettir Norðmenn þar hefðu ekki hugmynd um annað. Þannig er það því miður. En ég tel að þarna hafi þó tekist vel, en ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að við þurfum að gera vitanlega miklu betur.