Sérþjálfaðar leynisveitir hérlendis
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans sem var stutt og laggott. Hæstv. forsrh. staðhæfir og ber fram að hann hafi enga vitneskju um starfsemi slíkra sveita hérlendis. Það er vissulega fagnaðarefni og við skulum vona að slíkt hafi ekki gerst. Við vitum það samkvæmt bandarískum gögnum frá fyrstu árunum eftir stríð í aðdraganda að stofnun Atlantshafsbandalagsins að hér var viðleitni af hálfu bandarísku leyniþjónustunnar til þess og hugmyndir um það að koma á slíkum sveitum. Hér störfuðu sérstakar sveitir sem reyndar stjórnmálaflokkar í landinu höfðu frumkvæði að að koma upp í aðdraganda að stofnun Atlantshafsbandalagsins. En ég er ekki að tengja það þessu.
    Hæstv. forsrh. vék að því að Ísland væri ekki tengt hernaðarnefnd Atlantshafsbandalagsins og þar væri kannski skýringarinnar að leita. Auðvitað áttum við okkur á því að hér eru verulega aðrar aðstæður heldur en í öðrum ríkjum NATO þar sem hér er ekki starfandi leyniþjónusta og við rekum hér ekki her, sem betur fer. En hins er að gæta að þessar leynisveitir í hinum NATO - ríkjunum og í Svíþjóð voru ekki í neinum beinum tengslum við hernaðaryfirvöld í þessum löndum, heldur alveg starfræktar sér á parti þar fyrir utan, til hliðar við hernaðarkerfið og gegndu sem sagt alveg sérstöku hlutverki, m.a. í Svíþjóð, samkvæmt upplýsingum Dagens Nyheter, að bjarga ríkisstjórn og konungi úr landi, hjálpa til þess, fyrir utan hið almenna varnarkerfi eða undirbúning í þá átt þarlendis.
    Fjármögnun til þessara sveita, t.d. í Vestur - Þýskalandi að því er Der Spiegel upplýsir í nóvembermánuði, hefti 47, ber vott um það að þessu hafi verið haldið leyndu nema fyrir alveg sérstökum trúnaðaraðilum í þessum löndum.
    Virðulegur forseti. Ég vil síðan aðeins vekja athygli á því að það er mjög erfitt um vik að kanna gögn hérlendis og þau mál eru enn mjög langt frá því að vera komin í viðunandi horf. Aðgangur að opinberum gögnum Stjórnarráðsins, einstakra ráðuneyta, er ekki aðeins ófullkominn heldur með þeim hætti að það getur í rauninni hver sem er stungið því undir stól sem hann vill án þess a.m.k. að skjalageymslur íslenska ríkisins geti upplýst um slíkt.