Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á upplýsingaþörf á þessu sviði, þá vil ég endurtaka að það má ekki leggja að jöfnu muninn á þessum reiknireglum og muninn á vöxtum inn - og útlána. Vaxtamunurinn á inn - og útlánum, hvort sem um verðtryggð eða óverðtryggð lán er að ræða, ræðst af tvennu: vaxtafætinum og reiknireglunum. Hér hefur hv. fyrirspyrjandi gert að umtalsefni áhrif reiknireglunnar sem að hluta ræðst af framkvæmdaratriðum á innlánahlið sem eru öðruvísi en á útlánahlið. Það er rétt og gagnlegt að benda á það. En munurinn ræðst í grundvallaratriðum af grunnvöxtunum sjálfum. Þess vegna er ekki rétt, eins og mér fannst vaka í máli fyrirspyrjanda, að munurinn á reiknireglunum hefði skaðað sparifjáreigendur. Það er ekki rétt skoðun. Menn verða að tala um allan hlutinn en ekki part af honum, þ.e. vaxtamuninn í heild. Á þetta vildi ég benda en ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er þakkarvert að hreyfa þessu máli og styðja þannig neytendavernd á lánsfjársviðinu.