Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. (Gripið fram í.) Ég hef haldið mig við það að virða herradóm forseta og svo verður áfram.
    Ég ætlaði aftur á móti að vekja hér athygli á því að ein mesta verslunarþjóð veraldar, gyðingarnir, áttu sér siðbótarmenn sem héldu því fast að þeim að ákveðnar reglur væru grundvallaratriði í viðskiptum. Og sú elsta sem Biblían boðar var þessi: Þú skalt ekki hafa tvo mæla í húsi þínu. En kaupmenn höfðu löngum haft þann sið að mæla kornið með öðrum mæli þegar þeir keyptu það inn heldur en þegar þeir seldu það út.
    Nú hefur hæstv. viðskrh. af mikilli málsnilld, eins og hann hefur vitsmuni til, varið það og jafnframt haldið því fram að það hafi verið á vitund allra Íslendinga eða þingmanna hvernig háttað er þeim útreikningum sem svo haganlega hefur verið komið fyrir að ekki verður annað sagt en að þeir byggist á því að brjóta þá reglu sem siðbótarmenn meðal gyðinga boðuðu: Þú skalt ekki hafa tvo mæla í húsi þínu. ( Viðskrh.: Hv. þm. gleymir því að Biblían leyfði í gamla testamenti að taka vexti af útlendingum en ekki af sínum eigin ....)