Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. hans svör. En ég verð að lýsa undrun minni á því að hann skuli ekki telja það tímabært að brjóta hina ,,grónu hefð``, eins og hann orðaði það, þar sem hann virðist líta á það nánast sem sjálfsagðan hlut að stjórnmálaflokkar sem lengst hafa verið við stjórn landsins eigi eitthvert tilkall til þess að eiga ákveðin ítök í stjórn Seðlabankans. Og það gildir ekki bara um Seðlabankann, það gildir um hina bankana líka. Mér hefði fundist mjög eðlilegt að þarna hefði verið brotin hin gróna hefð og sýnt að þarna ætti að standa öðruvísi að málum. Ég er þar með ekki að leggja dóm á hæfni þeirra manna sem taka við þessum störfum. Það getur vel verið að þeir hefðu eftir sem áður fengið stöðurnar ef þær hefðu verið auglýstar með eðlilegum hætti og fagleg sjónarmið hefðu verið látin ráða. Mér þykir mjög óeðlilegt að þessi hefð, að ákveðnir stjórnmálaflokkar, ég veit ekki hvort um er að ræða tvo, þrjá eða fjóra stjórnmálaflokka, sem lengst hafa setið hér við stjórn landsins, eigi rétt á ákveðnum embættum. Með því að viðhalda þessari hefð og brjóta hana ekki hlýtur sú stefna að vera tekin að halda áfram sömu efnahagsstefnu og hingað til hefur verið, það eigi ekki að breyta út af og það eigi ekki að leyfa neinum nýjum aðilum að koma þar að. Með þessu er verið að gefa í skyn og raunar segja að stjórnmálaflokkarnir eigi að hafa þarna bein áhrif á bankastjórana. Þetta þykir mér mjög miður og vona að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar eða hæstv. viðskrh. að svo eigi að vera, að hann telji þetta eðlilegt. Mér finnst þó það að hann skuli hafi ákveðið að setja á stofn nefnd sem eigi að endurskoða þessi mál vera spor í rétta átt þó ég hefði gjarnan viljað sjá að brotin hefði verið hefðin með miklu ákveðnari hætti en með skipun þessarar nefndar.