Smáfiskveiði
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Sjútvrn. hefur ekki falið Hafrannsóknastofnun að kanna þetta mál sérstaklega, þ.e. tilflutning á aflakvótum báta yfir á togara. Því er til að svara að við höfum enn sem komið er ekki nægilega gott yfirlit yfir það hvað þessi tilflutningur er mikill jafnvel þótt við vitum af honum. Hitt verður líka að taka fram að veiðar smábáta hafa aukist mjög á undanförnum árum og má segja að þeir hafi tekið til sín allmikinn hluta af því sem togararnir veiddu áður, sem kemur þá á móti þeim tilflutningi sem þarna er í gangi.
    Það er heldur ekki hægt að alhæfa að bátar veiði ávallt stærri fisk en togarar. Hér er t.d. nefndur ýsustofninn. Það hefur ekki verið sérstakt vandamál að togarar veiði meiri smáýsu en aðrir. Það hefur hins vegar verið vandamál að ýmsir togbátar við suðurströndina hafa oft á tíðum veitt smærri ýsu en eðlilegt getur talist.
    Hitt er svo annað mál að það er vissulega vandamál í okkar fiskveiðum að of mikið er veitt af smærri fiski og of lítið veiðist af stærri fiski. Þetta hangir fyrst og fremst saman við það að þorskstofninn er ekki nægilega sterkur og sú þróun hefur orðið í okkar veiðum yfir alllangan tíma að veiðar togara hafa aukist en veiðar báta við suðurströndina hafa minnkað. Fiskur er almennt smærri við Vestfirði, Norðurland og Austfirði, en það er ekki með einhlítum hætti hægt að segja að veiðar báta frá þessum svæðum séu þannig að þeir veiði almennt mun stærri fisk.
    Hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða og flókið. Inn í það koma veiðisvæðin, að hvaða veiðisvæðum hin mismunandi skip hafa aðgang, veiðarfærin, hagsmunir einstakra landsvæða, ástand fiskstofna o.s.frv.
    Það kemur fram í ákvæði til bráðabirgða í lögum um stjórn fiskveiða, sem tóku gildi nú í upphafi árs, að það beri að kanna mismunandi aðferðir við stjórn fiskveiða, m.a. með því að athuga samsetningu fiskiskipaflotans. Undirbúningur að þessari vinnu er þegar hafinn og má því segja að á þessu máli verði tekið. En ekki hefur farið fram sérstök athugun af þessu tilefni en af tilefni þessa ákvæðis í lögunum, sem kom hér fram sem brtt. ef ég man rétt, þá hefur undirbúningur þess starfs verið hafinn.