Smáfiskveiði
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svör hans. Ég geri ráð fyrir því að þau svari fyllilega því sem hér er spurt um þó að sjálfsagt hefði fyrirspyrjanda þótt æskilegra að þau hefðu verið á þann veg að þarna væri þegar hafin athugun. En eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra þá er að vissu leyti hafin starfsemi við að kanna þessi mál, þ.e. að athuga samsetningu og æskilega stærð fiskiflotans.
    Það sem kom fram í ræðu sjútvrh. í sambandi við að smábátafjölgunin og aukinn afli þeirra hafi að vissu leyti komið nokkuð á móti því sem færst hefur af kvóta til togaranna er að vissu leyti hægt að taka undir. En það er þó ekki nema brot af því sem hefur færst yfir til togaranna og þróunin hefur verið ískyggileg á þann veg að jafnvel togarafiskurinn hefur verið að smækka. Meðalvigt afla sem fluttur er að landi af togurum úr því að hafa verið um eða yfir 2 kg að meðalvigt í byrjun níunda áratugarins niður í það að vera kannski 1 kg. Þessi staða er mjög ískyggileg og hlýtur að hvetja til þess að þessir hlutir verði skoðaðir og stefnt að því að andæfa gegn því mikla smáfiskadrápi sem á sér stað. Reynt verði að byggja stofnana upp á þann veg að afrakstursgetan verði aukin með því móti að dregið verði úr þeirri miklu sókn í smáfiskinn sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og á sér enn stað.