Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Árið 1985 flutti ég þáltill. um réttaráhrif tæknifrjóvgunar. Meðflytjendur mínir voru hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Davíð Aðalsteinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Guðrún Agnarsdóttir og Stefán Benediktsson.
    Þegar sú tillaga var flutt hafði tæknifrjóvgun staðið yfir á kvennadeild Landspítalans frá árinu 1979. Í framsögu fyrir þessari tillögu hafði flm. áhyggjur af því að þessi börn og aðstandendur þeirra hefðu ekki stuðning í lögum ef upp kæmi ágreiningur af einhverju tagi, t.d. við erfðamál, skilnað og önnur slík tilvik.
    Í stuttu máli var tillaga þessi samþykkt á vorþinginu 1986 og nefnd skipuð, eins og tillagan gerði ráð fyrir, 28. júlí 1986. Skyldi nefndin vinna að tillögum um réttarstöðu barna sem getin eru við tæknifrjóvgun og aðstandenda þeirra. Nefndin hefur síðan setið að störfum en ekki er séð fyrir endann á því starfi, að því er virðist.
    Á Alþingi 14. des. 1989 var svo samþykkt þáltill. hv. þm. Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur, Láru V. Júlíusdóttur, Birgis Ísl. Gunnarssonar, Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, Guðmundar Ágústssonar, Inga Björns Albertssonar og Guðrúnar Helgadóttur sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi frv. til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli.``
    Þessi ályktun var send fyrrnefndri nefnd til fyrirgreiðslu og er enn ítrekun á því að unnið verði að því að tryggja réttarstöðu þessa fólks. Enn hefur ekki komið, að því er ég best veit, neitt frá þessari nefnd. Því hef ég leyft mér að bera fram þá fsp. sem hér liggur fyrir á þskj. 283. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta, og lýk ég þá máli mínu:
    ,,Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var 28. júlí 1986 samkvæmt þál. til að kanna réttarstöðu barna, sem getin eru við tæknifrjóvgun, og aðstandenda þeirra?``