Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 283 beinir hv. 13. þm. Reykv. svofelldri fsp. til mín: ,,Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var 28. júlí 1986 samkvæmt þál. til að kanna réttarstöðu barna, sem getin eru við tæknifrjóvgun, og aðstandenda þeirra?``
    Efni þál. þeirrar frá 25. mars 1986 sem vitnað er til var að dómsmrh. skipi fimm manna nefnd til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögur um hvernig réttarstaða aðila verði ákveðin. Nefndin skyldi þannig skipuð að dómsmrh. skipaði formann nefndarinnar án tilnefningar, tveir skyldu skipaðir samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands, og sé hann sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, og einn samkvæmt tilnefningu Barnaverndarráðs Íslands. Í nefndina voru skipuð Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri, formaður, hæstaréttarlögmennirnir Ólafur Axelsson og Þórður S. Gunnarsson, Jón Hilmar Alfreðsson læknir og Ásta K. Ragnarsdóttir námsráðgjafi. Ritari nefndarinnar er Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmrn. Með nefndinni hefur einnig starfað Anna G. Björnsdóttir deildarstjóri.
    Nefnd þessi hefur enn ekki lokið störfum. Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar hefur hún aflað sér ítarlegra gagna um þróun þessara mála erlendis, einkum á Norðurlöndum og í Bretlandi, bæði nefndarálita og lagatexta þar sem til sérstakrar löggjafar hefur verið stofnað. Sérstök lög hafa verið sett um tæknigetnað, tæknisæðingu og glasafrjóvgun í Noregi og Svíþjóð, en hins vegar ekki í Danmörku og Finnlandi.
    Nefndin hefur enn fremur kynnt sér drög að ályktun um tæknigetnað sem undirbúin voru af sérfræðinganefnd á vegum Evrópuráðsins. Í nefndinni liggja fyrir drög að greinargerð um viðfangsefnið og þar á meðal þau atriði sem til álita koma við lagasetningu.
    Eins og áður sagði hefur nefndin ekki lokið störfum en nokkurt hlé hafði verið á störfum hennar. Hafði verið gert ráð fyrir því að nefndin skilaði til ráðuneytisins tillögum að frv. um tæknigetnað, tæknisæðingu og glasafrjóvgun fyrir síðustu áramót. Dráttur hefur hins vegar orðið á starfi þessu.
    Að undanförnu hefur formaður nefndarinnar ásamt starfsmönnum í dómsmrn. og læknir sá sem sæti á í nefndinni og er yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans unnið að því að undirbúa lokastörf nefndarinnar. Er von þeirra að nefndarstarfi þessu megi ljúka sem fyrst.