Fjárveitingar til fræðsluskrifstofa
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér í stólinn til þess að taka undir orð 7. þm. Norðurl. e. þar sem hún flytur þáltill. okkar kvennalistakvenna. Nú er því þannig háttað að fræðsluskrifstofur í öllum umdæmum, ekki síst hér í Reykjavík, hafa fyrst og fremst haft með hina fræðilegu hlið fræðslumálanna að gera, þ.e. kennslufræðina og kannski sérkennslumál og ýmislegt sem því viðvíkur, en ekki eins mikið með fjármálin. Þetta hefur háð þessum stofnunum á köflum þar eð þær hafa vitað til hvers þurfti helst fjármunina en þeir sem höfðu með útdeilingu fjármunanna að gera voru á annarri skoðun og vörðu fénu samkvæmt því.
    Með því að veita fé beint til fræðsluskrifstofanna erum við að setja undir sama hatt bæði fjárnotkunarvaldið og líka kennslufræðiframkvæmdina. Ég held, ef það er rétt sem mér virðist, að við göngum nú inn í skeið þar sem er sífellt minna fé handa á milli til útdeilingar hjá ríkinu, að þá sé þeim mun mikilsverðara að einn og sami aðilinn hafi yfirsýn yfir þetta tvennt, bæði framkvæmd fræðslunnar og fjárútdeilinguna. Með þessu móti yrði mikið haganlegar varið fjármununum heldur en þegar tveir aðilar eiga um þetta að véla.
    Það er mjög mikið atriði og við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er mismunandi í hverjum landsfjórðungi og í hverju héraði hvað þarf að gera við þessa peninga. Það er erfiðara fyrir þá sem sitja á rökstólum hér uppi í ráðuneyti að átta sig á því hvaða fé þarf að nota norður í Grímsey heldur en fyrir þá sem sitja á fræðsluskrifstofu í Norðurl. e. Þetta liggur í augum uppi, finnst mér. Því nær sem við erum þeim velli sem starfað er á þeim mun auðveldara á að vera að sjá hvar virkilega skórinn kreppir.
    Þess vegna held ég að þessi þáltill. sé hið þarfasta mál og styð hana af heilum hug.