Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það má segja að dagurinn í gær hafi staðfest það, sem marga grunaði, að herinn er búinn að taka völdin í Sovétríkjunum. Sú frelsisalda sem gekk yfir austantjaldsþjóðirnar virðist vera búin. Það þarf enginn að halda að það verði ekki tekið á fleiri lýðveldum, þessum löndum, ef svo fer fram sem horfir og Sameinuðu þjóðirnar taka ekki mjög hart á þessu máli og koma þeim skilaboðum til herstjórnarinnar í Rússlandi að það verði litið mjög alvarlega á þau tíðindi sem berast, t.d. frá Eystrasaltslöndunum og raunar víðar ef athugað er.
    Ég vona og veit raunar að hæstv. ríkisstjórn mun gera það sem í hennar valdi stendur til þess að ýta við Sameinuðu þjóðunum og öryggisráðinu. Það er það eina sem mér sýnist að við getum gert. Það er auðséð að það verður komið upp leppstjórnum í þessum löndum og ekki getum við tekið upp stjórnmálasamband við þær stjórnir. En við verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að Sameinuðu þjóðirnar og öryggisráðið grípi til þeirra ráða sem tiltæk eru í þessu hörmulega ástandi sem þarna ríkir.