Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil náttúrlega taka undir þau orð sem hafa fallið, hrylling okkar og vonbrigði með þá atburðarás sem orðið hefur í Eystrasaltsríkjunum þremur. Ég vil taka undir þau orð starfandi utanrrh., sem komu fram hér áðan, að það er athygli vert hvenær þessir atburðir gerðust í gær, örfáum klukkustundum eftir að utanrrh. okkar heimsækir Riga. Maður getur látið sér detta í hug að atburðarásin hafi hugsanlega frestast í nokkra klukkutíma vegna þessarar heimsóknar. (Gripið fram í.) Ég dreg í efa, hv. þm., að það hafi flýtt fyrir henni. Ég hugsa frekar að það hafi tafið hana. Það er þá kannski spurningin frekar að skora á kollega hans á Norðurlöndum að þeir geri slíkt hið sama til þess að reyna að hafa meiri áhrif á atburðarásina þarna.
    Ég vil síðan upplýsa það hér að ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að haldinn verði fundur í utanrmn. strax og utanrrh. er kominn heim. Eins og kom fram hér áðan kemur hann heim seint í kvöld og verður að mér skilst ríkisstjórnarfundur í fyrramálið. Fljótlega eftir það verður haldinn fundur í nefndinni og þá verður farið yfir öll þau atriði sem nefnd hafa verið hér og í fyrri umræðu í síðustu viku um til hvaða ráða íslensk stjórnvöld geta gripið. Þar með talin að sjálfsögðu sú þáltill. Þorsteins Pálssonar og fleiri þingmanna sem liggur fyrir í nefndinni.
    Þau atriði sem hér hafa einna helst verið nefnd í þessum umræðum, sem eru ákveðin framkvæmdaratriði meira en samstaða íslenska þingsins í áskorunarformi til valdhafa í Sovétríkjunum og annarra ríkja, eru þessi. Það hefur verið nefnt að taka upp formleg stjórnmálaleg samskipti við þessar þjóðir. Það verður að sjálfsögðu skoðað eins og kemur fram í tillögu hv. þm. Þorsteins Pálssonar o.fl. Það verður ábyggilega líka rætt um þann möguleika að kalla sendiherra okkar heim, í styttri tíma a.m.k., frá Moskvu til skrafs og ráðagerða. Það verður örugglega rætt líka um þá viðskiptasamninga, menningarsamninga o.fl., sem hér hafa komið á dagskrá, ásamt því að taka til skoðunar hvort ástæða er til af þessu gefna tilefni og í framhaldi af þeim samþykktum sem þetta þing hefur gert og áskorun, og reyndar svörum frá sovéskum sendiherra hér á landi um að það verði ekki gripið til valdboðs, að gera kröfu til þess að þeir fækki starfsliði sínu hér í bæ.
    Eins og ég sagði áðan tek ég undir þær vonbrigðaraddir sem hér hafa komið fram. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir að sú samstaða sem verið hefur í utanrmn. upp á síðkastið haldi áfram og við munum komast að sameiginlegri niðurstöðu í þessu máli.