Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þeir atburðir sem orðið hafa í Eystrasaltsríkjunum á síðasta sólarhring hafa því miður staðfest þann ótta, sem margir okkar báru í brjósti fyrir nokkrum dögum síðan, að svo kynni að fara að lýðræði og frelsi í þessum ríkjum yrði hneppt í fjötra. Í þeim umræðum lýsti ég þeirri skoðun, og hún kom einnig fram hjá fleiri fulltrúum Alþb. í þeirri umræðu, að þá yrði þjóðþing Íslendinga, Alþingi, og ríkisstjórn og þjóðin öll að vera tilbúin til að taka að sér sérstakt forustuhlutverk í hinum alþjóðlegu mótmælum, forustuhlutverk sem við höfum kannski ekki áður gegnt.
    Nú er komið að þeirri stundu að á það reynir hvort við erum tilbúin til þess að gegna því forustuhlutverki. Þá óttast ég því miður að mótmæli ein og sér héðan frá stofnunum, hvort sem það er ríkisstjórn eða Alþingi, dugi skammt. Það sé nauðsynlegt að nota tímann í dag til þess að taka ákvarðanir um aðgerðir. Því að það er ekki víst að við höfum mjög marga daga í þessu máli.
    Ég vil varpa fram í þessum umræðum nokkrum hugmyndum til viðbótar við þær sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hæstv. menntmrh. settu hér fram.
    Í fyrsta lagi er sú hugmynd að Íslendingar beiti sér fyrir því að sendiherrar Norðurlanda hjá Sameinuðu þjóðunum gangi í dag á fund fulltrúa allra ríkja sem eiga sæti í öryggisráðinu og á fund framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til að óska eftir því að öryggisráðið og Sameinuðu þjóðirnar taki þetta mál tafarlaust á dagskrá. Klukkan er nú að verða 10 að morgni í New York og menn hafa þar þess vegna allan vinnudaginn til þess að ganga í þetta verk. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leita tafarlaust eftir samstöðu Norðurlandaríkja um að sendiherrar Norðurlanda geri sér slíka för á fund allra fulltrúa í öryggisráðinu strax í dag.
    Í öðru lagi að utanrrh. Íslands óski eftir því við utanríkisráðherra Norðurlanda að þeir óski eftir fundi á morgun með nýtilnefndum utanríkisráðherra Sovétríkjanna til þess að láta koma skýrt fram mótmæli Íslands og Norðurlandanna gagnvart atburðum sem þarna hafa orðið.
    Í þriðja lagi að Ísland óski eftir að Evrópuráðsþingið, sem er mannréttindaþing Evrópu, þar sem allar lýðræðiskjörnar þjóðir Evrópu eiga fulltrúa, elsti lýðræðislegi vettvangur Evrópuþjóða sem sett var upp til þess að varðveita frelsi og lýðræði í álfunni eftir síðari heimsstyrjöldina, komi í þessari viku saman til aukafundar og þar verði fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna boðið að koma. Ef þeir fá ekki fararleyfi þá verði lagðar fyrir Evrópuráðsþingið sérstakar tillögur um það hvernig öll lýðræðisríki Evrópu standi saman í baráttunni gegn þeim atburðum sem hafa verið að gerast í Eystrasaltsríkjunum.
    Í fjórða lagi að forsetar Alþingis ræði það við forseta þjóðþinga Norðurlanda að þingmannahópur frá Norðurlöndum fari á morgun eða næsta dag til hvers

ríkis Eystrasaltsríkjanna, þrjár sendinefndir, ein til hvers ríkis, og verði gestir þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna meðan þarf. Í þinghúsum Eystrasaltsríkjanna verði sendinefndir allra þjóðþinga Norðurlanda þannig að þeir sem ætla að brjóta þingræðið í Eystrasaltsríkjunum á bak aftur þurfi einnig að glíma við þann vanda hvað þeir gera við fulltrúa þjóðþinga Norðurlanda sem þar eru í salnum.
    Í fimmta lagi vil ég ítreka það, sem fram kom hér hjá menntmrh., að það verði rætt að slíta þeim samningum og samskiptum sem Ísland hefur gert við Sovétríkin með einum eða öðrum hætti.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka þá tillögu, sem þingflokkur Alþb. flutti hér í síðustu viku en því miður fékk ekki stuðning annarra þingflokka þá en ég tel fulla ástæðu til að ítreka hana nú, að Alþingi beini þeim tilmælum til þjóðarinnar allrar að á morgun eða miðvikudag verði nokkurra mínútna þögn og allsherjar vinnustöðvun um allt Ísland til þess að sýna að það er ekki bara Alþingi eða ríkisstjórn sem standa á bak við þennan málstað eða þessar kröfur, heldur þjóðin öll. Ég tel að Alþingi og ríkisstjórn þurfi á því að halda og baráttan gegn frelsissviptingunni í Eystrasaltsríkjunum þurfi á því að halda að það komi skýrt fram að þjóðin öll stendur á bak við þessa kröfu. Og ég bið fulltrúa annarra þingflokka að hugleiða í alvöru nú þegar þessir atburðir hafa gerst hvort ekki sé rétt að beita sér fyrir þannig táknrænum atburði sem sýni samstöðu íslensku þjóðarinnar.