Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar og jákvæðar undirtektir hjá hv. 2. þm. Austurl. varðandi þessa till. til þál. og þau markmið sem hér eru sett fram. Einnig þakka ég fyrir þær athugasemdir og ummæli sem komu fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. að þetta mál hefur komið hér áður, fyrst reyndar aðeins til sýnis. Öðru sinni fékk það þó umræðu og umfjöllun og allítarlega meðhöndlun í félmn. Sþ. Í framhaldi af því höfum við reynt að setja þetta upp í nokkuð breyttu formi, en nánast án efnisbreytinga. Þó kann að vera að það séu smávægilegar athugasemdir, smávægilegar breytingar sem tengjast breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eitthvað mun hafa verið fjallað um það að þessu leyti sem ég fann þó ekki núna svona við hraðan yfirlestur til þess að vitna sérstaklega í, enda veit ég að það kemur fram í nefndinni ef einhverjar athugasemdir eru við það. En aðallega er hér um að ræða breytta framsetningu.
    Það kann að vera rétt hjá hv. þm. og reyndar báðum þeim sem tjáðu sig áðan að það hefði mátt setja þetta enn betur upp og setja þá þau verkefni sem þarf að vinna að og leiðirnar til þess að ná markmiðunum inn í sjálfa tillöguna þannig að það kæmi meira saman. En þó er nú hér, ef við tökum bara eitt atriði sem tengist þá líka fyrirspurn hv. 6. þm. Norðurl. e., markmið 27. Þar segir í markmiðinu sjálfu, í tillögunni: ,,Gera skal áætlun um byggingu heilbrigðisstofnana þannig að stofnanir til þess að sinna heilsugæslu verði allar komnar upp fyrir árið 1995 og fyrir árið 2000 verði að fullu sinnt annarri stofnanaþjónustu eins og áætlunin gerir ráð fyrir.`` Í fskj. þar sem fjallað er um þau verkefni sem þarf að vinna og leiðirnar að markmiðunum segir um markmið 27: ,,Gerð verði rammaáætlun vegna bygginga heilbrigðisstofnana til næstu tíu ára og ítarleg áætlun til næstu fimm ára.`` Hér fellur þetta nokkuð saman og má kannski segja að hér sé um að ræða eitt og sama og inn í markmiðið sé komin sú stefna, sú áætlun sem menn vilja reyna að framkvæma og vinna eftir. En það má vafalaust skoða þetta nánar og vita hvort ekki er hægt að fella hér betur saman markmiðin og þær leiðir, þau úrræði sem við höfum til þess að framkvæma þessi markmið.
    En þá komum við að því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi hér og gerði hér aðallega að umtalsefni. Það er ekki nóg að setja fram tillögur, hugmyndir og markmið. Við verðum líka að reyna að átta okkur á því hvernig við getum staðið að því að framkvæma þau markmið. Hér eins og í svo mörgu öðru sem við erum að fást við skipta fjármunirnir sem við höfum til ráðstöfunar mestu máli. Við höfum þó reynt, og ég held að það verði ábyggilega verkefni heilbrigðisyfirvalda á næstu árum og stjórnvalda almennt, að nýta sem allra best og helst betur en okkur hefur hingað til tekist þá fjármuni sem við höfum úr að spila.
    Í heilbrigðisþjónustunni eru heilmörg verkefni fram undan sem eru kostnaðarsöm og við þurfum að horfast

í augu við hvernig við getum framkvæmt. Lífsmöguleikarnir aukast. Það kemur fram ný tækni, ný lyf, ný þekking sem gerir það að verkum að nú er hægt að gera ýmsa hluti sem ekki var mögulegt að framkvæma fyrir tiltölulega fáum árum. Þetta kostar stóraukna fjármuni og við stöndum ábyggilega frammi fyrir því að þurfa að velta fyrir okkur forgangsröð, bæði innan heilbrigðisþjónustunnar og forgangsröð almennt um það hvað það er sem við viljum láta sitja í fyrirrúmi í okkar ríkisútgjöldum.
    Því miður er það svo að við búum nú við biðlista varðandi nokkrar tegundir aðgerða, t.d. bæklunaraðgerða eins og hv. þm. nefndi og gerði hér að umtalsefni.
Þetta er auðvitað ekkert til þess að hrósa sér af, en segir okkur þó að við höfum nú þrátt fyrir allt náð æði langt. Varðandi hjartaaðgerðir og aðgerðir og biðlista hér heima og það að þurfa að fara erlendis þá vil ég minna á að það eru ekki nema örfá ár síðan engar hjartaaðgerðir voru gerðar hér heima og allir þurftu að fara erlendis. Nú höfum við þó tekið þessar aðgerðir upp og samkvæmt tölulegum upplýsingum eru þær ekki taldar dýrari, ekki kostnaðarsamari hérna, jafnvel ódýrari en erlendis. Þess vegna hlýtur það að vera markmið okkar að reyna að flytja þær inn í landið sem allra mest. En til þess þarf að bæta við skurðstofum og aðstöðu á sjúkrahúsunum og auka mannafla sem við þetta vinnur. Meðan ekki tekst að gera þetta nægjanlega hratt höfum við enn samninga við erlenda aðila, einkum í Lundúnum, þangað sem þeir sem ekki geta beðið, þeir sem þurfa að fá bráðaaðgerð, sem ekki er hægt að koma að hér, eru sendir. Reyndar er fjöldi af bráðaaðgerðum gerður hér heima líka og reynt er að spila þetta saman þannig að ekki leiði tjón af.
    Í þessum markmiðum eru settar fram hugmyndir um uppbygginguna og um áætlun um mannaflaþörfina. Það eru einmitt þær leiðir sem við hljótum að ætlast til að stjórnvöld viðhafi til þess að reyna að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram og til þess að stytta þá biðlista sem hv. þm. minnti okkur á.
    Um stöðuna sem er í augnablikinu í samninga- og kjaramálum aðstoðarlækna og lækna á sjúkrahúsum almennt skal ég nú ekki hafa mörg orð. Sú samningagerð er fyrst og fremst á sviði fjmrn. og samninganefndar ríkisins og hefur lítið verið á borði hjá heilbrrh. eða heilbrrn. að undanförnu. En ef svo fer sem horfir að deila þessi ætli að dragast á langinn og hún bitni á sjúklingum þannig að biðlistar lengist enn frá því sem verið hefur og sérfræðingar fara ekki að sinna öðru en bráðaþjónustu, eins og þeir hafa boðað, þá hlýtur þetta að verða mál sem við þurfum að fjalla um sérstaklega, heilbrigðisyfirvöld og þá í samráði við fjmrn. og þá aðila sem fara með samningagerðina. Í dag er samningafundur kl. 4 hjá ríkissáttasemjara sem fjallar um þessi mál. Ég vona sannarlega að málin þokist til réttrar áttar, en ætla ekki að hafa fleiri orð um það að sinni.