Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að ég hafi ekki talað nógu skýrt áðan. Það sem fyrir mér vakti fyrst og fremst var hvernig ætti að taka á þeim málum sem eru mest aðkallandi. Ég fann ekki við þennan lestur neitt út úr því. Þess vegna vildi ég spyrja um það.
    Mér er tjáð að kostnaður við að senda sjúkling í hjartaaðgerð til Lundúnum sé, eins og hæstv. ráðherra sagði, verulega hærri en við að gera aðgerðina hér. Ég er dálítið kunnugur bæklunardeild Landspítalans og læknar sem þar eru segja að ef þeir hefðu bara meira pláss gætu þeir framkvæmt miklu fleiri aðgerðir en þeir gera. Mér er auðvitað ekki kunnugt um að menn fari í stórum stíl erlendis til bæklunaraðgerða en eitthvað hefur verið um það. Ég held að það þurfi að snúa sér að þessum málum. Og eftir því sem maður les í blöðum standa sjúkrarúm tóm langtímum saman. Kostar þetta ekki allt saman meira en ef tekið væri ákveðið á þessum málum? Hafa menn hugleitt vinnutapið sem margir verða fyrir? Þessi maður sem talaði við mig núna er hálfsextugur. Ef hann hefði farið að bíða í marga mánuði þá hefði hann lítið eða ekkert getað unnið þann tíma. Ýmsir sem þurfa að fara í bæklunaraðgerð komast ekki til vinnu. Við vitum um mörg dæmi þess og þeir eru á ýmsum aldri, jafnvel ekki nema fimmtugir.
    Það þarf að taka á þessum málum að mínum dómi öðruvísi en ég skil þessa þáltill. Það er ágætt að setja markmið, við vitum það. En við þurfum líka að gera okkur grein fyrir hvernig á að ná markmiðunum.