Virkjun sjávarfalla
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Flm. (Friðjón Þórðarson) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi úr hlaði till. til þál. um rannsókn á virkjun sjávarfalla á þskj. 504. Tillaga þessi er flutt af öllum þingmönnum Vesturl. Hún er þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta rannsaka á hvern hátt hagnýta megi orku sjávarfalla til styrktar þjóðarbúinu í framtíðinni, eins og það er orðað.
    Í grg. er minnst á lífskjarakönnun sem gerð var hér á landi árið 1988 í tengslum við norræna rannsókn á því sviði. Meginniðurstaðan varð sú að lífskjör á Íslandi séu svipuð og á hinum Norðurlöndunum eða þau gerast vart betri í heiminum, að sögn fróðustu manna. Sérstaklega var þess getið að Íslendingar þyrftu þó að hafa meira fyrir því að ná þessum lífskjörum en hinar þjóðirnar. En margs þarf að gæta. Þjóðin á enn eftir að koma miklu í verk. Ýmsar aðkallandi framkvæmdir eru fjárfrekar. Óhjákvæmilegt er að grynnka á skuldum við útlönd. Aðstöðu landsmanna þarf að jafna og bæta, en markmið okkar hlýtur að vera að halda uppi byggð í landinu öllu þar sem gott er undir bú. En þá verður að snúa vörn í sókn og byggja upp eitthvað nýtt við hlið þeirra atvinnugreina sem lengi og vel hafa dugað og fært þjóðinni björg í bú.
    Nú er svo komið að fiskimiðin eru talin fullnýtt að mestu leyti. Gróðurlendið er einnig ásetið og þar þarf víða að græða upp og færa í betra horf. Þá er oft nefnt að orka fallvatna, jarðvarmi og menntun landsmanna séu þær auðlindir sem enn megi telja vannýttar hér á landi. Nýting þeirra auðlinda mun í framtíðinni verða forsenda velmegunar í íslensku þjóðfélagi.
    Um þessar mundir er mikið rætt um það hvernig koma megi þeirri orku í verð sem við getum af hendi látið. Þar er efst á baugi orkusala til hins fyrirhugaða álvers á Keilisnesi, einnig er minnst á hugsanlega sölu á orku um sæstreng til Skotlands og vetnisframleiðslu. Þó að við eigum enn þá langt í land með að fullvirkja orku fallvatna og jarðvarma er deginum ljósara að við verðum að hafa augun opin fyrir nýjum leiðum ef okkur á að takast að halda uppi þeim lífskjörum sem við njótum nú.
    Sagt er að mennt sé máttur. Það kom fram á þingi Bandalags háskólamanna um daginn að Íslendingar eru að verða ein menntaðasta þjóð veraldar. Til þess að nýta þær auðlindir sem við eigum á hagkvæman hátt þarf marga vel hæfa og menntaða einstaklinga. En jafnframt kemur eðlisgreind, áhugi, staðarþekking og hyggjuvit alþýðu manna að góðum notum eins og dæmin sanna fyrr og síðar.
    Ein er sú orkulind sem lítill gaumur hefur verið gefinn en það er firnaorka sú sem býr í straumum og sjávarföllum við strendur landsins. Hér við land er hæðarmunur sjávarfalla mestur við vesturströndina, við Breiðafjörð. Þar hefur mesti hæðarmunur mælst 6 metrar við mynni Hvammsfjarðar.
    Það er ekki svo að skilja að hugmyndin um hagnýtingu á orku sjávarfalla sé nýmæli. Flm. vekja sérstaka athygli á ítarlegu erindi sem Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri flutti í Reykjavík og í Stykkishólmi árið 1955 um notkun sjávarfalla. Erindi þetta varð allfrægt á sínum tíma og var oft til þess vitnað. Það birtist í Ársskýrslu Sambands íslenskra rafveitna 13. ár 1955. Hluti af þessu erindi er birtur sem fskj. með till. til nánari útlistunar og rökstuðnings. Að öðru leyti vísast til þessa fróðlega erindis í heild.
    Um þessar mundir er nokkuð rætt og ritað um vetni sem orkumiðil framtíðarinnar. Má í því sambandi benda á viðtal í Morgunblaðinu 29. júlí sl. við Björgvin Hjörvarsson kjarneðlisfræðing, sem er nýorðinn doktor frá Uppsalaháskóla. Ósk hans og áform er að smíða vetnisbíl því vetni er eldsneyti með mikla kosti. Eini úrgangurinn er að því er virðist drykkjarhæft vatn, eða með hans eigin orðum, með leyfi forseta: ,,Ég sá fyrir mér samfélag laust við bensíngufur, koltvísýring o.s.frv., það yrði aðeins pínulítið blautt á götunum en það rignir hvort eð er alltaf í Reykjavík.``
    Komin er fram á þessu þingi till. til þál. um framleiðslu vetnis. 1. flm. hennar er hv. 6. þm. Reykv. Till. þessi er komin til nefndar. Henni var vel tekið af hæstv. iðnrh. þó að hann léti þess jafnframt getið að rannsókn á þessum málum væri ekki svo langt komin að rétt væri að gefa í skyn að þetta væri ,,handan við hornið``.
    Mér er fullljóst að margir eru sammála iðnrh. að þessu leyti. Þeir telja notkun vetnis fjarlægan draum, sbr. t.d. grein sem forstjóri Iðntæknistofnunar skrifar í Morgunblaðið 6. nóv. sl. og nefnir ,,Vetnisumræða á villigötum``. Í sama streng taka Jóhannes Nordal og Jón Sigurðsson í Dagblaðinu 11. sept. sl. Þar kemur fram að orkusala um sæstreng og til vetnisframleiðslu séu framtíðarmöguleikar sem ekki skipti máli nú.
    Í grein sem Stefán Valgeirsson alþingismaður skrifaði í Morgunblaðið 2. okt. sl. segir hann frá fundi í Sjallanum á Akureyri og kveður svo að orði, með leyfi forseta: ,,Þeir álmenn sem töluðu á eftir mér kepptust um að reyna að gera lítið úr þessum hugmyndum mínum og einn þeirra sagði að vetnisframleiðsla væri fjarlægari draumur en stjörnustríðsáætlun Reagans fyrrum Bandaríkjaforseta. Fleiri gullkorn vanþekkingar létu álmenn frá sér fara á þessum fundi``, segir þessi hv. þm.
    Í merku riti eftir dr. Ágúst Valfells sem hann nefnir ,,Aftur til framtíðar. Ísland árið 2000 endurskoðað``, segir höfundur m.a.: ,,Ef hefðbundinn hagvöxtur á að geta haldið áfram samhliða þeirri fólksfjölgun sem spáð er til aldamóta, er óhjákvæmilegt, að þjóðin snúi sér, í síauknum mæli, að virkjun og nýtingu orkulindanna. Verður hagkvæmast að gera það með orkufrekum iðnaði. Enn fremur verður að íhuga fljótlega hvort ekki muni hagkvæmt að framleiða eldsneyti með innlendum orkugjöfum, þegar væntanlegs jarðolíuskorts fer að gæta verulega. Það kemur að því, að auðlindir landsins verða fullnýttar.``
    Það má minna á að samkvæmt lögum hefur Orkustofnun það hlutverk að annast yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra, yfirlitsrannsóknir á orkubúskap þjóðarinnar er miða að því að unnt sé að tryggja að orkuþörf þjóðarinnar sé fullnægt og orkulindir landsins hagnýttar á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma o.s.frv.
    Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1991 er fjallað um iðnað og orkumál. Þar er nýliðnum árum skipt í ákveðin tímabil. Þar segir: ,,Á þriðja tímabili, í kjölfar olíukreppunnar á árunum 1973 -- 1974, var markvisst dregið úr þýðingu innfluttrar olíu í orkubúskap þjóðarinnar. Á næsta tímabili`` --- segir í þjóðhagsáætlun --- ,,samhliða aukinni stóriðju gæti hafist nýting raforku til framleiðslu á vetni sem gæti gagnast sem eldsneyti fyrir samgöngu- og atvinnutæki þjóðarinnar og þannig aukið enn frekar þátt innlendra orkugjafa í þjóðarbúskapnum á kostnað innfluttra orkugjafa.``
    Auk þess fskj. sem áður er nefnt er hér birt grein eftir Steinólf Lárusson, bónda í Ytri-Fagradal í Dalasýslu, sem hann nefnir ,,Virkjum Hvammsfjörð``. Sú grein kom á prenti í DV 26. júlí sl.
    Ég mun ekki rekja efni þeirrar greinar en það er fróðlegt --- þó að hv. alþm. virðist ekki mjög margir hafa áhuga á þessum efnum --- að velta fyrir sér frumlegum tillögum og tilgátum og hugleiða ýmis dæmi um mannvit og snilli alþýðumanna fyrr og síðar sem ættu að nýtast enn betur nú á tímum hjá einni menntuðustu þjóð heimsins, eins og ég gat um áðan. Alkunnugt dæmi frá gamalli tíð er þegar bóndinn á Þingvöllum í Þórsnesi, Þorsteinn surtur, fann sumarauka af speki sinni, lærdómslaus og ókunnur þeim fræðum sem best voru þá í þeim efnum, áhaldalaus og allslaus. Er þetta eitt merkasta afrek mannvits sem sögur greina, eins og Helgi Hjörvar kemst að orði í Árbók um Snæfellsnes frá 1932.
    Ég nefni annað dæmi, mun yngra, frá þessari öld. Kennslubók í hornafræði kom út á árinu 1922 eftir Ólaf Daníelsson, hinn fræga stærðfræðing, sem þá og lengi síðan var fremstur lærdómsmanna í þeirri grein hér á landi. Hann ritaði stuttan formála fyrir bókinni. Þar segir hann svo m.a., með leyfi forseta: ,,Enn fremur hef ég í lok bókarinnar sett nokkrar reglur um ferhyrninga. Naut ég þar góðra bendinga frá Vilhjálmi Ögmundssyni, ungum bóndasyni vestur í Dölum.``
    Vilhjálmur var um þetta leyti að alast upp í Vífilsdal í Hörðadal. Hann var reyndar síðar einn eða tvo vetur við nám í Verslunarskólanum. En það er einmitt Vilhjálmur, seinna bóndi á Narfeyri á Skógarströnd, sem ritar kaflann um sjávarfallastöðina í Brokey sem rætt er um í fskj. I með þessu frv.
    Meðan við þekkjum dæmi um slíkt atgervi í byggðum landsins tel ég að við þurfum ekki að kvíða framtíðinni.
    Ég mun ekki fjölyrða um þetta mál að sinni. Sjálfsagt finnst mörgum að hér sé um framtíðarmúsík að ræða, sbr. þau ummæli sem ég vitnaði í áðan. Mér finnst þó ástæða til að gefa gaum að þessum þætti orkumála þar sem fjölmargir kostir geta komið til álita ef beitt er þekkingu og hugviti jafnhliða dýrmætri reynslu sem fengist hefur við dagleg störf og athugun fólksins í landinu.
    Ég legg til að máli þessu verði að lokinni fyrri umr. vísað til síðari umr. og hv. atvmn.