Virkjun sjávarfalla
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Stuðningur minn við þessa þáltill. kemur fram í því að ég er einn af meðflm. hennar. Hv. 1. flm., 2. þm. Vesturl., hefur gert hér allítarlega grein fyrir efni hennar og sé ég því ekki ástæðu til að fara um hana mjög mörgum orðum. En ég vil undirstrika mikilvægi þess að við Íslendingar lítum nú á nýja kosti í umhverfi okkar. Við þurfum að beina sjónum að okkar eigin umhverfi. Það er í raun og veru skylda hvers einasta Íslendings, ef svo má að orði komast, að hugsa með sjálfum sér: Hvað get ég gert hér í mínu eigin umhverfi til þess að bæta bæði mannlífið og atvinnulífið?
    Það er einmitt m.a. þetta sem tillagan gengur út á, að rannsakað verði á hvern hátt megi hagnýta orku sjávarfalla til styrktar þjóðinni í framtíðinni. Það er ljóst og hefur oft komið fram í umræðum hér á Alþingi undanfarin ár að sérstaklega landsbyggðin á í vök að verjast í atvinnumálum sínum. Við kvennalistakonur höfum oft bent á nauðsyn þess að huga að smáiðnaði og reyna að byggja upp smáfyrirtæki sem víðast um landið í því skyni að skapa fjölbreytilega atvinnu. Einnig höfum við oft og einatt bent á að það eru einkum konur úti á landsbyggðinni sem eiga í vök að verjast á vinnumarkaðinum og því er nauðsynlegt að huga sérstaklega að atvinnusköpun fyrir konur.
    Það er í raun og veru áhyggjuefni hversu andvaralausir Íslendingar eru gagnvart yfirvofandi orkuskorti í heiminum. Það er viðurkennt, t.d. í skýrslunni sem kennd er við Gro Harlem Brundtland, að þær olíulindir sem þekktar eru í heiminum duga aðeins til 30 eða 60 ára miðað við þá notkun sem nú er. Allar áætlanir gera ráð fyrir aukinni notkun, ekki síst með tæknivæðingu og iðnþróun í þeim heimshlutum þar sem ekki hefur verið mikið um slíkt hingað til. Það er í raun og veru líka dálítið áhyggjuefni að sú skoðun og trú virðist útbreidd að olía sé framleidd. Það höfum við fengið að heyra í fjölmiðlunum núna síðustu vikurnar hvað eftir annað, að þar er talað um olíuframleiðslu.
    Við Íslendingar eigum því láni að fagna að eiga mikla orku í okkar fallvötnum. En hér er sem sagt lagt til að líta á nýja leið í þessum efnum, að athuga hvort ekki megi virkja sjávarföll til atvinnuuppbyggingar eða annarrar orkunotkunar. Hv. flm. minntist á vetni og þá till. sem kvennalistakonur fluttu um könnun á framleiðslu vetnis hér á landi fyrr á þessu þingi. Það er mjög mikilvægur kostur sem okkur ber að líta á, því á þeim tímum sem við nú lifum vitum við svo sem lítið hvað næsta framtíð ber í skauti sér. Að ónefndum þeim kostum sem vetnið hefur í för með sér er það laust við mengun og bygging vetnisverksmiðja kostar ekki rask á náttúrunni eins og t.d. þegar stórfljót eru virkjuð og lón mynduð, samanber það sem er að gerast við Blönduvirkjun eða í nágrenni hennar. Ég vil benda á að t.d. Frakkar, sem ekki eiga mikið af fallvötnum í sínu landi, hafa einmitt gert nokkuð af því að virkja sjávarföllin fyrir utan strandir Bretagne og fengið þannig raforku til notkunar.

    Ég vildi með þessum örfáu orðum lýsa stuðningi mínum við till. Ég vona að hún fái góða og jákvæða afgreiðslu hér í þinginu því eins og ég minntist á í upphafi máls míns þá er mikilvægt að hver einasti maður hugleiði hvað hægt sé að gera til að leita nýrra leiða í að nýta það sem náttúran og umhverfi okkar hefur upp á að bjóða.