Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans og frásögn af ferð til Eystrasaltsríkjanna sem ég held að hafi verið mjög mikilvæg fyrir þessi ríki. Ég er viss um að sá stuðningur sem Íslendingar sýna þessum þjóðum hefur verið undirstrikaður með ferð utanrrh. Það þarf ekki að endurtaka það hversu djúpt snortnir Íslendingar eru og hversu alvarlega þeir taka það ofbeldi og þann yfirgang sem Moskvustjórnin hefur sýnt og hvernig ráðist hefur verið að saklausum borgurum í þessum ríkjum. Þess vegna var ferð ráðherrans til að undirstrika áhyggjur Íslendinga af því hvernig málum er nú komið þarna austur frá. Hingað til hafa Íslendingar haft forustu á alþjóðavettvangi og hafa sýnt það hvar sem þeir hafa komið að þeim er alvara í því að styðja sjálfstæðisbaráttu baltnesku landanna og ætla að gera það áfram.
    Ég hef verið nokkuð sátt við framgöngu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli og er sammála því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að leita allra þeirra leiða sem hægt er til þess að sýna stuðning. Ég vil sérstaklega taka fram að ég styð þá hugmynd að Alþingi sendi sendinefnd til þessara ríkja til að auka líkurnar á því að ekki verði farið fram með ófriði. Ég styð líka að kannaðar verði allar þær leiðir sem hér hafa verið nefndar, á vettvangi Norðurlandaráðs, Sameinuðu þjóðanna, Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, Evrópuráðsins og fleiri leiðir.
    Ég styð einnig það sem hér hefur verið nefnt, að taka upp formlegt stjórnmálasamband við Litáen. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir þeim erfiðleikum sem í því eru fólgnir en einskis má láta ófreistað að sýna stuðning okkar í verki.
    Ég legg áherslu á það að við höldum áfram eins og hingað til að leita samvinnu við aðrar þjóðir um aðgerðir. Ef það tekst ekki eigum við að gera það að eigin frumkvæði, og ein og sér, en samstaða með öðrum er mikilvægari.
    Ein af ástæðunum fyrir því að málefnum þessara þriggja ríkja er svo komið er að þessi ríki voru skilin eftir þegar málin voru gerð upp eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Í Helsinki - lokaskjalinu var ekki tekið á málefnum þessara ríkja. Sovétstjórnin túlkaði það þannig að landamæri Evrópu væru ákveðin og þar með væru þessi þrjú ríki innan Sovétríkjanna. Það var heldur ekki tekið á þessu vandamáli í París þegar málin voru endanlega gerð upp og það skilið eftir, þannig að Sovétríkin geta litið svo á að þeir hafi rétt til að ráðskast með málefni þessara ríkja sem alls ekki er rétt túlkun, að því er mér finnst. Þó svo að þessi ríki séu talin vera innan Sovétríkjanna er aldrei hægt að líta á mannréttindabrot eins og þarna eru framin sem eðlilegan þátt þannig að hvernig sem þessir samningar eru túlkaðir þá er aldrei réttlætanlegt að láta nokkra ríkisstjórn beita slíku ofbeldi eins og þar hefur verið gert.
    Við Íslendingar höfum alltaf lagt mikla áherslu á sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Við hljótum að ganga hart fram í því að styðja þær smáþjóðir sem þarna eru, því

við ættum að geta skilið þjóða best mikilvægi þess að þjóðir geti lýst yfir sjálfstæði sínu. Okkur tókst að sigra í baráttu okkar fyrir sjálfstæði og þess vegna höfum við skyldur gagnvart smáríkjum að styðja þau í sams konar baráttu. Hvar sem er eigum við að leggja áherslu á þetta.
    Ég vil einnig leggja mikla áherslu á að það verði samstaða innan Alþingis um þessi mál, eins og hefur verið hingað til að mestu leyti. Það er miklu mikilvægara og sterkara ef við getum sameinast í aðgerðum og á ég ekki von á öðru eftir þær undirtektir sem ríkisstjórnin hefur nú sýnt á fundi sínum nú í morgun og hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir. Það hlýtur að vera skylda okkar að benda alls staðar á að styrjaldir og ofbeldi auka aðeins á vandamálin, það eru aldrei til að leysa þau. Þetta gildir að sjálfsögðu í Sovétríkjunum og löndunum við Eystrasalt en þetta á líka við annars staðar.
    Við eigum að beita okkur hvar sem við getum fyrir því að deilumál verði leyst með friðsamlegum hætti og samningum og gera öðrum grein fyrir því sem við hljótum að gera okkur grein fyrir, að vandamál leysast aldrei með ofbeldi.