Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Málefni Eystrasaltsríkjanna hafa nú verið rædd hér í Alþingi allítarlega síðan þau komu fyrst á dagskrá í mars sl. Strax eftir að Litáen gaf út sjálfstæðisyfirlýsingu sína og Alþingi varð sammála um að senda Litáum heillaóskir í tilefni þess hafa verið hér miklar umræður í Alþingi um stöðu þessara mála. Það hefur sem betur fer skapast mjög góð samstaða innan þings og ekki síður innan utanrmn. um hvernig á þessum málum hefur verið tekið fram að þessu. Ég legg ríka áherslu á það að við reynum að halda áfram þeirri samstöðu sem við höfum náð.
    Ég vil, eins og aðrir ræðumenn hér, þakka utanrrh. fyrir ítarlega skýrslu sem hann flutti þinginu hér áðan um heimsókn sína til þessara ríkja. Ég tel að hún hafi verið mjög brýn og hafi skýrt þessi mál að ýmsu leyti betur fyrir okkur sem stöndum fjær þessu og skapi okkur meiri möguleika á því, þegar við tökum ákvarðanir um á hvern hátt við grípum til raunhæfra aðgerða til styrktar þessum þjóðum, að málið verði skýrara í okkar huga.
    Ég vil líka láta það koma fram hér sem kannski flestir vita að formaður utanríkismálanefndar litáíska þingsins er væntanlegur hingað til lands seint í kvöld og mun dvelja hér næstu tvo daga og eiga viðræður við utanrmn. þingsins, forseta þingsins og utanrrh. og ýmsa fleiri aðila. Ég hygg að bæði heimsókn utanrrh. til ríkjanna og heimsókn þessa manns hingað til lands muni að ýmsu leyti gera okkur einfaldara og þægilegra að taka afstöðu til þeirra ákvarðana sem við hljótum að taka núna á allra næstu dögum.
    Ég hef líka hreyft því í utanrmn., og ég held að það sé mjög góð samstaða um það í nefndinni og var reyndar komin nokkrum dögum áður en ráðherra fór utan, að kanna það með hvaða hætti við gætum sent sendinefnd til þessara ríkja. Það er í skoðun núna og við erum að fylgjast með því hvað þjóðþing Norðurlandanna gera, þannig að ég hygg að á næstu dögum verði tekin ákvörðun um það.
    Það kom mér hins vegar á óvart þegar ég heyrði fréttirnar í morgun þar sem kom fram að sovésk stjórnvöld hafi beðið sænsku stjórnina og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum að forðast harðorð ummæli sem gætu kynt undir átökum í Eystrasaltsríkjum Sovétríkjanna.
    Ég er ekki þeirrar skoðunar að harðorð mótmæli og heimsóknir ráðamanna á Vesturlöndum kyndi undir harðvítug átök í þessum ríkjum. Það er ekki mín skoðun. Ég er þvert á móti sannfærður um það að ef ekki hefði komið til þessara mótmæla og heimsókna hefði atburðarásin getað orðið mun hraðari og miklu harðar tekið á hlutum frá Sovétríkjanna hálfu heldur en raun hefur orðið á. Um þetta er kannski erfitt að fullyrða en þetta er mín skoðun.
    Ég tel að á næstu dögum hljótum við að setjast niður í utanrmn. og hafa um það gott samráð við ríkisstjórnina eins og við höfum haft fram að þessu og meta það hvaða aðgerðir eru bestar til þess að styrkja sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja. Því að sjálfsögðu verðum við númer eitt að hafa góða samvinnu við þjóðþing og ríkisstjórnir þessara landa hvað best mætti vera til að styðja þeirra mál.
    Ég er sammála því að sjálfsögðu að halda því áfram sem hefur komið fram frá ríkisstjórninni að bjóða Reykjavík sem fundarstað deiluaðila í þessu máli. Hvort sem samkomulag yrði um Reykjavík eða aðrar höfuðborgir eða borgir á Norðurlöndunum, þá eigum við að bjóða Reykjavíkurborg fram og gera okkar til þess að úr slíkum fundi geti orðið.
    Það kemur líka vel til álita að gera ýmislegt af því sem utanrrh. minntist á hér í morgun. Ég minni á að það er ekki langt síðan samþykkt var hér í þinginu þáltill. um að skoða það a.m.k. hvort ekki væru of margir starfsmenn hér í mörgum erlendum sendiráðum og ekki síst var þeirri umræðu beint að sovéska sendiráðinu og reyndar því bandaríska líka sem þó hefur gjörólíkra hagsmuna að gæta hér á landi heldur en það sovéska. Hvort við getum aftur fækkað í sendiráði okkar í Rússlandi, það tel ég nú varla. Ég held að það séu ekki nema tveir starfsmenn þar og þeir hljóti að vera önnum kafnir við það að fylgjast með þeim hlutum fyrir stjórnvöld hér á Íslandi sem nauðsynlegt er að gera. Hins vegar má að sjálfsögðu búast við því að ef við gerum kröfu til fækkunar í sendiráði Sovétríkjanna hér á landi, þá geri þeir sambærilega kröfu um einhverja hliðstæða fækkun hjá þeim.
    Annað atriði sem ég vildi minnast á hér er það að við Íslendingar höldum áfram á þeim grunni sem við höfum hafið starfið, þ.e. að berjast fyrir því að málstaður þessara þjóða sé tekinn upp hjá öllum þeim alþjóðlegu stofnunum sem við tökum þátt í. Þar nefni ég fyrst og fremst Norðurlandaráð, ég nefni Evrópuráðið, ég nefni NATO og ég hygg að það sé rétt mat hjá utanrrh. að ekki síst samþykktir ráðherranefndar eða pólitísku nefndarinnar hjá NATO - ríkjunum hafi haft þung áhrif og verið þungt skoðuð í Moskvu þegar samstaða náðist í þeim hópi um harðorða ályktun til Sovétríkjanna vegna aðgerða þeirra í Eystrasaltsríkjunum.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Það er búin að vera ítarleg og mikil umræða um þessi mál hér síðustu vikurnar, en ég legg áherslu á það að heimsókn utanrrh. var mjög brýn og hefur skýrt ýmsa hluti fyrir okkur sem betur sjást með því að heimsækja þessar þjóðir heldur en lesa bara erlenda fjölmiðla eða fylgjast með fjölmiðlafréttum. Ég vænti þess líka að heimsókn formanns utanríkismálanefndar litáíska þingsins sem verður næstu daga muni hjálpa okkur við ákvörðunartöku hér á næstu dögum, en ég held að það hljóti innan örfárra daga að verða teknar ákvarðanir um einhverjar raunhæfar aðgerðir sem eru annað og meira en samþykktir hér í sölum hins háa Alþingis.