Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög fróðlega frásögn af málum Eystrasaltslandanna eins og þau komu honum fyrir sjónir. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að ræða hér um þá hröðustu þróun sem við Vesturlandabúar höfum horft á og er að gerast þessa dagana og hefur verið að gerast á seinustu árum.
    Við stöndum frammi fyrir því að annað óumdeilanlega öflugasta ríki veraldar sem var fékk leiðtoga sem gjörbreytti stefnu þess ríkis, færði það frá hernaðaruppbyggingu sem höfuðmarkmiði, færði það til lýðræðisþróunar og afvopnunar. Það var stór stund í hinum vestræna heimi þegar Ronald Reagan og Gorbatsjov höfðu komið sér saman um að móta þau spor í afvopnunarmálum sem urðu.
    Við stöndum frammi fyrir því að það er stríð við Persaflóa. Það stríð er svo eldfimt að ef Ísraelsmenn yrðu þátttakendur veit enginn hvort nokkur ríkisstjórn í Arabalöndunum gæti komið í veg fyrir fjöldastuðning óbreyttra múhameðstrúarmanna við Saddam Hussein.
    Við stöndum frammi fyrir því að Sovétríkin eru nær borgarastyrjöld en þau hafa nokkurn tíma verið.
    Við stöndum frammi fyrir því að það væri í fyrsta skipti í sögunni sem land sem ræður yfir kjarnorkuvopnum færi í borgarastríð.
    Við stöndum frammi fyrir því að það eru hagsmunir hins vestræna heims, óumdeilanlegir, að Sovétríkin haldi velli sem ríki og lýðræðisþróunin innan þeirra haldi áfram án blóðsúthellinga eða þá með sem minnstum blóðsúthellingum.
    Við skulum örlítið skoða þá stöðu hvað kæmi upp ef Sovétríkin splundruðust, hvert ríki eftir annað innan þeirra yrði að sjálfstæðu landi. Það fer ekkert á milli mála hvernig þeir mundu skipta landinu, það liggur ljóst fyrir. En hvernig mundu þeir skipta kjarnorkusprengjunum á milli sín? Hvernig mundu þeir skipta þeim? Er ekki trúlegt að múhameðstrúarríkin á landamærunum við ófriðarsvæðið í Miðausturlöndum nær fengju sinn hluta af eldflaugunum og kjarnorkusprengjunum? Væri bróðurlega skipt upp herveldinu mikla ef þetta mundi ekki eiga sér stað? Er það það sem Íslendingar vilja? Það liggur ljóst fyrir að hvorki forustumenn Breta, Bandaríkjamanna eða Frakka hafa áhuga á þeirri þróun. Viljum við að Rússland segi sig úr lögum við Sovétríkin og sá kjarni sem eftir verði, verði undir stjórn múhameðstrúarríkja? Þetta eru spurningarnar sem hæstv. utanrrh. verður að gera upp við sig. Hver er utanríkisstefna Íslands í þessum efnum?
    Við Íslendingar áttum farsælan foringja þegar við börðumst fyrir okkar sjálfstæði og hann notaði pennann og hann notaði hið talaða orð til að ná árangri. Mér sýnist að af þeim þremur þjóðum við Eystrasalt, þ.e. í Eistlandi, Lettlandi og Litáen, þá standi mál þannig að einn þjóðhöfðinginn vill fara hraðar en skynsamlegt er. Hann vill fara miklu hraðar en skynsamlegt er. Hann vill fara svo hratt að vestrænar þjóðir hafa ekki þorað að veita honum stuðning. Hæstv. utanrrh. Íslands hefur ekki svarað þeirri spurningu hér og nú: Vill hann að við viðurkennum á opinberum vettvangi að Litáen sé frjálst og fullvalda ríki? Eistland og Lettland óska ekki eftir slíkri viðurkenningu. Þeir nota þjóðþing sinna landa til þess að vinna að framförum í landinu og bíða. Og hvers vegna bíða þeir? Vegna þess að þeim er ljóst að tíminn vinnur með þeim ef þeir hafa vit á að bíða.
    En það er fleira að gerast í Sovétríkjunum. Forustumaður öflugasta lýðveldisins í Sovétríkjunum á í hatrammri deilu við æðsta mann Sovétríkjanna. Boris Jeltsín og Gorbatsjov eru andstæðingar. Það fer ekki á milli mála. Segjum nú svo að við vinnum að því dyggilega að kynda þá elda sem mest sem leiði til borgarastyrjaldar í Sovétríkjunum. Enginn veit hverjar afleiðingarnar yrðu. Enginn veit hver mundi ná völdunum. En það óttast ég mjög að þeir tveir sem nú deila harðast um völdin mundu hvorugur halda um þau eftir þann leik. Ég óttast að það yrði rússneski herinn sem hefði taflið í fyrstu atrennu.
    Ég held að það sé hættulegur leikur, svo ekki sé meira sagt, hjá Vesturlöndum ef stefnubreyting yrði og menn hættu við að styðja Gorbatsjov í þeirri stöðu sem hann er. Það væri mjög hættulegur leikur. Sá leikur gæti kallað það yfir okkur í fyrsta lagi að lýðræðisríkin segðu sig úr Sovétríkjunum og kæmust upp með það. Rússland líka. Þá sætum við uppi með það að við hefðum fjölgað kjarnorkuveldum heimsins og værum búnir að fela múhameðstrúarríki kjarnorkuvopn. Og ég gæti trúað því að það væri þó nokkuð hátt verð á þeim vopnum í dag ef þau væru til sölu, þó nokkuð hátt verð sem olíufurstarnir við Persaflóa, sumir hverjir, væru reiðubúnir að greiða til að hafa þau undir höndum í þeim átökum sem þar eru.
    Íslendingar þurfa að horfa á þetta tafl heimsins í einni mynd. Þeir þurfa að horfa á það í einni mynd.
    Ég held að það sé affarasælast að ræða það í þeirri stöðu sem menn eru nú að það verður að hvetja leiðtoga Eystrasaltslandanna og forseta Rússlands til að talast við og forseta Sovétríkjanna til að talast við og stöðva beitingu vopnavaldsins í þessum ríkjum. Með viðræðum er það hægt. En ef við höldum að vald okkar sé slíkt að með þvingunaraðgerðum pínum við þessa aðila, þá er það misskilningur.
    Við heyrðum ágæta ræðu hæstv. utanrrh. hér í þingsal. En við heyrðum líka fréttir af þessu ferðalagi erlendis og þær fréttir drógu upp allt aðra mynd en hér kom fram. Þær fréttir drógu það upp að hæstv. utanrrh. ætti orðið í basli með KGB og væri búið að hafa af honum töskuna. Svo komu þær fréttir að taskan væri fundin í fatageymslu í hótelinu og féll nú hjá mörgum það álit sem þeir höfðu á KGB sem hæfum til að halda aga í Sovétríkjunum.
    Ég veit ekki hvort þeir sem standa að fréttaflutningi á þennan veg gera sér grein fyrir því hversu illa þeir fara með tiltrú almennings á fjölmiðlum, hversu meðferðin á fjölmiðlum er slæm að búa við slíkan æsingarfréttaflutning sem þarna kemur fram. Og ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. gerir sér grein fyrir því

hvað það er óheppilegt á stundum sem þessum að svona mynd sé dregin upp af ferðalagi í Eystrasaltslöndunum eins og fréttamenn hafa gert með þessum hætti.
    Ég vil minna á það að það eru mörg mál heimsins sem eru erfið og óleyst. Hvað með Írland, sem er nú eins og Noregur land okkar forfeðra, er það ekki klofið í tvennt? Er það ekki lýðræðisland? Eru þar ekki drepnir menn af og til á báða bóga, bæði af Bretum og eins uppreisnaraðilum? Hvað stefndi í með Québec þegar forseti Frakklands á sínum tíma hvatti þá til að segja sig úr lögum frá Kanada? Tóku Kanadamenn því vel að það væri verið að hvetja til þess að eitt af svæðum Kanada rifi sig út úr ríkinu? Því var ekki vel tekið.
    Íslendingar þurfa að hugsa það mjög vel hvort þeir gera ekki mest gagn í málum Eystrasaltslandanna með því að tala þar máli friðar í samskiptum manna á milli, tala þar máli friðar innbyrðis. Og hvort sem menn vilja trúa því eða ekki, þá væru það mikil sinnaskipti ef sá maður, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nóbels, hefur á örfáum mánuðum orðið slíkur gangster og glæpamaður að það sé skynsamlegast fyrir vestræna menningu, sem sæmdi hann þeim heiðri, sæmdi hann friðarverðlaunum Nóbels, hvort sú sama vestræna menning á að trúa því í dag að slík sinnaskipti hafi orðið að þar fari blóðhundur, eins og einn íslenskur stjórnmálamaður hefur látið sér um munn fara.
    Menn þurfa að hugsa og halda stillingu sinni í þessu máli. Það hefði vafalaust verið hægt í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að halda þannig á málum að tugir og hundruð manna hefðu fallið í valinn. Það hefði vafalaust verið hægt en það var ekki gert.
    Ég vil trúa því, sem betur fer, að leiðtogar Vesturlanda, jafnvel þó við stöndum í stríði fyrir botni Persaflóa, séu mikilhæfir menn og að sú þróun sem orðið hefur í heiminum sé því að þakka að lýðræðisþjóðirnar og sú lýðræðisþróun sem orðið hefur í Sovétríkjunum hefur fært okkur fram á veg. En ég segi það hér og nú: Ég held að það yrði eitt alvarlegasta áfallið fyrir vestræna menningu í þeirri stöðu sem við erum í dag ef Rússland og lýðræðisöflin í Sovétríkjunum legðu ekki höfuðkapp á það að tryggja lýðræðisþróun innan Sovétríkjanna, heldur legðu höfuðkapp á það að koma sér út úr Sovétríkjunum. Þá værum við búnir að dreifa kjarnorkusprengjunum ansi víða og þá værum við búnir að tryggja það að múhameðstrúarmenn væru komnir í þá stöðu að það yrði á fleiri stöðum en í Ísrael sem mönnum yrði ekki svefnsamt af ótta við að þeim vopnum yrði beitt.