Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Guðmundur Ágústsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um þingsköp kemur mér verulega á óvart þar sem það hafði verið fullt samkomulag í fjh. - og viðskn. um það að taka málið hér á dagskrá í gær. En eins og fram kom í máli forseta voru ytri aðstæður sem ollu því að það var ekki hægt. En það er kannski rétt að ég reki hér hvernig þetta mál hefur þróast og hvaða umfjöllun það hefur fengið í hv. fjh. - og viðskn.
    Á þriðjudaginn síðasta, á miðvikudaginn og fimmtudaginn voru nefndarfundir þar sem málið var til umræðu og það var fullt samkomulag um það að taka málið út úr nefnd á fimmtudaginn og ákveðið þá að málið yrði tekið á dagskrá í gær, en eins og ég sagði áðan var ekki hægt að halda hér fund þá. En ef það á að vera regla að menn geti trassað að skila nál. og málið fái ekki meðferð, þá býð ég ekki mikið í þetta þinghald. Ef einn eða fleiri nefndarmenn í fjh.- og viðskn. trassa það að skila nál. og ætla út á það að fá máli frestað, þá er illa komið fyrir okkur.
    Ég vil því skora á forseta og þá þingmenn sem eiga eftir að skila nál. að gera það strax þannig að þessi umræða geti farið hér fram.