Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 515 um frv. til laga um launamál. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh. - og viðskn., en nefndin klofnaði í afstöðu sinni til frv. og hafa verið lögð fram þrjú minnihlutaálit sem verður gerð grein fyrir hér á eftir. Nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. er á þessa leið:
    Nefndin hefur fjallað rækilega um frv. Eftirtaldir komu á fund nefndarinnar: Forsrh. Steingrímur Hermannsson, Jón Sveinsson, aðstoðarmaður forsrh., Georg Ólafsson verðlagsstjóri, Páll Halldórsson, Eggert Lárusson og Birgir Björn Sigurjónsson frá BHMR, Svanfríður Jónasdóttir, aðstoðarmaður fjmrh., Birgir Guðjónsson, skrifstofustjóri launaskrifstofu ríkisins, Leifur Guðjónsson frá Verkamannafélaginu Dagsbrún, Ólafur Örn Haraldsson og Tómas B. Bjarnason frá Gallup á Íslandi.
    Meiri hl. fjh. - og viðskn. vill vísa til þess nál. sem lagt var fram af meiri hl. fjh. - og viðskn. Nd. þegar mælt var fyrir frv. þar og vísar til þess rökstuðnings sem þar kom fram, en því til viðbótar vill meiri hl. benda á að í kjarasamningi fjmrh. f.h. ríkissjóðs og aðildarfélaga BHMR, sem undirritaður var 18. maí 1989, var m.a. samið um að endurskoðað yrði mat á námi, lagt yrði mat á faglega, fjármálalega og stjórnunarlega ábyrgð háskólamanna í þjónustu ríkisins og borin yrðu saman kjör háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og á hinum almenna vinnumarkaði. Námsmatsnefnd og ábyrgðarnefnd skiluðu lokaniðurstöðum á tilsettum tíma. Vegna ýmissa ástæðna, þar á meðal þeirrar að ekki lá fyrir fullnægjandi samanburður á kjörum háskólamenntaðra starfsmanna í þjónustu ríkisins og þeirra sem störfuðu á hinum almenna vinnumarkaði, gat kjarasamanburðarnefnd ekki skilað lokaáliti fyrir 1. júlí 1990 eins og ráð var fyrir gert í kjarasamningnum. Kom þá til kasta 6. mgr. 5. gr. kjarasamningsins er kveður á um launahækkun til handa háskólamenntuðum starfsmönnum í þjónustu ríkisins um sem svarar 4,5%.
    Hefði þessi 4,5% launahækkun félagsmanna í BHMR umfram aðra launþega komið til framkvæmda hefðu forsendur þjóðarsáttar verið brostnar þar sem fyrir lá að aðrir launþegar hefðu krafist sömu hækkunar. Óhjákvæmilegt var annað, ef verja átti þá samstöðu sem sköpuð var með febrúarsamningunum, en að ríkisvaldið gripi til ráðstafana sem kæmu í veg fyrir að ákvæði samningsins kæmu til framkvæmda. Eftir að ljóst var með úrskurði Félagsdóms að túlka bæri kjarasamninginn þannig að félagsmenn í BHMR ættu tilkall til launahækkunar skapaðist sú hætta að þjóðarsáttin væri brostin. Lá fyrir bréf frá VSÍ um að kæmi hækkunin til framkvæmda mundu samtökin ekki komast hjá því að launþegar innan ASÍ fengju sambærilega hækkun. Eftir árangurslausar viðræður við forsvarsmenn BHMR þar sem reynt var að ná samkomulagi um að refsiákvæði samningsins í 6. mgr. 5. gr. kæmi ekki til framkvæmda ákvað ríkisstjórnin að grípa til bráðabirgðalagasetningar sem næmi úr gildi

þær forsendur sem dómur Félagsdóms var byggður á. Meiri hl. nefndarinnar telur að ekki sé verið að setja lög á niðurstöðu dómstóls heldur sé með setningu laganna einungis verið að breyta þeirri réttarheimild sem dómurinn leggur til grundvallar í niðurstöðu sinni.
    Eftir að hafa kynnt sér rækilega þau gögn sem lögð hafa verið fram í nefndinni, þar á meðal greinargerðir beggja aðila þess máls sem nú er rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur, með tilliti til þeirrar réttarframkvæmdar sem viðgengist hefur við setningu bráðabirgðalaga og þeirrar brýnu nauðsynjar sem bar til setningar bráðabirgðalaganna um launamál, telur meiri hl. nefndarinnar að lögin stangist ekki á við ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið og þess ástands sem Þjóðhagsstofnun hefur sýnt fram á í áliti sínu, sbr. þskj. 233, að gæti skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar ef lögin yrðu felld á Alþingi leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt óbreytt.
    En í þessu áliti Þjóðhagsstofnunar segir svo m.a. er þeir fara yfir útreikninginn:
    ,,Niðurstöður þessara útreikninga sýna að verði víxlhækkanir verðlags, launa og gengis með þeim hætti sem að framan greinir stefnir í stöðugt vaxandi verðbólgu. Tilgangslítið er að reikna slík dæmi langt fram í tímann. Ljóst er að á nokkrum mánuðum yrði þriggja mánaða hraði verðbólgunnar miðað við heilt ár kominn í tugi prósenta. Í þeim dæmum sem reiknuð voru var verðbólgan á þennan mælikvarða í fyrsta dæminu komin í 22% í júlí 1991, 27% í öðru dæminu og í tæplega 40% í því þriðja.
    Í öllum þessum dæmum mun kaupmáttur launa aukast umtalsvert fyrst í stað og er líklegt að almenn eftirspurn fari vaxandi. Það má því reikna með, ef þessi þróun gengur eftir, að þau markmið um viðskiptahalla og litla aukningu þjóðarútgjalda sem sett voru fram í þjóðhagsáætlun 1991, standist ekki. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að það eru ekki ótvíræðar niðurstöður því óvissuatriðin eru mörg í þessum dæmum.``
    Þetta segir m.a. í áliti Þjóðhagsstofnunar hefðu þessar hækkanir komið til framkvæmda. Og þá er alveg ljóst að þjóðarsáttin svokallaða var fyrir bí og efnahagsmarkmiðin farin úr böndunum.
    Meiri hl. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd. og er í samræmi við það sem bráðabirgðalögin sem sett voru í sumar og frv. sem lagt var hér fram sem 40. mál þessa þings.
    Undir það nál. sem ég las hér áðan rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Eiður Guðnason og Skúli Alexandersson.