Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég sé að formaður fjh. - og viðskn. er í símanum, væntanlega að gera þeim grein fyrir því í hinu háa fjmrn. að það er náttúrlega viðkunnanlegt að fjmrh. sé við í deildinni þegar til umfjöllunar eru bráðabirgðalög um að ógilda hans undirskrift. Ég skil satt að segja ekki hvernig á því stendur að hæstv. forseti skuli ekki hafa gert ráðstafanir til að ná í hæstv. fjmrh. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur þessa umræðu, ekki svo að skilja að mér þyki návera hans í sjálfu sér geðþekk, en ég hygg á hinn bóginn að þingið hljóti að ætlast til þess að hann sé viðlátinn. Ég vil óska eftir því að fá upplýsingar um það hvort hann sé í húsinu, hvort hann sé væntanlegur eða hvort við eigum að gera ráð fyrir því að halda þessum umræðum áfram að honum fjarstöddum. ( Forseti: Forseti mun láta kanna hvort hæstv. fjmrh. er í húsinu.) Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt.
    Þetta er svona kannski ekki óeðlilegt. Það er nú svo að þeir bera sameiginlega ábyrgð á þessum kjarasamningi sem við erum að tala um, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Eins og upplýst var í fjh. - og viðskn. hélt hæstv. forsrh. í höndina á fjmrh. meðan á samningsgerðinni stóð. Hæstv. forsrh. upplýsti á fundi nefndarinnar að hann bæri persónulega fulla ábyrgð á síðustu gerð I. kafla samninganna. Hann skoraðist að vísu undan því að bera ábyrgð á 15. gr. samninganna sem ég mun víkja að síðar og taldi að efni hennar væri ekki í samræmi við það handrit eða uppkast sem hann hafði séð og verið breytt á síðustu stundu efnislega. Við fórum ekki nánar út í það en það var athyglisvert að fulltrúar Bandalags háskólamenntaðra manna könnuðust ekki við að um efnisbreytingar hefði verið að ræða á 15. gr. heldur, þannig að þeim kom mjög á óvart að hæstv. forsrh. skyldi skorast undan ábyrgð á þeirri grein. En við sem fjarstaddir vorum vitum auðvitað ekki hver segir satt. Það er engin leið fyrir okkur að slá neinu föstu um það. Það talar þarna maður á móti manni. Eins og víðar í þessu máli ber mönnum ekki saman. Það sem einn segir svart segir annar hvítt og þannig er nú það.
    Nú skal ég ekki, hæstv. forseti, láta það tefja mína ræðu þó fjmrh. sé ekki viðlátinn en óska sem sagt eftir því að hann sjái sóma sinn í að vera hér. ( Forseti: Forseti vill geta þess að hæstv. fjmrh. mun ekki vera í húsinu en ég hef gert ráðstafanir til þess að náð verði í hann.) Nú veit ég að vísu, hæstv. forseti, að fjmrh. er ekki þingmaður og má vera að hann fái ekki dagskrá þingsins senda af þeim sökum svo að honum hafi verið ókunnugt um að málið hafi verið tekið hér á dagskrá í dag. Ég vil þá biðja um að það séu gerðar ráðstafanir til þess að hann fái dagskrá þingsins eftirleiðis.
    Aðdragandi þess að bráðabirgðalög um launamál voru gefin út 3. ágúst 1990 var í stuttu máli þessi:
    Hinn 18. maí 1989 var undirritaður nýr kjarasamningur milli aðildarfélaga BHMR og ríkissjóðs. Forsrh. og fjmrh. komu einkum að samningsgerðinni á lokastigi. Af því tilefni er viðtal við forsrh. í Morgunblaðinu þar sem hann ,,sagðist mundu standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði áður gefið, eins og í ríkisstjórninni 1985, að kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins ættu að vera sambærileg við það sem gerðist hjá háskólamenntuðum mönnum utan ríkisgeirans``. Síðan er haft orðrétt eftir Steingrími Hermannssyni: ,,Raunar skil ég vel þá tortryggni sem er hjá þeim, vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá þetta fram.``
    Þetta eru orð hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu, en bæði hann og hæstv. fjmrh. hafa ýmist gefið í skyn eða talað um það beinlínis að ýmsir aðrir menn sem hafa gegnt þeirra embættum hafi ekki notið fulls trúnaðar hjá starfsmönnum ríkisins og eru að reyna að gefa einlægt í skyn að þeir muni standa miklu, miklu betur við sín orð gagnvart opinberum starfsmönnum en aðrir hafa gert. Það eru einkum þessir tveir menn sem koma að þessari samningsgerð, formenn stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, formaður Framsfl. og formaður Alþb., sem hafa verið að gefa í skyn að einhverjir aðrir en þeir hafi ekki viljað standa við stóru orðin um að jafna kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu hins opinbera og úti á hinum almenna vinnumarkaði. Báðir hafa þeir hins vegar talað um að sínum orðum sé vel treystandi.
    Fréttamaður Ríkisútvarpsins, Jón Guðni Kristjánsson, átti viðtal við hæstv. fjmrh. um það bil sem undirskriftum samningsins var að ljúka. Þá sagði Ólafur Ragnar Grímsson m.a. orðrétt: ,,... og ég vil láta hér í ljós þá ósk, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að þessi samningur verði upphafið að nýrri sáttargjörð milli ríkisvaldsins og háskólamenntaðra manna og það er einlæg von okkar að þetta verk verði til þess að skapa tiltrú og traust milli aðila``. Svo mörg voru þau orð.
    Starfsmenn þessa sama manns komu á fund okkar í fjh. - og viðskn. og létu þess að sjálfsögðu getið, annar hvor þeirra, að ekki hefði verið allt með felldu um tiltrú opinberra starfsmanna til annarra en þess sem nú gegnir embætti fjmrh.
    Báðir þessir menn sem báru höfuðábyrgð á samningnum, bæði forsrh. og fjmrh., sáu sem sagt ástæðu til að láta þess sérstaklega getið eftir undirskrift samningsins að þeir mundu vilja beita sér sérstaklega fyrir því að við samninginn yrði nú staðið. Mátti kannski ímynda sér að þeirra orð mætti skilja á þann veg að þeir vildu taka bæði persónulega og pólitíska ábyrgð á því að þeirra orðum mætti nú trúa. Og ég hef það áreiðanlega fyrir satt, ég held að mig misminni það ekki, að svo mikið var viðhaft að samningurinn var í heild sinni handskrifaður inn í gjörðabók ríkisstjórnarinnar til þess að sýna nú allri framtíð fram á að þessir tveir menn létu ekki við það sitja að tala við blaðamenn heldur vildu nú bóka það skilvíslega í sjálfu Stjórnarráðinu á ríkisstjórnar - og ríkisráðsfundi að nú skyldu þeir svo sannarlega standa við samninginn.
    En þó að þeir hafi nú kallað þetta mikla þjóðarsátt á þeim tíma voru aðrir menn í þjóðfélaginu sem létu í ljósi efasemdir um að samningurinn væri með þeim hætti að honum væri treystandi, að við hann væri hægt að standa.
    Davíð Oddsson borgarstjóri sagði af sama tilefni: ``Í annan stað er ljóst að þessir samningar eru í raun settir á frost, ef svo mætti segja. Þeir falla að verulegu leyti á næsta ári og árinu þar á eftir og ég er hræddur um að þegar kemur að þeim tíma, að menn ætli að fara að yfirfæra þennan samning á veruleikann, þá lendi menn í óbrúanlegum þverstæðum.``
    Nú hafa hæstv. forsrh. og hinn fjarverandi hæstv. fjmrh. báðir reynt að gerast brúarsmiðir. Þeir hafa sennilega byrjað á sínum endanum hvor en sokkið í árstrenginn þar sem hann var harðastur og rekið þaðan niður á þær fjörur sem helst verða kenndar við það að bregðast undirskrift sinni og standa ekki við þau fyrirheit sem þeir hafa svo útþrykkilega gefið.
    Þorsteinn Pálsson sagði í Morgunblaðinu 20. maí: ,,Það er skrifuð út ávísun á framtíðina sem fjmrh. hefur ekki og getur ekki sýnt fram á að innstæða sé fyrir.`` Þessi orð hafa að fullu ræst.
    Hinn 1. febr. 1990 náðust kjarasamningar milli ASÍ og VSÍ. Kjarni þeirra var sá að freista þess að koma í veg fyrir frekari rýrnun kaupmáttar með því að launahækkunum yrði stillt í hóf sem ætti að tryggja hjöðnun verðbólgu.
    Einar Oddur Kristjánsson, forseti Vinnuveitendasambandsins, hefur skýrt svo frá að þá hafi forsrh. handsalað að ekki kæmi til launahækkana samkvæmt samningi ríkisins við aðildarfélög BHMR. Á fundi fjh.- og viðskn. hefur forsrh. staðfest að þetta sé efnislega rétt. Þó þeir hafi kannski ekki tekist í hendur, þá hafi slíkt samkomulag verið gert milli hans og forseta Vinnuveitendasambandsins.
    Í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 19. ágúst sl. víkur forsrh. að þessum atburðum og segist þar gjarnan hefði viljað standa við samningana við BHMR um að samanburður yrði gerður á kjörum háskólamanna í þjónustu ríkisins og á almennum vinnumarkaði. --- ,,Ég hefði mjög gjarnan viljað standa við þetta,`` segir hann og bætir við síðar í viðtalinu að hann ,,hafi verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf, en það hafi ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Hann hafi þó einu sinni rætt við forsvarsmenn BHMR, þrátt fyrir að þessi málefni heyri ekki undir hann.``
    Við 1. umr. málsins reyndi ég að varpa á það ljósi hvort rétt væri að hann hefði tekið málið upp í ríkisstjórninni eins og hann gerir grein fyrir í viðtalinu, hæstv. forsrh. Ég kvaddi þá hér á fundinn bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. og reyndi að draga það fram hvort hæstv. forsrh. hefði sagt satt um þetta atriði. Þeir sem þá voru viðstaddir eða hafa síðar lesið þessi orðaskipti komast fljótt að raun um að ráðherrarnir vilja ekki tala einum rómi um þetta mál. Þeir vilja með öðrum orðum ekki upplýsa Alþingi um hvort það sé rétt að hæstv. forsrh. hafi tekið þetta mál upp í ríkisstjórninni, en að ekki hafi verið hljómgrunnur fyrir

því í ríkisstjórninni.
    Það er eftirtektarvert að fjölmiðlar hafa ekki talið þetta atriði skipta máli. Þeir hafa fjallað mjög mikið um hina svokölluðu þjóðarsátt en ég hef ekki orðið var við það að fjölmiðlafréttamenn hafi reynt að kryfja þetta mál frekar, brjóta það til mergjar og spyrja ráðherrana um það hvern og einn hvort það hafi verið tekið upp í ríkisstjórn að rætt yrði við háskólamenntaða menn á grundvelli þjóðarsáttar og hvort það sé rétt sem hæstv. forsrh. sagði í viðtalinu við Morgunblaðið að ekki hafi verið hljómgrunnur fyrir því innan ríkisstjórnarinnar.
    Þetta mál hefur margsinnis borið á góma í opinberri umræðu. Hæstv. forsrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að leiðrétta það sem eftir honum er haft í Morgunblaðinu þannig að ég geng út frá því að það sé rétt, þori samt ekki að fullyrða nema hann kunni að segja nú að hann reki ekki minni til þess að hafa sagt þetta.
    Annað sem er athugavert, hér talar hæstv. forsrh. um það að hann hafi rætt við forsvarsmenn háskólamenntaðra manna þótt kjaramálin heyri ekki undir hann. Við í nefndinni spurðum háskólamenntaða menn hvort þá ræki minni til að þessi fundur hafi verið haldinn og töldu þeir að forsrh. ætti við þann fund sem haldinn hafði verið í janúarmánuði af því tilefni að stjórn Bandalags háskólamenntaðra manna hafði skrifað hæstv. fjmrh. í desembermánuði bréf þar sem kvartað var undan því að vinnubrögð í samstarfsnefnd BHMR og fjmrn. væru með óviðunandi hætti. Bréfi fjmrh. hefur enn ekki verið svarað, að ég hygg, og vegna þess tómlætis sem hæstv. fjmrh. sýndi opinberum starfsmönnum skrifuðu þeir hæstv. forsrh. bréf sem formaður Bandalags háskólamenntaðra manna lýkur með þessum orðum:
    ,,Ég vil með þessu bréfi leggja áherslu á hlutverk þitt [þ.e. forsrh.] og ríkisstjórnarinnar við gerð þessa samnings og óska því eindregið eftir því að þú beitir þér innan ríkisstjórnarinnar fyrir því að lausn verði fundin á þessum málum. Hingað til hefur BHMR ekki talið rétt að opinbera þessar vanefndir í þeirri von að ríkið muni standa við gefin fyrirheit. En nú hefur fjmrh. ekki aðeins með tómlæti vanrækt samninginn heldur með beinum hætti brotið gegn honum. Við það mun BHMR ekki una.``
    Svo mörg eru þau orð sem persónulega er beint til hæstv. forsrh. Nú má segja að eftir að bráðabirgðalögin voru sett skipti kannski ekki máli hvernig ríkisstjórnin hafi staðið að því að reyna að efna samninginn frá 1979. Eftir þeim upplýsingum og gögnum sem við höfum í nefndinni virðist málið vera þannig vaxið að forsrh. hafi fengið þetta bréf, hann hafi átt einn fund með stjórn Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, hann hafi síðan eftir að þjóðarsáttarsamningarnir svokölluðu voru gerðir tekið málið einu sinni upp í ríkisstjórninni, hann hafi mætt tómlæti hjá öðrum ráðherrum. Mál hans fékk ekki hljómgrunn og þá lét hann það niður falla. Með öðrum orðum að hæstv. forsrh. hafi látið undir höfuð leggjast að rækja þá skyldu sína sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar að bregðast fljótt og hratt og vel við þegar starfsmenn

hans, háskólamenntaðir, kvarta undan því að samningar séu ekki efndir sem sjálfur forsrh. bar persónulega ábyrgð á, efnisatriðum þeirra og þar með vinnubrögðum, ekki síst eftir þau ummæli sem hann hafði látið falla um þá.
    Þegar sýnt var að ríkisstjórnin ætlaði ekki að efna samninginn höfðaði BHMR mál fyrir Félagsdómi og féll dómur 23. júlí þar sem fallist var á kröfur BHMR um 4,5% launahækkun frá 1. júlí.
    Þótt Halldór Ásgrímsson í fjarveru Steingríms Hermannssonar og Ólafur Ragnar Grímsson hefðu lýst því yfir að ekki kæmi annað til greina en hlíta niðurstöðum dómsins voru bráðabirgðalögin um launamál gefin út 3. ágúst 1990 þar sem kjarasamningarnir voru í raun felldir úr gildi.
    Nú hlýt ég, herra forseti, að vekja athygli á því að í þessari hv. deild eiga tveir ráðherrar sæti, sem persónulega komu að þessum kjarasamningum og viðræðunum við opinbera starfsmenn. Það er hæstv. iðnrh. sem sat fundi með þeim forsrh. og fjmrh., og það er hæstv. sjútvrh. sem lýsti því yfir að niðurstöðum Félagsdóms yrði ekki hnekkt með bráðabirgðalögum, og átti einnig viðræður við opinbera starfsmenn sem lagðar hafa verið fram sem réttargögn í því máli sem nú liggur fyrir Félagsdómi. Ég vil enn fremur benda á það að hæstv. fjmrh. er víðs fjarri en hann hlýtur auðvitað að hafa sérstakar pólitískar skyldur til þess að vera viðstaddur hér í deildinni.
    Allir þessir fjórir ráðherrar hafa komið svo mikið að þessari sögu að það er auðvitað hrein ósvinna að framsögumaður nefndar skuli þurfa að kvarta undan því að þeir séu ekki hér viðstaddir, hrein ósvinna að hæstv. forseti skuli ekki þegar í stað gera ráðstafanir til að þeir komi hingað inn í deildina.
Ég vil nú óska eftir því að um það verði séð að þessir ráðherrar sitji hér við sín borð. Þetta lýsir fullkomlega þeirri lítilsvirðingu sem þetta þing, þessi heilagi staður, verður að búa við nú þegar við búum við Estrups-lýðræði á Íslandi. Alræmdur danskur forsætisráðherra sem stjórnaði með tilskipunum og illa þokkaður í íslenskri sögu. Við sitjum nú uppi með annan eins. Og þeir ráðherrar sem eru samsekir hirða ekki um að mæta hér í deildinni til þess að hægt sé að skiptast á orðum við þá. ( Forseti: Forseti sem hér var áðan tjáði mér að hann hefði leitað að þeim ráðherrum sem í nálægð eru, en hæstv. sjútvrh. situr ekki á þingi sem stendur, eins og hv. þm. er kunnugt.) Ég hygg að hæstv. sjútvrh. hafi seturétt og hann ber persónulega ábyrgð á þessum samningum.
    Það eru skiptar skoðanir um það hvort bráðabirgðalögin standist ákvæði stjórnarskrár. Við spurðum hæstv. forsrh. að því á fundi fjh.- og viðskn. hvort álitsgerð frá lögmanni eða lögfræðingi lægi fyrir varðandi það atriði. Hann taldi upp nokkra lögfræðinga, flestir þeirra eru undirmenn ráðherra, starfsmenn Stjórnarráðsins. Ekki liggur neitt skriflegt fyrir frá neinum þessara lögfræðinga. Enginn þeirra hefur lagt nafn sitt við slíkan pappír og þess vegna var ekki um það að ræða að nefndin gæti kynnt sér þær lögfræðilegu álitsgerðir sem ríkisstjórnin kynni að hafa aflað

sér áður en bráðabirgðalögin voru sett af þeirri einföldu ástæðu að slíkar álitsgerðir eru ekki til. Það lýsir auðvitað vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Það má færa fyrir því gild rök að þessi bráðabirgðalög standist ekki ákvæði stjórnarskrár. Það lá fyrir 1. febr. að ríkisstjórnin hafði einsett sér og ákveðið að ekki skyldi koma til þess að samningarnir við BHMR gengju í gildi. Þá þegar hafði ríkisstjórnin metið það nauðsynlegt að samningarnir yrðu felldir úr gildi. Þess vegna bar henni á þeirri stundu að leggja frv. um þau efni fram á Alþingi. Það er fullkomlega út í hött að halda að ákvæði stjórnarskrárinnar eigi við það að ráðherra hafi gert sér grein fyrir því fyrir sex mánuðum að tiltekin lagasetning væri nauðsynleg, hafi gleymt að leggja frv. fyrir þingið og þetta ákvæði gefi einstökum ráðherrum af þeim sökum rétt til að gefa út bráðabirgðalög fyrir gleymsku sakir.
    Það kom einu sinni fyrir að sveitarstjórinn í Ólafsvík gleymdi að leggja á útsvar. Þá var lagt fram sérstakt frv. á Alþingi til þess að reyna nú að bæta úr því og láta Ólafsvíkinga borga útsvarið sitt. Er þetta ekki rétt munað? Ja, það var einhvers staðar fyrir vestan. Og Alþingi brást vel við og ég veit að við mundum auðvitað hafa gert eins við hæstv. forsrh., ef hann hefði gleymt að leggja frv. fram í tíma, að veita afbrigðin. En hitt er misskilningur að það standi einhvers staðar í stjórnarskránni ,,ef brýna nauðsyn ber til, vegna gleymsku er heimilt`` o.s.frv., það stendur ekki.
    Sumir vilja halda því fram að það að Hæstiréttur hefur aldrei hnekkt bráðabirgðalögum þýði að stjórnmálamenn geti farið með þetta ákvæði stjórnarskrárinnar að eigin geðþótta. Stjórnmálamenn hafa margir hverjir, sérstaklega þeir sem við völd eru hverju sinni, reynt að sannfæra sjálfa sig um að ákvæði stjórnarskrárinnar um ,,brýna nauðsyn`` sé merkingarlaust. Og stjórnmálamenn geta verið í þessari trú svo lengi sem Hæstiréttur kveður ekki upp úrskurð um annað. En það kann svo að fara að Hæstiréttur gefi þann úrskurð í þessu tilfelli að um brot á stjórnarskránni sé að ræða. Hitt er a.m.k. ljóst að tveir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir, raunar þrír, ég veit nú ekki hvað á að segja um þennan Alþfl., hann er svona hér og þar eins og ríkisstjórnin í heild sinni --- að rétt sé að nema úr gildi ákvæði stjórnarskrárinnar um útgáfu bráðabirgðalaga einmitt vegna þess hversu misnotkun á því hefur verið mikil.
    Í 4. gr. bráðabirgðalaganna er kveðið á um að 5. og 15. gr. kjarasamninga milli aðildarfélaga BHMR og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs frá 18. og 19. maí 1989 skuli falla úr gildi. Ég hlýt, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því að í lagatexta er talað um að þessar greinar falli úr gildi, en hvorki í frv. sjálfu né greinargerð með því er að finna hvað í þessum texta stendur. Það er ekki hægt að sjá það á frv. hvert sé efnisatriði laganna, hvaða greinar eigi að nema úr gildi, hvert sé efni þeirra. Hlýtur að vera ámælisvert að láta ekki kjarasamningana fylgja með sem fylgiskjal þegar þessi bráðabirgðalög voru lögð fram í þinginu. Ég hef nú bætt úr því og læt prenta samningana

sem fylgiskjal með nál. mínu.
    Í 5. gr. kjarasamninganna er einkum eitt atriði sem skiptir máli í þessu sambandi: ,,Hafi nefnd skv. 3. mgr. 2. gr. ekki skilað lokaáliti hinn 1. júlí 1990, skal greitt upp í væntanlega hækkun þannig að tilfærslur milli launaflokka skv. 3. mgr. verði að jafnaði 1 / 2 launaflokki meiri en lágmark skv. 3. mgr. hefði verið frá 1. júlí 1990. Við endanlega ákvörðun áfangans skal þó enginn lækka í launaflokki.
    Í stað tilfærslu milli launaflokka skv. þessari grein er aðilum heimilt að semja um önnur kjaraatriði, er jafngildi þeirri launaflokkatilfærslu, sem tilefni gefst til eða hluta hennar.``
    Þetta atriði, sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur sagt í nefnd að hann hafi samþykkt í einstökum atriðum, tók fram að það gæti verið að breytt hefði verið orðalagi þar sem það skipti ekki máli, kannski eður í stað eða, svo ég segi eitthvað, og/en eða eitthvað lítilfjörlegt. Efnislega er þessi lagagrein eins og forsrh. gekk frá henni. En í bráðabirgðalögunum, sem hann sjálfur gefur út, er skýrt tekið fram að þessi grein skuli þegar í stað falla öll úr gildi, þegar í stað. Hann er þarna að gefa út bráðabirgðalög beinlínis til þess að strika út grein í kjarasamningi við opinbera starfsmenn, sem hann sjálfur ásamt fjmrh. átti þátt í að semja. Þetta er auðvitað siðlaust. Hann skorast undan því að bera ábyrgð á 15. gr. þar sem segir: ,,Verði almennar breytingar á launakjörum annarra launþega eftir 30. nóv. 1989, þannig að þau hækki umfram launabreytingar skv. 12. gr., geta aðilar krafist breytingar á launaliðum sem því nemur.`` Hann segist ekki bera ábyrgð á þessu. Þessi grein er einnig úr gildi felld með bráðabirgðalögunum.
    Hvergi, ég fullyrði hvergi, í nálægum löndum væri það hugsanlegt að fjármálaráðherra sem hefur hagað sér með þessum hætti sæti áfram í ríkisstjórn. Ég efast um að forsætisráðherra kæmist upp með þetta erlendis, ég er hér um bil viss um að hann gerði það ekki. Áreiðanlega ekki í Bretlandi. Ég er fullkomlega viss um að enginn fjármálaráðherra kæmist upp með annað eins og þetta. Að láta forsrh. sinn gefa út bráðabirgðalög til þess að fella úr gildi heildarsamning, sem hann ásamt forsrh., báru sjálfir persónulega ábyrgð á. Stóðu sjálfir í persónulegum viðræðum við viðsemjendur sína, hina háskólamenntuðu menn, tóku báðir skýrt fram um leið og þeir gerðu það að forverum þeirra hefði ekki verið treystandi til þess að minnka launamuninn milli háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins og annars staðar, en nú skyldi öðruvísi staðið að verki, báðir tveir. Og svo er það bara allt í lagi, allt í besta lagi, skiptir engu máli. Meira að segja ef einhver leyfir sér að finna að því og segja að ekki sé eðlilegt að slíkir menn fari með stjórn landsins þá er sagt að þeir séu að bregðast þjóðarsátt, þeir sem ekki sætta sig við að slíkir menn gegni áfram þessum störfum.
    Það var eftirtektarvert á fundi fjh.- og viðskn., herra forseti, --- nú er svo komið að meira að segja formaður fjh.- og viðskn. er ekki einu sinni í deildinni. Ætli það sé ekki rétt að gera ráðstafanir til þess

að hann sé við? Ég tala náttúrlega ekki um fulltrúa Alþfl. eða Framsfl. í fjh.- og viðskn. Umræðan hefur staðið nú í tæpa klukkustund. Það er náttúrlega óþolandi að hafa ekki fjmrh. hér. Á fundi fjh.- og viðskn. lýsti aðstoðarmaður hans því yfir að það hefði staðið á Gallup að hægt væri að ljúka samningunum við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Þeir hefðu átt að skila inn niðurstöðum úr könnun á launamismun fyrir 1. júní, sem þeir hefðu ekki gert. Þessi ummæli urðu til þess að við báðum um það í fjh.- og viðskn. að fá fulltrúa frá þessari stofnun á fundinn. Þar kom fram, sem síðan hefur verið staðfest við mig símleiðis af formanni Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, að frumskýrsla Gallups var lögð fram á tilskildum tíma, gagnavinnslu lauk í júnímánuði og það kom meira að segja fram skýrlega hvort kjaramismunur, launamismunur væri á milli háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins og á hinum almenna vinnumarkaði. Á hinn bóginn er þetta mál mjög flókið. Það er góð samvinna milli Gallups og viðsemjenda og aðila bæði í fjmrn. og hjá BHMR. --- Ég vil nú þakka fyrir að formaður nefndarinnar er viðstaddur, því ef ég fer rangt með það sem sagt er getur hann leiðrétt mig. Það kom fram að enn er verið að ná fram ýmsum upplýsingum úr tölvunni, þetta mál er mjög flókið og nú er aftur farið að vinna að þessu máli með skaplegum hætti. Hins vegar lýsti starfsmaður fjmrn. því yfir að á þessari stundu lægju engar upplýsingar fyrir um það að launamunur væri á milli háskólamenntaðra manna á almennum vinnumarkaði annars vegar og í opinberri þjónustu hins vegar. Launamunur hefur ekki verið staðreyndur enn, sagði aðstoðarmaður fjmrh. Ég sé að formaður nefndarinnar kinkar kolli til merkis um að ég fari þarna rétt með.
    Nú hef ég haft símasamband við formann Bandalags háskólamenntaðra manna og spurt hann hvort þetta sé rétt með farið. Það er vandasamt að ræða um þetta því hér er um trúnaðarmál að ræða. Við fengum í nefndinni tilteknar upplýsingar frá Gallup á Íslandi sem trúnaðarmál og ég skal ekki bregðast því, en tel óhjákvæmilegt að fram komi að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna telur, þvert ofan í ummæli aðstoðarmanns fjmrh., að þegar liggi fyrir að um verulegan launamun sé að ræða.
    Nú er fjmrh. ekki viðstaddur þannig að ég get ekki innt hann eftir hvernig á þessum yfirlýsingum stendur, hvort sé rétt, og læt forsrh. eftir hvort hann vill upplýsa um það og eyða þeim vafa sem þarna er. En ég tel það síður en svo til þess að bæta úr málinu úr því sem komið er að það séu alls konar sagnir á sveimi um það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Og auðvitað er það forkastanlegt hvernig bæði hæstv. fjmrh. og aðstoðarmaður hans hafa talað um viðsemjendur sína á nefndarfundum og í opinberri umræðu.
    Hinn 13. júlí voru undirritaðir kjarasamningar milli fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Félags ísl. flugumferðarstjóra. Hann er skýrður með því að í samræmi við reglugerð nr. 240 1989 skuli hámarksaldur flugumferðarstjóra vera 60 ár og þrem árum betur, ef viðkomandi er við góða heilsu, í stað 70 ára áður. Í

kjarasamningnum er gert ráð fyrir að svokölluð föst yfirvinna, sem ekki hefur verið unnin, skuli felld inn í mánaðarlaunin í tveim áföngum. Hér er um 44 stundir að ræða sem eytt var með sex launaflokka hækkun 1. ágúst sl. og sjö launaflokka hækkun 1. jan. sl. Það jafngildir 39% hækkun mánaðarlauna með samsvarandi hækkun á yfirvinnu, gæsluvöktum og vaktaálagi og svo að sjálfsögðu með 39% hækkun á eftirlaunum. Þá er samið um að laun flugumferðarstjóra hækki um 4,5% á tímabilinu 1. sept. 1991 til 31. des. 1991 og um 4,26% eigi síðar en 1. júní 1992. Orðalag samkomulagsins og bókunar um niðurstöður og lokafrágang, sem birt er sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu, bendir ótvírætt til að þessar launahækkanir skuli vera umfram það sem um semst á almennum vinnumarkaði. Að öðrum kosti er ekki hægt að sjá að hin sérstaka bókun hafi neitt að segja. Og þessi sérstaka bókun er birt sem fylgiskjal með nál. mínu.
    Nú er hér að vísu talað um 9% hækkun umfram það sem var hjá opinberum starfsmönnum, þar sem talað var um það að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn fengju 4,5% umfram þjóðarsátt 1. júní sl. Hér er talað um að flugumferðarstjórar fái 4,5% plús 4,26%. Ég vitna hér til nál. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. lagði fram í Nd. Þar er birt niðurstaða, dæmi um breytingar verðlags á næstu mánuðum. Það er Þjóðhagsstofnun sem gerir spá um verðbólguþróun á næstu mánuðum ef samningur við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna fái að halda gildi sínu, ef launin hækki um 4,5% 1. júlí og sú hækkun fái að haldast, eftir yfirlýsingar Vinnuveitendasambandsins um að aðrir muni fá hinar sömu hækkanir.
    Nú skulum við hugsa okkur að Einar Oddur og Þórarinn V. Þórarinsson lýsi því yfir að þeir muni hækka laun þeirra sem eru í Alþýðusambandi Íslands um 4,5% á tímabilinu frá 1. sept. til áramóta og um 4,29% á eftir, samtals 8,79%, um leið og búið er að hækka hjá flugumferðarstjórunum. Og nú ætla ég að lesa fyrir hæstv. forsrh. hvað Þjóðhagsstofnun segir um annað eins og þetta, samninginn. Við getum sett samasemmerki á milli samningsins við flugumferðarstjórana og samningsins sem forsrh. gerði 1989, nákvæmlega hliðstætt. Það er aukahækkun sem á að koma einu ári og tveim mánuðum síðar, ekki strax. Það á að bíða í rúmt ár, þá á hækkunin að koma, 4,5%, 1991 hjá flugumferðarstjórunum, 1. júlí 1990 hjá háskólamenntuðum mönnum. Undir fyrri samninginn var skrifað 18. maí 1989, hann á að taka gildi 1. júní 1990,
undir hinn síðari var skrifað 13. júlí 1990, hann á að rætast 1. sept. 1991, jafnlangur tími hér um bil upp á dag. Mismunurinn er innan mánaðar. Þ.e. eftir 13 -- 14 mánuði á að hækka í báðum tilvikum um 4,5% og í báðum tilvikum er sagt að þetta eigi að vera umfram það sem aðrir fá. Hjá flugumferðarstjórunum er sagt: Nú er þjóðarsátt. Við getum ekki hækkað hjá ykkur núna um 4,5% meira en aðrir hafa fengið, en við skulum gera það eftir 13 1 / 2 mánuð. Hvað gerist síðan? Þjóðhagsstofnun hefur komist að niðurstöðu um

það, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Niðurstöður þessara útreikninga sýna að verði víxlhækkanir verðlags, launa og gengis með þeim hætti sem að framan greinir stefnir í stöðugt vaxandi verðbólgu. Tilgangslítið er að reikna slík dæmi langt fram í tímann. Ljóst er að á nokkrum mánuðum yrði þriggja mánaða hraði verðbólgunnar miðað við heilt ár kominn í tugi prósenta. Í þeim dæmum sem reiknuð voru var verðbólga á þennan mælikvarða í fyrsta dæminu komin í 22% í júlí 1991,`` --- í dæmi flugumferðarstjóra kemur ekki júlí 1991 heldur september 1992 --- ,,27% í öðru dæminu og í tæplega 40% í því þriðja.
    Í öllum þessum dæmum mun kaupmáttur launa aukast umtalsvert fyrst í stað og líklegt að almenn eftirspurn fari vaxandi. Það má því reikna með, ef þessi þróun gengur eftir, að þau markmið um viðskiptahalla og litla aukningu þjóðarútgjalda, sem sett voru fram í þjóðhagsáætlun 1991, standist ekki. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að þetta eru ekki ótvíræðar niðurstöður því að óvissuatriðin eru mörg í þessum dæmum.`` Þetta er niðurstaða Þjóðhagsstofnunar, fjallar um afleiðingar samningsins við flugumferðarstjóra eins og nú er komið.
    Nú kynni einhver að segja við mig og minn málflutning að þetta sé út í hött, þetta hafi bara alls ekki borið á góma. Engum manni hafi á þessum tíma dottið í hug að velta því fyrir sér hvað aðilar vinnumarkaðarins mundu gera eftir 1. sept. 1991. En þá er það heldur ekki rétt. Hinn 27. júlí áttu Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna, Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri sömu samtaka, og Eggert Lárusson, formaður Hins íslenska kennarafélags, fund með Steingrími Hermannssyni, Jóni Sigurðssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Fundargerð af þessum fundi liggur fyrir í þeim dómsskjölum sem lögð hafa verið fram fyrir bæjarþing Reykjavíkur vegna þeirra málaferla sem þar hafa risið út af kjarasamningi opinberra starfsmanna út af bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar, orðum og efndum hæstv. ríkisstjórnar. Samkvæmt fundargerð spurði Birgir Björn Sigurjónsson hvort ráðherrarnir sæju nokkurs staðar á næstu árum tækifæri til að læða að leiðréttingum til Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Þessu svaraði forsrh. svo samkvæmt fundargerðinni, með leyfi hæstv. forseta. Ég vil taka fram að þegar hæstv. forsrh. mælir þessi orð er búið að skrifa undir nýja kjarasamninga við flugumferðarstjóra þar sem þeim er lofað launahækkun 1. sept. á árinu 1991. Á sama tíma og Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna er að spyrja er búið að semja við þá um 4,5% launahækkun á þeim tíma og svo 4,27% til viðbótar, eða hvað það var. ( Forsrh.: Samkvæmt fundargerðinni.) Samkvæmt fundargerðinni, segir hæstv. forsrh. Nú veit ég auðvitað ekkert hvort þetta er rétt haft eftir, en samkvæmt fundargerð háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins segir forsrh. efnislega:
    ,,Göngum í gegnum úrskurð skv. 9. gr. um leiðréttingartilefnið og ríkið er skuldbundið af samningnum. Þótt þetta tækist í haust eru ákvæði af öðrum

samningum sem leiða til víxlverkana. Finnst líklegt að unnt sé að sannfæra þjóðina um leiðréttingu, enda komi hún ekki til framkvæmda fyrr en eftir þjóðarsáttina. Ef þeir semja aftur þjóðarsátt sem fæli í sér frystingu á kjörum BHMR`` --- hæstv. forsrh. notar sama orðið og borgarstjóri: frysting á kjörum BHMR --- ,,þá veltur ábyrgð þeirra á þessari ráðagerð. Ég efa að þeir geti það. Ríkisstjórnin ætlar ekki að raska þjóðarsáttinni. Um það er samkomulag.``
    Svo mörg eru þau orð. Þá langar mig að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji þá ekki efni koma til að standa við samninginn við flugumferðarstjóra ef Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið gera athugasemdir við hann, hvort hann telji að þá sé hann siðferðilega skuldbundinn til þess að reyna að koma í veg fyrir að staðið verði við þann samning einnig.
    Á þessum sama fundi lýsti hæstv. fjmrh. því yfir og gætti hneykslunar í frásögninni. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. var hneykslaður eða hvort það var ímyndun þess sem niður skrifaði. En í frásögninni gætti hneykslunar þegar fjmrh. var að segja þeim í Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna að Vinnuveitendasambandið vildi eyðileggja samninginn sem ríkisstjórnin hefði gert við Bandalag háskólamanna.
    Ég sé svo ekki ástæðu, hæstv. forseti, til að hafa þessi ummæli mikið lengri. Ég vísa til umræðna í Nd. um þetta efni. Þar sá hæstv fjmrh. ástæðu til þess að vera viðstaddur. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að reyna að ná sambandi við þann eðalborna og vekja athygli hans á því að umræðan sé hér í gangi áður en 3. umr. hefst þannig að honum gefist nú kostur á að vera aðeins við kurteisinnar vegna. Hann vill nú vera kurteis maður á yfirborðinu a.m.k., þannig að hann viti um þetta. Mér finnst líka rétt að hæstv. iðnrh., sem var í viðtalsnefnd við Bandalag háskólamenntaðra manna rétt um þær mundir sem bráðabirgðalögin voru sett, gaf þá m.a. yfirlýsingar sem stangast á við það sem fram hefur komið í fjh. - og viðskn., sé jafnframt sagt að hér sé verið að ræða um þessi mál. Ég veit ekki hvort það er tilefni til þess að hæstv. samgrh., sem gaf út reglugerðina sem leiðir til þess að verið er að hækka mánaðarlaun flugumferðarstjóra um 39% nú í tveim áföngum, breyta 44 tímum í mánaðarlaun upp á 39%, 39% hækkun eftirlauna. Er það almenn skoðun og stefna ríkisstjórnarinnar ef vinnutími styttist? Það er mikil krafa um það í vestrænum löndum að reyna að stytta vinnutímann hjá ýmsum starfsstéttum, að aðrar starfsstéttir eigi þá kröfu á leiðréttingu af því tagi sem flugumferðarstjórar hafa nú fengið. Segjum t.d. að kennurum verði gert að hætta 65 ára gömlum. Er þá sjálfgert að þeir eigi að fá að hækka um 4 1 / 2 launaflokk af því tilefni, um tæp 20%, 19,5% í launum og hækka um leið þeirra ellilaun um 19,5%? Er þetta virkilega svo? Og ég spyr: Getur hinn almenni vinnumarkaður staðið undir slíkri hækkun á skuldbindingum lífeyrissjóðanna? Mig langar af þessu tilefni að spyrja hæstv. forsrh. hvar frv. sé statt, sem búið er að semja, um samræmingu á lífeyrissjóðunum þar sem gert er ráð fyrir að breyta greiðslum í

þá og úr þeim með þeim hætti að von sé til að þeir geti staðið undir sér? Hvað því frv. líði eða hvort hæstv. forsrh. telji kannski að lífeyrissjóðirnir séu almennt með góða fjárhagslega stöðu.
    Ég vil líka vekja athygli hæstv. forsrh. á því að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og líka í fyrra var dregið úr fjárveitingum í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Ríkisstjórnin sá ekki ástæðu til að efna þau fyrirheit sem gefin höfðu verið um greiðslur í sjóðinn. Á sama tíma og hér er verið að íþyngja sjóðnum allverulega, búa til nýjar skuldbreytingar, nýja venju, sem við sjáum ekki fyrir endann á. Ég vil að þetta komi skýrt fram.
    Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji það samræmast ákvæðum um þjóðarsátt að nú verði gengið í það í sambandi við einstakar starfsstéttir opinberra starfsmanna sem hafa þessa föstu yfirvinnu sem ekki er unnin að breyta henni bara svona með einu pennastriki í föst mánaðarlaun sem hafi síðan áhrif til hækkunar á vaktaálag og annað slíkt. Og ég vil spyrja: Þeir samningar sem nú er verið að gera við lækna víðs vegar um landið, heilbrigðisstéttir, fela þeir líka í sér fyrirheit um að það megi hækka laun svo og svo mikið eftir 1. sept. á þessu ári? Hvar lýkur þessu öllu saman? Hvenær endar þetta? Hvar endar þetta?
    Ég hef hér í höndum samning við flugumferðarstjóra og taxta þeirra. Samkvæmt þeim kjarasamningi sem fyrir liggur eiga mánaðarlaun á samningstímanum að hækka í samræmi við kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði hinn 1. júní 1990 um 1,5%, 1. des. 1990 um 2%, 1. mars 1991 um 2,5% og 1. júní 1991 um 2%. Samkvæmt þeim texta sem ég hef hér í höndum var einingarverð yfirvinnu í desember 1420,14 kr. en hefur hækkað 1. jan. í 1702,35 kr. Einingarverð fyrir gæsluvaktir hefur hækkað frá desember úr 349,90 í 419 kr. í janúar. Vaktaálag hefur hækkað úr 259,16 kr. í desember í 310 kr. í janúar og vaktaálag annað 45%, sem ég kann ekki að skilgreina, hækkar úr 349,90 kr. í 419,43 kr. Hér er með öðrum orðum um sérstaka launahækkun að ræða sem felur í sér hækkanir frá desember til janúar á launum flugumferðarstjóra umfram þá breytingu, sem auðvitað hefur ekki í för með sér launahækkun, að yfirvinnu er breytt í mánaðarlaun. Það eitt út af fyrir sig hefur ekki í för með sér hækkun launa nema, eins og ég segi, vegna hins að með því að hækka mánaðarlaunin hækkar sá grunnur sem vaktaálag og yfirvinna er reiknuð út frá. Ég sé ekki betur en með þessu sé verið að brjóta það samkomulag sem gert var um þjóðarsátt og þessi ákvæði standist tæplega, nema þá eftir skoðun, þau bráðabirgðalög sem hér liggja fyrir.
    Ég er hér sem sagt með töflu frá Launaskrifstofu ríkisins dags. 23. jan. 1991 og spurning mín til hæstv. forsrh. er: Hvernig má það vera að launahækkanir séu til þessarar sérstöku stéttar nú í janúarmánuði sem aðrir þjóðfélagsþegnar geta ekki vænst að fá?