Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara nokkrum af þeim spurningum sem komu fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal þó ég telji mig nú hafa komið inn á þær flestar áður. Ég vil byrja með því að leiðrétta smámissögn, ef ég má orða það svo, sem kom fram í hans máli. Ég gerði aldrei samkomulag við formann Vinnuveitendasambands Íslands um eitt eða neitt í þessu sambandi. Ég lýsti þeirri skoðun minni við formann Vinnuveitendasambands Íslands að þetta mundi ekki leiða til víxlhækkana vegna ákvæðis 1. gr.
Það er ekki rétt að kalla það samkomulag. Ég þurfti ekkert að semja við hann um það. Ég lýsti þeirri skoðun minni að þetta mundi ekki leiða til hækkana og hann hefur kallað það handsal. Menn geta kallað það hvaða nafni sem er.
    Hv. þm. ræddi nokkuð um muninn á kjörum Bandalags háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins og þeirra sem utan eru. Ég hef hvað eftir annað lýst þeirri skoðun minni að ef um mun er að ræða eigi að leiðrétta hann. Ég hef gert það oftar en nú í þessari ríkisstjórn. Ég gerði það í ríkisstjórninni 1983 -- 1987 t.d. Það er rétt sem ég hef einnig látið koma hér fram að ég lagði til að sæst yrði á það að þessi samanburðarvinna yrði unnin og síðan hafin leiðrétting á henni eftir að þjóðarsátt lýkur. Þetta hafa sumir gagnrýnt og sagt: Er ekki óvarlegt að vísa á þann tíma? En ég hef svarað því þannig að þá liggi þessi samanburður fyrir. Menn geti skoðað hann og menn geti sannfærst um það að hann sé rétt og skilmerkilega unninn og þá væntanlega aðilar hins almenna vinnumarkaðar fallist á að leiðrétt verði á þeim grundvelli og þá hafa þeir þennan samanburð fyrir sér þegar þeir gera nýjan kjarasamning.
    Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur átt ýmsa fundi, eins og hann hefur lýst, með hinum ýmsu félögum Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og eflaust verður þessari vinnu áfram haldið þó að ég hafi ekki kynnt mér það. Ég veit ekki hvort hv. þm. getur hlustað líka. Hann gerir stundum athugasemdir þegar hann er að tala við mig en ég ætla bara að hinkra við. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. vill að ég svari, þá er kannski viðkunnanlegra að hann hlusti en út af fyrir sig er það ekki mitt mál.
    Hv. þm. vísaði í fundargerðir Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem ég þekki ekki og hef aldrei séð þær. Í fljótu bragði sýndist mér þessu nokkuð rétt lýst, en ég man ekki eftir því að ég sæti fundi þar sem þeir héldu fundargerðir. Þó má það vel vera. Ég þori ekki að sverja gegn því. En mér heyrist í fljótu bragði því nokkuð rétt lýst, sem ég kom að áðan, að ég teldi unnt, ef allur samanburður lægi fyrir og væri vel unninn, að sannfæra hinn almenna vinnumarkað um að það bæri að leiðrétta þannig að háskólamenntaðir menn innan ríkisins nytu sömu kjara og t.d. Vinnuveitendasambandið greiðir sínum.
    Samningurinn við flugumferðarstjóra hefur nú ekki verið út af fyrir sig á mínu borði. Um hann er þó það

að segja að þar eru mjög sérstakar aðstæður því að þess hefur beinlínis verið krafist alþjóðlega af öryggisyfirvöldum flugsins að vinnulífslengd getum við sagt eða vinnualdur flugumferðarstjóra verði styttur, þeir vinni ekki til þess aldurs sem þeim er leyft hér. Þetta hefur skapað veruleg vandræði í þessu sambandi. Ef samkvæmt kröfu erlendis frá á að stytta starfsaldurinn skerðist þar með að sjálfsögðu það sem þeir fá úr lífeyrissjóði. Það var við þetta sem tekist var á og reynt að leysa með þeim samningi sem hæstv. fjmrh. og hans menn gerðu við flugumferðarstjóra. Og til að valda þarna engum vandræðum þá var þessu öllu frestað, sem er út af fyrir sig ekki gott mál, en menn vildu þó ekki að þetta ylli deilum og litu svo á reyndar að bráðabirgðalögin sem voru sett nái einnig til slíkra kjarasamninga og því væru þeir með bráðabirgðalögunum einnig ógildir. Sú er ástæðan fyrir því að horfið var frá þessari lagfæringu í fullu samkomulagi við flugumferðarstjóra.
    Hv. þm. spurði einnig um lífeyrissjóðsfrv. Það er einnig réttara að hæstv. fjmrh. svari því. Það hefur verið í milliþinganefnd og eftir því sem ég best veit hefur ekki náðst um það samkomulag, því miður. Þetta er mjög flókið og viðamikið mál sem ég fyrir mitt leyti tel afar slæmt að ekki skuli unnt að leiða til lykta, en það hafa verið gerðar athugasemdir, ekki síst af ríkisstarfsmönnum.
    Samningur við lækna var gerður að umræðuefni. Það er með þann samning eins og alla að þess hefur verið vandlega gætt að halda sér innan við eða sem allra næst þjóðarsáttinni. Ef hv. þm. er að spyrja um samning við sérfræðingana þá eru þeir mjög sérstakir að því leyti að fyrir tveimur árum var samið við sérfræðinga um að gefa afslátt sem næmi um 80 -- 90 millj. kr. af greiðslum frá Tryggingastofnun. Þegar síðan reynsla fæst á þann samning kemur í ljós að sá afsláttur sem þannig fæst er um það bil 130 millj. kr. Sérfræðingarnir bentu á það, að mínu mati með töluverðum rétti, að í öllum þeirra samningum hefði verið gert ráð fyrir að afslátturinn væri, eins og ég sagði áðan, miklu minni eða 80 -- 90 millj. kr. Þeir kröfðust þess að það sem þarna væri umfram yrði allt greitt, þ.e. að skalinn yrði hækkaður þannig að þeir fengju til baka þessar 40 -- 50 millj. kr. Á það var ekki fallist og að lokum samdist um það að draga úr þessum afslætti til að byrja með um 15 millj. og síðan smám saman aðeins meira, en alls ekki að fella niður allan þennan umframafslátt sem fékkst. Svo ég vil í fullri vinsemd vekja athygli á því að þarna er um allt annað mál að ræða en tókst þó að semja um, að mínu mati, á mjög viðunandi máta með tilliti til þess þaks sem við höfum reynt að halda á öllum samningum.
    Um aðstoðarlæknana hins vegar er það að segja að þar standa yfir samningar núna sem er ekki lokið. Vitanlega hafa þeir m.a. snúist um hvernig þar verði komið við lagfæringum innan þjóðarsáttar. Það mál flækist að því leyti að þar eru vaktir mjög langar, allt upp í 48 tímar, en samkvæmt vinnuverndarlögum er það ekki heimilt. Mjög mikill áhugi er á því hjá mörgum að stytta þær vaktir niður í eitthvað sem er

rýmilegra, t.d. hámark 16 tíma vaktir. Við að gera það lenda sjúkrahúsin í vissum erfiðleikum af því að þá skortir lækna. Þá hljóta bara að gilda hin almennu launakjör á vinnumarkaðinum fyrir þá lækna sem við yrði samið um að vinna umfram þessa 16 tíma sem yrði smám saman reynt að draga úr. Ég get ekki sagt hvaða hækkun því kynni að fylgja til einstakra lækna, sem þannig yrði leitað til með sérstökum samningum, en eftir því sem ég hef séð það mál er það allt saman mjög eðlilegt og allt saman fullkomlega innan þjóðarsáttar.
    Ég vona að mér hafi tekist að svara þeim spurningum sem til mín var beint. Ég þakka svo fyrir það að deildin hefur fallist á að koma þessu máli svona fljótt í gegn því að ég tel það vera nokkuð mikið prinsipp, ef ég má orða það svo, að bráðabirgðalög afgreiðist frá hinu háa Alþingi svo fljótt sem frekast má vera.