Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt fyrir mig af því að ég fékk taxtavarðstjóra hér upp í ræðustólinn að taka fram í sambandi við þær hækkanir, sem ég áðan gat um, að mér sýndist vera nokkur lækkun á samanlögðum launum fastrar yfirvinnu og mánaðarlauna hjá flugumferðarstjórum. Má vera að það sé eitthvert jafnvægi í því. Ég hef ekki slíka útreikninga við hendina. Hér er verið að breyta launauppbyggingunni á miðjum þjóðarsáttartíma um leið og gefið er fyrirheit um, sem ekki var vikið að, að hækka eigi laun flugumferðarstjóra umfram almenna vinnumarkaðinn um 4,5% frá 1. sept. nk. fram að áramótum. Er það ekki rétt, hæstv. fjmrh.? --- Hæstv. fjmrh., ég er að spyrja um það. Er það ekki rétt skilið að í því samkomulagi og í þeirri sérstöku bókun sem gerð var við flugumferðarstjóra í júlímánuði, og ég gerði áðan grein fyrir í ræðu minni, hafi verið um það samið að laun flugumferðarstjóra skyldu hækka um 4,5% umfram aðra á tímanum 1. sept. til 31. des.? Er það rétt skilið? ( Fjmrh.: Ég mun svara þessu úr ræðustól á eftir.) Ágætt að fá þetta allt í einu því við höfum nógan tíma.
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins bæta því við að það er náttúrlega alveg á mörkunum fyrir ráðherra sem ekki mætir hér á réttum tíma að hann skuli ekki geta svarað svo einfaldri spurningu með jái eða neii þannig að umræður þurfi jafnvel að vera fram í 3. umr. eingöngu vegna þess að hæstv. fjmrh. fékk ekki í hendur dagskrá fundarins og vissi ekki að þetta mál var hér til umræðu í dag.