Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er nú stundum dálítið erfitt að átta sig á því hvernig ætlast er til að umræður fari fram hér í hv. deild. Ef einstökum ráðherrum verður á að grípa fram í eru þeir beðnir um að gera það ekki. Ef ráðherrum finnst að ekki sé hægt að svara fyrirspurn þingmanns með einu orði og vilja frekar gera það úr ræðustól, þá verður það til þess að þingmenn hætta ræðu sinni og eru með ávítur. Ég held að það sé ekki æskilegur háttur á umræðum hér í þinginu í stórum málum að hv. þm. ætlist til þess að geta átt samtal við ráðherra úr ræðustól. Ef það er sá háttur sem menn vilja hafa á umræðum hér í deildinni þá er ég alveg tilbúinn að taka þátt í þeim, virðulegi forseti. En þá áskil ég mér alveg ótakmarkaðan ræðutíma úr sæti mínu eins og úr ræðustól.