Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Þetta mál varðar kjarasamningana sem hlotið hafa nafnið þjóðarsátt. Þar var að sjálfsögðu engin endanleg lausn á baráttunni gegn verðbólgunni. Aftur á móti gaf þjóðarsáttin umþóttunarfrest til að vega að rótum verðbólgunnar og koma þannig á stöðugleika í verðlagi til frambúðar. En þessu tækifæri hefur verið kastað á glæ. Í stað þess hefur hæstv. ríkisstjórn þvert á móti eflt orsakavalda verðbólgu með síþenslu ríkisútgjalda og stöðugt auknum greiðsluhalla ríkissjóðs, hækkun skatta sem koma fram í verðlagi og peningamálastefnu sem ekki getur samrýmst því markmiði að halda verðlagi í skefjum. Þannig hefur þjóðarsáttin snúist upp í andhverfu sína með því að gefa ríkisstjórninni frið til að magna þá holskeflu verðbólgu sem okkar bíður með sama áframhaldi.
    Kjarasamningur fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna breytir hér engu um. Samningsgerðin sjálf og bráðabirgðalögin, sem hér eru nú til staðfestingar, sýna svo að ekki verður um villst að mesti ógnvaldur við þjóðarsáttina er ríkisstjórnin sjálf. Eðlilegt er að ríkisstjórnin beri ábyrgð á gerðum sínum og því greiði ég ekki atkvæði.