Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég mun halda mig við það að gera grein fyrir atkvæði mínu, ekki flytja efnisræðu um málið svo sem hér hefur verið gert í þessari umræðu. Þeir kjarasamningar sem kenndir eru við þjóðarsátt eru grundvöllur stöðugleika í samfélaginu og efnahagslífinu, stöðugleika sem ekki hefur áður tekist að skapa í þessu samfélagi, a.m.k. allt frá styrjaldarlokum. Á þessum stöðugleika hvílir það að verðbólga hefur náðst niður og almenningur, sem vissulega hefur tekið á sig kjaraskerðingar, býr við nýjan og áður óþekktan stöðugleika í efnahagsmálum. Það skiptir miklu að standa vörð um þá þjóðarsátt sem orðið hefur með verkalýðsfélögum, vinnuveitendum og opinberum aðilum, ríkisstjórn. Því segi ég já.