Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hafði beint þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. hvernig hann hugsaði sér að sú umsamda launahækkun til flugumferðarstjóra sem samið hefur verið um í september nk. eða eftir þjóðarsátt, hvernig hann skilji hana. Skilur hann það svo að ríkisstjórnin hafi samið um 4,5% launahækkun umfram almennar launahækkanir á þessu tímabili? Og ég bað hann um að svara þessu áðan en orðaskiptin snerust upp í undarlega umræðu um þingsköp. Ég beindi jafnframt sömu fyrirspurn til hæstv. forsrh. en hann svaraði með því að hann bæri ekki ábyrgð á samningsgerðinni. Það væri kannski hollt fyrir fulltrúa Alþfl. í fjh. - og viðskn. að íhuga það að ef rétt er að þessir samningar feli í sér 4,5% hækkun umfram almennar launahækkanir er verið að kalla fram það ástand sem menn vildu ekki horfast í augu við á sl. sumri. Sama ástandið og þá að víxlhækkanir verði milli einstakra starfshópa fram eftir næstu missirum. Það er sá stöðugleiki sem hv. þm. talar um. Hann er illa að sér í sögu ef hann heldur að sl. ár sé mesta stöðugleikaár frá stríðslokum og sýnir að hann hefur ekki lesið söguna áður en hann settist á Alþingi. Því það er náttúrlega ljóst að viðreisnin skildi við með þeim hætti að verðbólga var 1% síðasta árið sem hún sat hér við völd og vinstri stjórnir riðu hér í garð. --- Hæstv. forseti. Fjmrh. er náttúrlega hlaupinn úr húsinu? Mér finnst þetta nú satt að segja allt saman hálfbroslegt. Hæstv. fjmrh. bað um orðið við 1. umr. um málið sjálft. Síðan bað hann um orðið um þingsköp sem hæstv. forseti skildi svo að hann var búinn að slíta fundi áður en nokkur vissi þannig að hæstv. fjmrh. fékk ekki tækifæri til að hefja sitt mál sem hann hafði þó beðið um til að svara minni fyrirspurn. Síðan hleypur hann út meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Er ekki ágætt að ljúka umræðum á Alþingi með þessu um þetta mál? Er þetta ekki eftir öðru í því samhengi, hæstv. forseti? Svara ekki spurningum um lykilatriði, hlaupast á brott, brjóta þingsköp. Það er góður endir á þessu máli.