Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Lagt er til að nýr kafli um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt verði hluti af húsnæðislöggjöfinni.
    Það frv. sem hér er lagt fram er í megindráttum hliðstætt frv. til laga um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt sem samið var af nefnd sem þáv. félmrh. skipaði árið 1984. Samstaða varð ekki um það frv. í þáv. ríkisstjórn. Það var eigi að síður flutt fjórum sinnum á Alþingi en varð ekki útrætt.
    Í því frv. sem hér er lagt fram hefur verið tekið tillit til þeirra breytinga sem gerðar voru á húsnæðislöggjöfinni í vor varðandi félagslegar íbúðir og jafnframt hefur sú reynsla sem fengist hefur af starfi húsnæðissamvinnufélaga verið höfð til hliðsjónar.
    Í ár eru liðin sjö ár frá stofnun fyrsta húsnæðissamvinnufélagsins hér á landi. Nú eru félögin orðin ellefu og dreifð um allt land. Heildarfjöldi félagsmanna er 5.000 -- 6.000 manns. Samkvæmt könnun Búseta í Reykjavík, sem gerð var í nóvember sl., er meginhluti félagsmanna ungt fólk, 60% félagsmanna eru undir þrítugu. Meginhluti félagsmanna eru leigjendur og ungt fólk sem býr enn heima hjá foreldrum. Alls reyndust hátt í 90% félagsmanna vera undir þeim tekjumörkum sem húsnæðismálastjórn hefur sett varðandi aðgang að félagslegu húsnæði.
    Húsnæðissamvinnufélögin hér á landi eru stofnuð að frumkvæði samtaka leigjenda. Í ljósi víðtæks stuðnings stjórnvalda við þarfir íbúðareigenda á undanförnum áratugum má líklega segja með nokkrum rétti að leigjendur eigi tilkall til þess að aukin áhersla af hálfu stjórnvalda verði lögð á að rétta kjör þeirra og auka öryggi þeirra á húsnæðismarkaðinum með því m.a. að tryggja réttarstöðu húsnæðissamvinnufélaga, með húsaleigubótum til leigjenda og endurskoðun laga um húsaleigusamninga. Að þessum markmiðum hefur verið unnið að undanförnu.
    Húsnæðissamvinnufélögin eru liður í því að færa fyrirkomulag húsnæðismála hérlendis í félagslegra form þar sem almennum félagasamtökum borgaranna er treyst fyrir meira frumkvæði en áður var. Draga má lærdóm af áratuga reynslu á Norðurlöndum og víða annars staðar í heiminum. Þá má benda á að í Finnlandi, þar sem búseturéttarformið hefur ekki þekkst, voru sett lög um þetta form sl. vor. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að réttaróvissa komi upp í tengslum við starfsemi húsnæðissamvinnufélaga. Réttindi og skyldur íbúanna og félaganna þurfa að vera ótvíræð í lögum. Húsnæðissamvinnufélög hafa nú þegar keypt hátt í 100 íbúðir og er þess að vænta að á næstu missirum bætist við 100 -- 200 slíkar íbúðir víða á landinu.
    Að því er varðar einstakar greinar þessa frv. sem ég hér mæli fyrir skal nú vikið að því helsta.
    Í a-lið 1. gr. er fjallað um markmið húsnæðissamvinnufélaga. Í 92. gr. núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er kveðið á um kaup á eignarhluta í kaupleiguíbúð. Heimilt er skv. þessari grein að tryggja

leigutaka ótímabundinn afnotarétt af kaupleiguíbúð með því að selja honum eignarhluta í henni fyrir 10 -- 30% kostnaðarverðs eða kaupverðs, allt eftir því hvort leigjandinn er innan tekju- og eignarmarka sem gilda um aðgang að félagslegu húsnæði.
    Húsnæðissamvinnufélög grundvalla starf sitt á þessu fyrirkomulagi og láta félagsmönnum sínum í té íbúðir með búseturétti sem byggist á kaupum á eignarhluta í íbúðum.
    Að öðru leyti eru markmið húsnæðissamvinnufélaga sambærileg við markmið byggingarsamvinnufélaga.
    Í b-lið er fjallað um að stofnun, starfshættir og slit húsnæðissamvinnufélags fari eftir því sem við getur átt eftir ákvæðum laga nr. 46/1937, um samvinnufélög. Félmrn. þarf að staðfesta samþykkt húsnæðissamvinnufélags áður en skráning þess fer fram.
    c-liður kveður á um að félagsmenn öðlist rétt til þess að fá keyptan búseturétt eftir því á hvaða tíma þeir gengu í húsnæðissamvinnufélagið, þ.e. hvar þeir lenda í röðinni.
    Í d-lið er að finna skilgreiningu á búseturéttargjaldi en það er greiðsla fyrir eignarhlutann sem tryggir leigjandanum búseturétt.
    Skv. 92. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins getur eignarhluti verið þrenns konar. Búseturéttargjaldið getur því verið með eftirfarandi hætti: Í fyrsta lagi er um að ræða 10% búseturéttargjald fyrir eignarhluta í félagslegri kaupleiguíbúð. Í öðru lagi 10% búseturéttargjald fyrir eignarhluta í almennri kaupleiguíbúð ef leigjandinn er innan þeirra eignarmarka sem húsnæðismálastjórn hefur sett og í þriðja lagi 30% búseturéttargjald fyrir eignarhluta í almennri kaupleiguíbúð.
    Í e-lið frv. er opnaður möguleiki fyrir ríki, sveitarfélög og almannasamtök að fjármagna og ráðstafa búseturétti í allt að 20% af íbúðum húsnæðissamvinnufélaga. Þetta þýðir í raun að húsnæðissamvinnufélög geta gert samkomulag við þessa aðila um að byggja og reka íbúðir sem sveitarfélög eða almannasamtök geta ráðstafað til þeirra sem þurfa á leiguhúsnæði að halda. Fyrir ýmis almannasamtök, svo sem samtök öryrkja og aldraðra, getur þetta verið heppileg leið til að tryggja félagsmönnum húsnæði án þess að þurfa sjálf að standa í byggingu íbúða og rekstri þeirra.
    Í f-lið er sett fram sú meginregla að réttur búseturéttarhafa er ekki framseljanlegur og kveðið á um reglur um ráðstöfun búseturéttar.
    Í g-lið er kveðið á um vanskil og að búseturéttargjald standi sem trygging fyrir skilvísri greiðslu búsetugjalds. Samkvæmt g-lið er óheimilt fyrir búseta að veðsetja búseturétt sinn þar sem hann felur ekki í sér nema lítinn eignarhluta í íbúðinni. Eignarhlutinn er háður verulegum takmörkunum og einungis í undantekningartilvikum framseljanlegur. Vanræki félagsmaður skyldur sínar ítrekað missir hann rétt sinn til húsnæðisins, hafi hann ekki gert skil þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir.
    Í h-lið er opnaður möguleiki til þess að unnt sé að mynda sérstaka deild í húsnæðissamvinnufélagi fremur en að stofna sérstakt búsetufélag. Er þetta einkum hugsanlegt þegar um smáa byggingaráfanga er að ræða.
    Í i-lið er skilgreining á búsetugjaldi sem er eins konar leigugjald sem er greitt mánaðarlega. Búsetagjaldið miðast við afborganir lána, rekstrarkostnað, fasteignagjöld, tryggingar og viðhald íbúða.
    j-liður kveður á um hvernig háttað er veðsetningu íbúða. Stjórn húsnæðissamvinnufélags getur veðsett íbúð fyrir stofnlánum en þegar um er að ræða lán til endurbóta og viðhalds þykir eðlilegt að stjórn búsetufélags þurfi að samþykkja veðsetningu.
    k-liður fjallar um hvað skuli vera í búsetusamningi.
    l-liður er um framleigu á íbúð með búseturétti sem er óheimil án samþykkis stjórnar húsnæðissamvinnufélags. Er það í samræmi við ákvæði um aðrar félagslegar íbúðir.
    m-liður er um viðhaldssjóð. Greiðsla í hann er hluti af búsetugjaldi. Sjóðnum er tvískipt, þ.e. vegna sameignar og hins vegar innra viðhalds hverrar íbúðar. Félagsmaður fær síðan fé úr viðhaldssjóðnum til viðhalds íbúðar sinnar þegar þörf krefur og eftir reglum sem aðalfundur félagsins setur. Ef búseturéttur er keyptur eða seldur fylgir með sú upphæð sem kann að vera inni á viðhaldssjóði fyrir íbúðina.
    n-liður fjallar um fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga sem er með hliðstæðum hætti og hjá byggingarsamvinnufélögum. Í rekstrarsjóð renna fyrst og fremst árgjöld félagsmanna, inntökugjöld renna í stofnsjóð, í varasjóð rennur hluti af byggingarkostnaði sem samsvarar greiðslu í tryggingasjóð. Með lögum nr. 70/1990 er lögfest að af öllum félagslegum íbúðum skuli leggja 1% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar í tryggingasjóð vegna byggingargalla. Vegna laga um samvinnufélög, nr. 46/1937, er nauðsynlegt að heitið varasjóður sé notað vegna húsnæðissamvinnufélaga, en hér er um að ræða sama gjald og vegna tryggingasjóðs fyrir aðrar félagslegar íbúðir.
    Liðir o -- q fjalla um hvernig staðið verður að lánaúthlutunum úr Byggingarsjóði verkamanna til húsnæðissamvinnufélaga. Í o-lið er kveðið á um hvaða upplýsingar skuli lagðar fram þegar húsnæðissamvinnufélög sækja um lán úr Byggingarsjóði verkamanna, þ.e. fjöldi, gerð og stærð fyrirhugaðra íbúða, framkvæmdatími og áætlaður byggingarkostnaður. Einnig skal fylgja greinargerð um hvernig að annarri fjármögnun til framkvæmdanna sé staðið.
    p-liður kveður á um athugun Húsnæðisstofnunar á umsóknum og sérstaklega það hlutverk húsnæðismálastjórnar að gæta þess við ákvarðanir um lánveitingar til húsnæðissamvinnufélaga að uppfyllt séu skilyrði 52. gr. laga nr. 86/1988 ásamt síðari breytingum um félagslegar íbúðir og 75. gr. sömu laga um hagkvæmni íbúða til að tryggja sem lægst íbúðarverð. Einnig er þar heimild fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins að gera framkvæmdalánasamning með hliðsjón af 74. gr. sömu laga.
    Í q-lið er síðan opnaður möguleiki fyrir húsnæðissamvinnufélög að kaupa tilbúið eða notað húsnæði

sem ráðstafað yrði með búseturétti. Um lánveitingar samkvæmt þessu ákvæði gilda allar almennar reglur um nýbyggingarlán og að kaupverð slíkra íbúða má ekki vera hærra en nemur byggingarkostnaði nýrra íbúða. Lánshlutfall er það sama og til nýbygginga en frá láni eru dregin áhvílandi lán.
    Þá er að lokum ákvæði sem leggur bann við sölu íbúðar með búseturétti á meðan á þeim hvíla lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Meðan búsetusamningur er í gildi milli búseta og húsnæðissamvinnufélags verður búseti ekki sviptur ótímabundnum afnotarétti sínum þó að íbúðin kynni að verða seld.
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni þessa frv. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.