Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir :
    Herra forseti. Mér fannst nú hálfpartinn þegar hv. 17. þm. Reykv. var að tala áðan að hann væri búinn að gleyma því að upphaflega var samið um Atvinnuleysistryggingasjóðinn í geysilega erfiðu og hörðu verkfalli 1955 og í því verkfalli fengu engir stríðsskaðabætur og báðu ekki um þær. En það var hins vegar fallið frá kaupkröfu til að fá þetta ákvæði inn og henni ekki lítilli. Það var þess vegna miklu fórnað til að fá þessa atvinnuleysistryggingu inn. Ég verð að segja að ég tel að sú fórn hafi borgað sig vegna þess að það hefði verið erfitt ástand á mörgum heimilum launþega ef þessar bætur væru ekki til.
    Það hefur borið á því á seinni árum, alveg núna seinustu árum, að mjög er reynt að hafa áhrif á það að fólk sé ekki í stéttarfélögum. Það er verið með alls konar gylliboð til fólks. Það er ráðið sem einhverjir sjálfstæðir atvinnurekendur og réttindi þess eru meira og minna höfð af því ef það verður atvinnulaust eða verður fyrir slysum eða öðru þvílíku. Það hafa nefnilega nærri allir Íslendingar möguleika á að vera í stéttarfélagi sem ekki láta plata sig út úr því. Þeir hafa rétt til þess. Starfsmannastjórar t.d. hjá ríkinu eru sjálfkrafa í Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Starfsmannastjórar hjá borginni og yfirleitt allir embættismenn þeir eru sjálfkrafa í sínu verkalýðsfélagi. Þetta hljóta að vera, sem hv. 17. þm. Reykv. er að tala um, aðallega menn sem eru í vinnu hjá atvinnurekendum og þá náttúrlega yfirleitt menn sem eru ekki á neinum kauptöxtum, sem vinna langt fyrir ofan alla kauptexta. Ég geri ráð fyrir að það séu þeir.
    Upphaflega náðu þessar atvinnuleysistryggingar til þeirra sem fórnuðu fyrir þær og sömdu um þær, almennu verkalýðsfélaganna. Smátt og smátt hefur þetta verið víkkað þannig að allir launþegar eiga rétt á þessu sem eru í einhverju stéttarfélagi. Ég er hrædd við að þetta sé einn þátturinn í því að brjóta niður stéttarfélögin. Ef menn sjá að þeir geta notið utan stéttarfélaga alls sem þeir geta notið ef þeir eru í stéttarfélögum þá fara menn að fara út úr þeim og losna við að borga félagsgjald og ýmislegt annað. Ég held að þetta sé stórhættulegt. Ég er eindregið á móti því.