Hönnun og viðhald opinberra bygginga
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um hönnun og viðhald opinberra bygginga. Ástæðan fyrir því að þetta frv. er hér flutt er sú að við höfum fyrir augunum og höfum líka haft á borðum þingsins í vetur og undanfarin þing sorgleg dæmi um hvernig hús hafa grotnað niður, hús á borð við Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Bessastaði og fleiri glæsilegar, fallegar opinberar byggingar sem eru okkar þjóðargersemar.
    Hvernig má það vera að þessi hús eru svo illa á sig komin? Hús á borð við Þjóðleikhúsið, sem eru nú ekki eldri en 40 -- 50 ára og varla það. Ástæðan er að mínu mati sú hvað Þjóðleikhúsið varðar að viðhaldsfé Þjóðleikhússins hefur verið varið í rekstur árum saman. Þeir peningar sem hafa verið eyrnamerktir á fjárlögum til þess að halda húsinu við hafa ekki runnið til þeirra hluta. Svo er um margar fleiri opinberar byggingar. Þess vegna þarf að fylgjast með því og það þurfa að vera ákveðin viðurlög við því að viðhaldsfé sé varið til viðhalds en ekki óskyldra hluta þannig að húsin okkar grotni ekki niður eins og þessi sorglegu dæmi sanna.
    Við byggjum á yfirstandandi fjárlögum hús og mannvirki fyrir rúmar 5 millj. kr. Þetta er því ekki smáupphæð sem við verjum á hverju ári til mannvirkjagerðar. Því er mjög mikið í húfi að þetta sé vel gert og vel til húsanna vandað þannig að þau muni standa sem lengst og nýtast sem best. Og eins að viðhaldi á þessum húsum verði sem best við komið og þá að sjálfsögðu að því fjármagni sem til þess er ætlað sé varið samkvæmt lögum sem um byggingarnar eru.
    Því er sagt hér í 1. gr. þessa frv.: ,,Ávallt skal höfð hliðsjón af viðhaldi opinberra bygginga þegar þær eru hannaðar. Að uppfylltum öllum öryggisþáttum bygginganna skal þess gætt að viðhald eignanna verði bæði eins auðvelt og aðgengilegt og notagildi þeirra framast leyfir. Jafnframt verði þess gætt að halda megi öllum kostnaði við þennan þátt í lágmarki eftir því sem hönnuðir geta best séð á hverjum tíma.
    2. gr. Verktakar og byggingameistarar, eða aðrir sem hafa umsjón með eða verkstjórn á hendi við smíði opinberra bygginga, skulu jafnan hafa þetta að markmiði og leiðarljósi. Reynist verklýsingar og aðrar upplýsingar frá hönnuðum ekki hrökkva til í þessu sambandi, eða veita ekki nægilegar upplýsingar, ber tilsjónarmönnum að vekja þegar í stað athygli á því við hönnuð og yfirmann í því ráðuneyti sem hlut á að máli.
    3. gr. Komi í ljós þegar ársreikningar opinbers fyrirtækis eða stofnunar liggja fyrir að viðhaldsfé samkvæmt fjárlögum hefur ekki verið nýtt til viðhaldsverkefna skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis sæta ábyrgð skv. 4. gr.
    4. gr. Brot á lögum þessum varða sektum og varðhaldi, allt að tveimur árum, svo og réttindamissi.``
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri og þakka gott hljóð og mæli með að frv. verði

vísað til allshn.