Fyrirspurnir
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti vill benda hv. þm. á að í 31. gr. þingskapalaga segir svo:
    ,,Vilji alþingismaður óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess, gerir hann það með fyrirspurn í sameinuðu þingi er afhent sé forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``
    Sú venja er viðhöfð að ráðherrar eru spurðir um þau málefni sem hver ráðherra ber ábyrgð á og mér er ekki launung á því að forseti hefur verið gagnrýndur fyrir að taka við þessum umræddu fsp. þar sem reglur um dagpeninga ráðherra heyra raunverulega undir hæstv. fjmrh. og öll málefni heyra að sjálfsögðu undir hæstv. forsrh., en það hefur verið dregið mjög í efa að rétt hafi verið af forseta að leyfa að aðrir ráðherrar fengju fsp. af þessu tagi. Um þetta má vitanlega deila. Forseti kaus að leyfa fsp. enda hefur forseti reynt til hins ýtrasta að neita ekki fsp. þannig að forseti telur ekki óeðlilegt að hæstv. forsrh. svari fyrir hönd allra ráðherra þessari fsp.
    En ég endurtek ósk mína um að fá að heyra mál hæstv. forsrh. og mun þá bregðast við því ef ég get fallist á að hv. þm. fái ekki svör við fsp. sínum.