Fyrirspurnir
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Forseti var að staðfesta það að hann hefði heimilað þessa fsp. og sent hana til allra ráðherra. Hafi það verið meining forseta Sþ. að aðeins forsrh. svaraði þessari fsp. þá átti hann auðvitað ekki að heimila fsp. og senda hana aðeins til forsrh. eða jafnvel fjmrh.
    Ég vil benda á það sem stendur í þingsköpum að það er heimilt að setja fsp. til ráðherra um opinbert málefni eða einstakt atriði þess með fsp. í sameinuðu þingi, og einnig að fsp. skal vera skýr, um afmörkuð atriði. Þetta á hvort tveggja við í þessu máli. Þetta er opinbert málefni og þetta er um skýrt afmarkað atriði. Það er ekki bundið fast í þingsköpum við málefni sem falla undir ráðherrann. Í þingsköpum stendur orðrétt: ,,Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á.`` Þannig að það er alveg opið fyrir það að fara út fyrir það verksvið sem undir ráðherrann fellur.
    Þetta er það mikilvægt mál að ég tel að þjóðin eigi heimtingu á því að heyra skoðun hvers og eins ráðherra á því hvernig farið er með skattpeninga fólksins í landinu. Hér er verið að tala um þjóðarsátt dag eftir dag eftir dag, fólki er gert að herða sultarólina á sama tíma og skattar eru auknir og þeir skattpeningar og skattaaukning fer að hluta til beint í eigin vasa ráðherranna.