Fyrirspurnir
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem komið hefur fram hjá virðulegum forseta að það er afar vafasamt þótt það hafi verið leyft, ég vil leyfa mér að segja fyrir kannski athugunarleysi, að beina slíkri fsp. til allrar ríkisstjórnarinnar, allra ráðherra. Það má gera það í flestum málum. Það mætti spyrja alla ráðherra að því hvað þeir telji um deilur við trillukarla og við getum haldið þannig áfram. Það er misnotkun á fyrirspurnatíma. Þetta fer dálítið eftir því hvernig þingsköpin eru lesin, í raun og veru hvar komman er sett. Í þingsköpum segir: ,,... um afmörkuð atriði eða mál, sem ráðherra ber ábyrgð á``. Einstakir ráðherrar bera ekki ábyrgð á dagpeningum, það gera fjármálaráðherrar í samráði við forsætisráðherra. Þannig hefur það verið alla tíð eins og ég mun skýra frá hér á eftir. Það eru fjármálaráðherrar sem annaðhvort hafa borið slík mál upp í ríkisstjórn eða þá haft samráð við forsætisráðherra um slíka framkvæmd.
    Ríkisstjórnin lét skoða þetta mál og það var einróma niðurstaða lögfræðinga sem það skoðuðu að svona bæri að halda á þessu máli. Þess vegna er ég reiðubúinn að svara þessari fsp. Ég hef haft samráð um það við alla ríkisstjórnina og með fullu samþykki allra ráðherra er ég hér mættur.