Fyrirspurnir
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Það er nú bara aldeilis rangt, hæstv. forseti, að svar sé að berast við þeim fsp. sem ég hef lagt fram. Það er að berast frá einum ráðherra úr ríkisstjórninni en fsp. voru lagðar fyrir þá alla. Það er bara alrangt og ósköp eðlilegt að gerðar séu athugasemdir við það. Ég ítreka það að þessi fsp. var heimiluð og ráðherrum ber skylda til að svara. Ég held það sé ekki nokkur einasti vafi á því. Ef hæstv. forseti væri í einhverjum vafa þá væri hægt að bera það undir dóm sameinaðs þings og greiða um það atkvæði hvort heimila ætti þessar fsp. eða ekki. Ég hefði að sjálfsögðu fallist á þann úrskurð sem þar hefði komið fram. Verði það hins vegar niðurstaðan hér að forseti muni meta það svo að svar ráðherrans verði fullnægjandi, sem ég efast ekkert um gagnvart honum sjálfum persónulega, ef hann metur það þannig að það þurfi ekki að leita eftir svörum annarra ráðherra --- sem þjóðin á heimtingu á að heyra frá, hún á heimtingu á að heyra það --- þá hlýtur það auðvitað að kalla á utandagskrárumræðu um þetta mál, og það með lengra laginu en ekki skemmra laginu.
    En ég vil aðeins segja út af upphafsorðum hæstv. forsrh. hér áðan, að við gætum farið að spyrjast fyrir um málefni trillukarla, ég gæti vel hugsað mér að gera það ef það væri sambærilegt við þetta málefni sem hér er, ef ráðherrar í ríkisstjórninni væru að hirða kvóta í eigin vasa, þá mundi ég að sjálfsögðu spyrjast fyrir um það.