Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins. Meðflytjendur mínir eru Valgerður Sverrisdóttir, Matthías Bjarnason, Árni Gunnarsson, Kristinn Pétursson og Jón Kristjánsson.
    Till. er á þessa leið: ,,Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til að gera úttekt á atvinnumálum byggðarlaga þar sem loðnuvinnsla hefur verið veruleg með hliðsjón af þeim breyttu viðhorfum sem fyrirsjáanlegt hrun loðnustofnsins kemur til með að valda. Niðurstöður nefndarinnar ásamt tillögum um aðgerðir skulu lagðar fyrir ríkisstjórnina svo fljótt sem verða má og kynntar alþingismönnum.
    Kostnaður við störf nefndarinnar skal greiddur úr ríkissjóði.``
    Er loðnan brást fyrir níu árum var brugðist við á svipaðan hátt með skipan nefndar sem gerði gagngerar tillögur til úrbóta á ástandinu. Þessi nefndarskipan byggðist m.a. á tillögum fjvn. en áður höfðu Halldór Blöndal og fleiri lagt fram svipaða tillögu. Í greinargerð með þeirri tillögu segir m.a., með leyfi forseta: ,,Það virðist nú liggja fyrir að ekki verði um það að ræða að meiri loðna fáist úr sjó á þessu ári eða í náinni framtíð. Þetta hefur að sjálfsögðu mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem enginn skyldi gera lítið úr. Mestur er þó skaðinn á þeim stöðum þar sem loðnuvinnsla hefur verið undirstaða atvinnulífsins, svo sem á Raufarhöfn og Siglufirði. Ef ekkert annað kemur í staðinn er því við að búast að til alvarlegs atvinnuleysis komi nema fólk flytji búferlum hópum saman. Á það er að líta í því sambandi að umsvif þjónustu- og verslunarfyrirtækja dragast stórlega saman samtímis því sem verksmiðjur Síldarverksmiðja ríkisins loka, svo að við blasir að rekstrargrundvöllur sumra þeirra a.m.k. sé ekki lengur fyrir hendi.``
    Nú einmitt á þessari stundu, virðulegi forseti, situr stjórn Síldarverksmiðja ríkisins á fundi þar sem m.a. verður rætt um það hvort ekki sé rétt að segja upp öllu starfsfólki Síldarverksmiðja ríkisins. Á Siglufirði einum saman þýðir þetta að 60 fyrirvinnur missa atvinnu sína. Á Raufarhöfn munu það vera um 30 manns en samtals munu það vera á fimmta hundrað manns sem starfa við loðnuverksmiðjur vítt og breitt um landið. Það er ljóst að þau sjávarpláss þar sem loðnuvinnsla hefur verið mikilvæg í atvinnulífinu verða fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum og sum sveitarfélaganna koma til með að tapa tugum milljóna króna.
    Sá loðnukvóti sem Íslendingum var úthlutað á þessari vertíð var á fimmta hundrað þúsund tonn. Þar af er búið að veiða tæplega 100 þús. tonn þannig að eftir er að veiða tæplega 400 þús. tonn enn þá. Verðmæti þess afla sem ætti eftir að taka úr sjó er metið á í kringum þrjá milljarða króna þannig að enn má sjá hvert tapið er sem loðnubræðslustaðir og það fólk sem við þá vinnslu starfar verður fyrir vegna fyrirsjáanlegs loðnubrests.

    Auðvitað hefur verið reynt að grípa til einhverra ráðstafana nú þegar. Það liggur fyrir að flutt verði frv. af hálfu sjútvrh. um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum og er þá einungis höfðað til þess að veiðitap loðnuveiðiskipanna verði á einhvern hátt bætt. En það verður að segjast að vandinn er a.m.k. tvíþættur. Það kemur greinilega í ljós af viðbrögðum sjútvrn. að þar er í fyrirrúmi fiskveiðistjórnun en engin fiskvinnslustefna því auðvitað landa loðnuskip, sem ekki geta veitt loðnu, engri loðnu á loðnubræðslustaði heldur fara þau á botnfiskkvóta sem þeim verður úthlutað. Þeim afla verður ekki endilega landað á loðnubræðslustöðum, þ.e. það eru bræðslustaðirnir sem missa vinnu, missa tækifæri til vinnslu sjávarafla, meðan þeir staðir sem fyrst og fremst vinna botnfiskafla fá aukinn afla til vinnslu. Ég held að það skorti nokkuð á að sjútvrn. taki til greina þann möguleika að þau loðnuskip sem fá úthlutað botnfiskveiðiafla landi honum á þeim stöðum sem missa vinnslu á loðnunni. Ég held að þetta verði að taka mjög til greina. En það fáum við sjálfsagt að ræða mun betur þegar kemur til kasta okkar að ræða frv. sjútvrh. á þeim tíma.
    Það er enn fremur einn möguleiki sem sjútvrn. ætti að taka til greina og hann er hvort ekki er hægt að huga að veiðum á kolmunna. Samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar eru a.m.k. 5 millj. tonna af kolmunna sem syndir um í sjónum einhvers staðar í okkar landhelgi. Nú er það svo að það eru önnur mið sem sækja verður á en loðnumið hvað varðar kolmunna. Það er önnur tækni, það eru önnur troll sem skipin verða að nota sem eru e.t.v. ekki í eigu loðnuútgerðarmanna. Það kemur því til kasta yfirvalda að stofna til tilraunaveiða á kolmunna, hvort við getum ekki nýtt okkur þær 5 millj. tonna sem synda um í sjónum og eru fullkomlega ónýttar því þar er þó fiskur sem kæmi til bræðslu og nýttist bræðslunum og þeim stöðum þar sem unnið er að bræðslu á fiski. Þannig mætti huga að því að finna annan bræðslufisk og þá værum við um leið að nýta okkur þá möguleika sem við höfum til bræðslu á fiski og þá um leið að tryggja atvinnu á þessum loðnubræðslustöðum.
    Ég vil leggja til, og mun ítreka það þegar við ræðum um frv. sjútvrh., að hugað verði að þessu máli.
    Það bendir flest til þess, eins og segir í grg. með þessari þáltill., að loðnustofninn sé hruninn. Stofnmælingar Hafrannsóknastofnunar benda til þess að loðnustofninn sé vart stærri en 350 þús. tonn. Loðnubræðslustaðir höfðu áhyggjur af þessu ástandi strax í nóvember og í utandagskrárumræðu sem ég fékk að koma inn í á sínum tíma með leyfi hv. félaga míns Kristins Péturssonar, sem var að ræða þar önnur mál, vakti ég athygli á því að loðnubræðslustaðirnir, sveitarstjórnir á viðkomandi stöðum, hefðu hvatt til þess að leit yrði aukin að loðnunni og bent á það að loðnuveiðiskip væru tilbúin til leitar. Það mætti greiða þeim með því að leyfa þeim að veiða einn og einn farm. Á þeim tíma virtist sjútvrh. ekki hrifinn af þeirri hugmynd en hún var síðan tekin upp eftir jólin og loðnuveiðiskip send til leitar en því miður virtist þessi aukna leit einungis staðfesta bágborið ástand loðnunnar.
    Nýjustu fréttir, og þær bárust frá Bolungarvík í gærkvöldi, segja okkur að e.t.v. sé stærðar flekkur af loðnu úti á miðunum sem nauðsyn væri að huga að. Ef það er tilfellið og ef hann er jafnstór og skipstjórinn lét í veðri vaka þá er þetta kannski allt saman ekkert vandamál. En það þýðir ekki að byrgja brunninn þegar barnið er dottið í hann og þess vegna flytjum við þessa tillögu, þannig að bregðast megi við þessum vanda. Flest þau byggðarlög þar sem loðnubræðsla fer fram byggja sína afkomu nær eingöngu á vinnslu sjávarafla og atvinnuástandið á sumum þessara staða hefur verið vægast sagt mjög ótryggt. Það er því fyllsta ástæða til að bregðast við því alvarlega ástandi sem þarna gæti skapast með markvissum aðgerðum til aðstoðar. Því legg ég til ásamt samflutningsmönnum mínum á þessari till. að Alþingi kjósi þessa nefnd líkt og gert var fyrir níu árum, nefnd sem var undir forustu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sem vann mjög vel, gerði tillögur sem gagn var að. Við viljum endurtaka þennan leik ef ástandið verður jafnalvarlegt og það sýnist ætla að verða. Ég vil leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og þá e.t.v. til fjvn. af því að mér virtist það hafa verið gert fyrir níu árum. Þó kemur mér það dálítið spánskt fyrir sjónir því ég hefði ætlað að svona tillaga færi til meðferðar hjá atvmn., en ég læt það í úrskurð forseta til hvorrar nefndarinnar honum þykir rétt að málinu sé vísað.