Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ástandið í loðnuveiðum er alvarlegt og bregðist loðnuveiði á þessari vertíð þá er það mikið áfall fyrir þjóðarbúið og ekki síst fyrir þá staði þar sem loðnuvinnsla hefur farið fram. En loðnuverksmiðjur eru hvorki meira né minna en 22 í landinu. Ég tel að það hafi verið staðið að loðnuleitinni á mjög raunhæfan hátt að þessu sinni og enn erum við ekki úrkula vonar um það að loðna finnist og vona ég svo sannarlega að hv. 5. þm. Austurl. reynist sannspár í þeim efnum.
    Hv. 4. þm. Vesturl. hafði nokkuð stór orð hér um þessi mál og taldi að ríkisstjórnin svæfi algerlega á verðinum og væri ekki að vinna neitt í málinu. Nú er það ekki svo og veit ég að hv. þm. veit betur. Það eru uppi hugmyndir um að hugsanlega gæti Hagræðingarsjóður komið inn í þetta mál. Sé ég nú að hv. 4. þm. Vesturl. glottir. Mér finnst það nokkuð spennandi að vita hvort hagsmunaaðilar koma til með að kalla þennan sjóð hallærissjóð eftir að hann hefur e.t.v. komið þarna til hjálpar.
    Það er þannig í mínu kjördæmi að þetta mál kemur mjög illa þar við a.m.k. tvo staði og jafnvel fleiri og vil ég þá nefna Þórshöfn og Raufarhöfn. Mér finnst mjög athugandi það sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að þessi mál verði tengd þannig saman að fái loðnuskipin bolfiskveiðikvóta þá verði hann einhvern veginn bundinn þannig við þessa staði að þeir fái aukið hráefni til vinnslu. Mér finnst að það þurfi að athuga það mjög gaumgæfilega hvort um slíkt geti orðið að ræða.
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort ég hef mikið meira um þetta mál að segja. Ég er meðflm. að tillögunni og styð hana því að sjálfsögðu og vonast til þess að hún eigi greiðan gang í gegnum þingið.