Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú benda hv. þm. Skúla Alexanderssyni á það að þessi tillaga er aðeins um úttekt á atvinnumálum byggðarlaganna þar sem loðnuvinnsla hefur verið veruleg með hliðsjón af þeim breyttu viðhorfum sem fyrirsjáanlegt hrun loðnustofns kemur til með að valda. Það er ekkert annað sem felst í þessari tillögu í sjálfu sér. Og það að ekki sé hægt að skilyrða það þó að skipin séu frá öðrum stöðum þar sem loðnuverksmiðjur eru. ( SkA: Virðulegi þm., ég sagði að það væri mikil óskhyggja ef þingmenn tryðu því að það yrði gert eitthvað af viti í þessu máli.) Það getur vel verið að hv. þm. Skúli Alexandersson búist ekki við að það verði neitt gert af viti í þessum málum. En ég held að það væri gert af viti ef það væri gert að menn fengju ekki slíkan afla öðruvísi en landa á þessum stöðum. En auðvitað á að athuga alla möguleika. Það á að athuga hvort það er hugsanlegt, bæði upp á verð og möguleika, að fá loðnu frá Noregi. Það á auðvitað að athuga það á undan öðru hvort það er óhætt að taka töluvert af síldarstofninum fyrir þessi skip. Það á auðvitað að gera tilraun með kolmunna. Ég geri ekki ráð fyrir því kannski að á þessari vertíð muni það verða til að bjarga miklu, öðru en því að það yrðu gerðar tilraunir. Það var ekki verið að víla fyrir sér að láta fé í rannsóknir í milljónatali, tugmilljónatali, þegar var áætlun um það að setja Jökulsá á Fjöllum austur á land, stóra vitleysan. Þá stóð ekki á peningum. En þannig er nú staðið stundum að málum af þeim mönnum sem stjórna og þar eiga embættismennirnir ekki lítinn hlut. Það er nú sannleikurinn í því. Og það mál þyrfti auðvitað að reyna að draga fram úr lokuðum skúfum og skoða hvað miklum fjármunum var með því móti kastað á glæ. En umfram allt á að fara eftir þessari tillögu um það að athuga atvinnulífið á þessum stöðum en huga í leiðinni að smábátunum.