Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa þessa umræðu utan dagskrár. Ég vil jafnframt þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hafa orðið við þeirri beiðni minni að taka þátt í þessari umræðu og jafnframt hæstv. forsrh. Ég hafði beðið ritara hans að koma boðum til hans um þessa umræðu og ég sé að hann hefur orðið við þeirri ósk minni að vera viðstaddur. Ég tel það mjög mikilvægt þar sem þetta mál kemur að sjálfsögðu ríkisstjórninni allri við en ekki eingöngu hæstv. utanrrh.
    Það þarf varla að lýsa þeim hörmungum sem eiga sér nú stað við Persaflóa fyrir neinum hér, svo náinn sem fréttaflutningurinn hefur verið. Það er e.t.v. ekki síst þess vegna sem fólk, almenningur í landinu, veltir fyrir sér þeirri óhugnanlegu spurningu hvort Ísland geti orðið aðili að þessu stríði. Það er einmitt vegna aðildar Íslands að málinu sem ég kveð mér hljóðs utan dagskrár.
    Af ummælum íslenskra stjórnvalda og túlkun þeirra á skuldbindingum Íslands hefur mátt skilja að Ísland geti hvenær sem er orðið aðili að styrjöld. Ég tel það hina mestu óhæfu og ógæfu fyrir Ísland ef sú túlkun margra verður ofan á að skv. 5. gr. í Norður-Atlantshafssamningnum frá 1949 verði öll NATO - ríki, að Íslandi meðtöldu, stríðsaðili sé ráðist á eitt NATO - ríki. Ég tel að þessi túlkun sé ekki rétt en reynist svo vera, þá held ég að tími sé til kominn að losa Ísland undan slíkri kvöð. Í 5. gr. NATO - samningsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Aðilar eru sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður - Ameríku skuli talin árás á þá alla. Fyrir því eru þeir sammála um að ef slík vopnuð árás verði gerð, þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varna og sameiginlegra, sem viðurkenndur er í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá sem á er ráðist með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar og er þar með talin beiting vopnavalds til að koma aftur á og varðveita öryggi Norður - Atlantshafssvæðisins.``
    Greinin er örlítið lengri en ég les ekki lengra.
    Í 9. gr. samningsins eru ákvæði um varnarnefnd sem gerir tillögu um ráðstafanir til framkvæmda, m.a. á þessari 5. gr. samningsins.
    Ég fæ ekki betur séð en það sé á valdi hverrar ríkisstjórnar að dæma um það hvað nauðsynlegt er í þessu sambandi. Vilji íslensku ríkisstjórnarinnar þarf því að koma fram í NATO - ráðinu ef til kemur og þá að sjálfsögðu að höfðu samráði við utanrmn. og Alþingi. Ég vil þess vegna spyrja bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. álits á þessari túlkun og bið þá að svara skýrt því að þjóðin á heimtingu á að verða upplýst um svo alvarlegt mál.
    Ég heyri í fréttum frá öðrum NATO - ríkjum, m.a. Danmörku og Þýskalandi, að þar eru uppi sömu sjónarmið og ég hef um túlkun á NATO - samningnum. M.a. kom það skýrt fram í útvarpsviðtali við

Schröder, forsætisráðherra Neðra - Saxlands, 24. jan. sl.
    Landið sem gert er ráð fyrir að Írakar kunni að ráðast á er NATO - ríkið Tyrkland. Það hefur reyndar lengi þótt svarti sauðurinn innan NATO vegna takmarkaðs lýðræðis, svo að ekki sé meira sagt, og stöðugra mannréttindabrota. Ég fæ ekki betur séð en Tyrkland sé að fyrra bragði orðið stríðsaðili þar eð það hefur heimilað Bandaríkjamönnum að nota bækistöðvar til árása á Írak. Einnig er ljóst að forseti Tyrklands, Turgut Özal, hugsar sér gott til glóðarinnar um stríðsþátttöku til að tryggja sér hluta í samningum um hugsanlega skiptingu Íraks að styrjöldinni lokinni.
    Samkvæmt tímaritinu Der Spiegel í sl. viku hefur hann þegar flutt íbúa frá landamærum Íraks og komið upp 20 sjúkraskýlum. Uppáhaldsorðtæki hans samkvæmt sömu heimild er: Þar sem aðeins eru haukar getum við einir ekki leikið dúfurnar.
    Ég bið menn að hugleiða hvaða glóra sé í því að taka á sig þær skuldbindingar sem sumir vilja lesa út úr 5. gr. NATO - samningsins. Ef land eins og Tyrkland lendir í útistöðum við nágranna sína, þá sé Ísland orðið skuldbundið sjálfkrafa til að veita aðstoð sem stríðsaðili. Og hvað ef tvö NATO - ríki fara í hár saman? Ég man ekki betur en það hafi gerst fyrir allmörgum árum þegar Tyrkland og Grikkland lentu í hár saman út af Kýpur.
    Nú hefur stríðið við Persaflóa staðið í tíu daga og æ betur kemur í ljós alvara málsins þegar sigurvíman er að renna af fjölþjóðahernum og farið er að tala um stríð sem geti varað mánuðum saman. Það hefur einnig komið fram í fréttum undanfarið að verulega deildar meiningar hafi verið meðal forustumanna 28 ríkjanna sem standa að fjölþjóðahernum hvort ráðast skyldi til atlögu svo fljótt eða reynt frekar að ná pólitískri lausn með áframhaldandi viðskiptaþvingunum.
    Bush Bandaríkjaforseti og John Major, forsætisráðherra Breta, virðast hafa verið öðrum ákveðnari í að láta til skarar skríða stuttu eftir eindaga 15. jan. og bundið það fastmælum sín á milli á fundi þeirra 21. des. Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er hins vegar sagður hafa verið í hópi þeirra sem vildu doka við, að ekki sé talað um Mitterand Frakklandsforseta og Þjóðverja.
    Ég er hrædd um að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hvaða afleiðingar þessi styrjöld muni hafa varðandi samskipti Vesturlanda við Arabaheiminn á næstunni og e.t.v. um langan aldur. Sem dæmi um þetta get ég bent á viðtal sem sýnt var í fréttum, á CNN held ég að það hafi verið, við fjölskyldu sem flúið hafði frá Kúvæt til Jórdaníu þar sem þau hafast nú við. Hjónin bæði sögðust eindregið standa með Írökum í styrjöldinni þar sem málið snerist ekki lengur um Kúvæt heldur árás Bandaríkjanna á Írak sem hluta af Arabaheiminum. Fullyrt er að a.m.k. 2 / 3 þeirra 200 milljóna Araba standi nú með Írak í þessu stríði og margar ríkisstjórnir í þessum löndum geta brátt staðið frammi fyrir uppreisn almennings.
    Á Arabíuskaganum má segja að búi sama fólkið með sömu tungu og trú og segja má að Kóraninn sé sameiginleg stjórnarskrá ríkjanna sem þar eru. Almenningur lítur almennt svo á að landamæri skipti ekki höfuðmáli enda má ekki hafa landamæri milli trúaðra samkvæmt því sem Kóraninn segir. Það er ekki hægt að setja vestrænan mælikvarða á það sem þarna getur eða er að gerast. Ég er ekki með þessu að réttlæta aðgerðir Íraka á neinn hátt heldur aðeins að sýna fram á hversu röng ákvörðun það var að láta vopnin tala við Persaflóann.
    Áður en átökin hófust var haldin ráðstefna í London um hugsanleg umhverfisáhrif styrjaldar. Á ráðstefnunni voru rædd áhrif þess að kveikt yrði í olíuborholum í Kúvæt. Með reiknilíkönum reyna vísindamenn að meta hugsanleg umhverfisáhrif. Ef kveikt væri í um það bil helmingi af 1000 olíuborholum í Kúvæt mundu milljónir tonna af olíu breytast í sót og lofttegundir. Svart ský mundi berast í átt til Indlandssvæðisins og draga úr eða hindra alveg monsúnrigninguna þannig að afkoma milljóna manna í Pakistan, Indlandi og Bangladesh væri í hættu. Richard Scurer veðurfræðingur sagði að rykskýið mundi fljótt
hylja Bagdad og Bombay og innan mánaðar ná um alla jörð. Sérfræðingur frá olíufélaginu BP lýsti því á ráðstefnunni hve erfitt væri að ráða við olíuelda. Hráolía er undir miklum þrýstingi neðan jarðar og spýtist upp með miklum krafti og nærir eldinn fyrir ofan borholuna. Hann taldi að eldur gæti logað í níu mánuði ef tækist að kveikja í borholunum. Hugleiðið þetta vandamál.
    Poul Crutzen lofthjúpaefnafræðingur hefur með reiknilíkönum metið áhrif kjarnorkuveturs sem mundi fylgja í kjölfar kjarnorkustyrjaldar. Hann hélt því fram að ef kveikt yrði í borholum í Kúvæt í stórum stíl mundu áhrifin líkjast þeim sem yrðu við kjarnorkustyrjöld. Forsendur útreikninganna voru að 10 millj. tunna brynnu á dag sem hefði í för með sér 10 þús. tonn af reyk sem stigi upp í loftið þannig að áhrifin yrðu þá ekki aðeins við Persaflóa heldur mundi reykskýið þekja stóran hluta norðurhvels jarðar og hitastigið mundi falla um 10 gráður að meðaltali. Þetta mundi einnig hafa veruleg áhrif á lofthjúpinn og heiðhvolfið með mjög alvarlegum afleiðingum, m.a. eyðingu ósonlagsins, og það með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þrátt fyrir allar þessar upplýsingar, sem lágu fyrir áður en styrjöldin hófst, var því miður ákveðið að hefja styrjöldina og kveikt hefur verið í borholum þó að ekki sé það í eins miklum mæli og vísindamennirnir gerðu ráð fyrir í svartsýnustu útreikningum. En við vitum lítið hvað Saddam Hussein dettur í hug að gera.
    Straumur olíu út í Persaflóa er annað dæmi um umhverfisspjöll sem fjölda ára tekur að bæta, ef það tekst þá nokkurn tíma. Nýjustu fréttir herma að tekist hafi að stöðva olíuflæðið en þetta er bara eitt af mörgum spjöllum sem þarna eiga sér stað. Enn hafa okkur ekki borist neinar fréttir af þeirri eyðileggingu sem fjölþjóðaherinn hefur valdið með sprengingum sínum. Giskað hefur verið á að sprengiefnið sem varpað var á Írak og Kúvæt fyrstu nóttina hafi verið 1,5 sinnum meira magn en varpað var á Hiroshima. Reiknað hefur verið út að í 1300 árásarferðum sem

farnar voru fyrstu 20 klukkustundirnar þann 17. jan. hafi 18 þús. tonnum af sprengiefni verið varpað. Það hlýtur einhvers staðar að mega sjá þess merki í Írak og Kúvæt að allt þetta sprengiefni hafi fallið. Mér þykir ótrúlegt annað en þúsundir manna hafi fallið, mannvirki eyðilagst, og það ekki eingöngu hernaðarmannvirki, og umhverfisáhrifin hljóta að vera gífurleg.
    Ég óttast mjög að þetta stríð verði ekki til þess að auka líkurnar á friði í þessum heimshluta eða lausn muni finnast á deilumálum sem þar hafa verið. Áður en styrjöldin hófst var bent á að til þess að koma í veg fyrir stríð væri hægt að fallast á þá kröfu Íraka að leysa Palestínumálið samhliða því að Írakar drægju heri sína út úr Kúvæt. Mér er alveg hulin ráðgáta af hverju ekki var hægt að fallast á þessa lausn. Mér er einnig ómögulegt að skilja þá ósamkvæmni sem fólgin er í því að framfylgja ekki samþykktum Sameinuðu þjóðanna að því er varðar lausn Palestínumálsins, en bíða ekki einn einasta dag með árásina á Írak.
    Virðulegur forseti. Úr því sem komið er ætti að vera ljóst að það er öllum til hagsbóta að stríðinu ljúki strax. Fyrir því eigum við að beita okkur á alþjóðavettvangi. Ég vil því endurtaka spurningu mína til hæstv. utanrrh. og forsrh. varðandi túlkun þeirra á 5. gr. Atlantshafssáttmálans og jafnframt hvort íslenska ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin að beita sér fyrir að átök verði stöðvuð og sest að samningaborðinu. Mig langar jafnframt að spyrja að því hvort ríkisstjórnin hafi nú þegar mótað afstöðu vegna hugsanlegra árása á Tyrkland eða önnur NATO - ríki. Við eigum að lýsa andúð okkar á ofbeldi og yfirgangi hvar sem er í heiminum og vinna að friði. Það er hægt að vinna styrjöld en um leið tapa friðnum. Því miður er það nú að gerast. Ég legg áherslu á að Ísland hefur hlutverki að gegna til að koma friði á í heiminum. Þess vegna legg ég áherslu á að Ísland gerist ekki aðili að stríði við Persaflóa. Í styrjöld tapa allir. Þar verður enginn sigurvegari.