Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þingheimi er kunnugt er upphaf þeirra blóðugu styrjaldarátaka sem nú geisa á Persaflóasvæðinu það að þann 2. ágúst sl. hóf Írak hernaðaraðgerðir á hendur grannríki sínu Kúvæt, hernam það og síðar innlimaði í ríki sitt. Þessar hernaðaraðgerðir Íraksstjórnar voru að sjálfsögðu skýlaust brot á grundvallaratriðum alþjóðalaga, brot á sáttmála hinna Sameinuðu þjóða og framkvæmd stríðsins af þeirra hálfu einnig brot á mörgum veigamiklum alþjóðasamningum.
    Það er að sjálfsögðu öllum mönnum mikið harmsefni að til styrjaldar skuli hafa komið. Þessi styrjöld hófst 2. ágúst á síðasta ári með hernaðaraðgerðum Íraka sem ótvírætt eru árásar- og ofbeldisaðilinn. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Á þeim fimm mánuðum sem liðu fram að því að til hernaðaraðgerða var gripið til að framkvæma ályktanir Sameinuðu þjóðanna til að knýja Írak til þess að draga heri sína til baka frá Kúvæt var þess ítrekað freistað að fá írösk stjórnvöld til að fara að ályktun hinna Sameinuðu þjóða. Þetta sýnir að grundvallaratriði málsins byggist að sjálfsögðu á viðbrögðum hins alþjóðlega samfélags við þessum hernaðar - og ofbeldisaðgerðum. Þess vegna er nauðsynlegt að rifja hér upp hvernig öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur brugðist við.
    Öryggisráðið hefur á undanförnum mánuðum samþykkt 12 ályktanir um Írak/Kúvæt - málið. Þessar ályktanir eru eftirfarandi:
    1. Ályktun nr. 660 frá 2. ágúst 1990, þar sem innrásin er fordæmd og þess krafist að Írak dragi herlið sitt þegar í stað og án skilyrða frá Kúvæt.
    2. Ályktun nr. 661 frá 6. ágúst 1990, um viðskiptabann á Írak og Kúvæt.
    3. Ályktun nr. 662 frá 9. ágúst 1990, þar sem innlimun Kúvæts í Írak er lýst ólögleg og ógild.
    4. Ályktun nr. 664 frá 18. ágúst 1990, þar sem þess er krafist að erlendum ríkisborgurum verði frjálst að fara frá Kúvæt og öryggi þeirra verði tryggt.
    5. Ályktun nr. 665 frá 25. ágúst 1990, um hafnbann á Kúvæt.
    6. Ályktun nr. 666 frá 13. sept. 1990, um sendingu matvæla til Íraks og Kúvæts í mannúðarskyni, þ.e. um undanþágu frá viðskipta - og hafnbanni.
    7. Ályktun nr. 667 frá 16. sept. 1990, um lokun sendiráða í Kúvæt, vernd stjórnarerindreka og annarra erlendra ríkisborgara og frelsi þeirra til að yfirgefa landið.
    8. Ályktun nr. 669 frá 24. sept. 1990, um umboð nefndar sem sett var á laggirnar með ályktun 661 um viðskiptabann á Írak og Kúvæt.
    9. Ályktun nr. 670 frá 25. sept. 1990, um flugbann á Írak og Kúvæt.
 10. Ályktun nr. 674 frá 29. okt. 1990, þar sem þess er krafist að Írakar láti án tafar af gíslatöku, gripdeildum og valdbeitingu gagnvart erlendum ríkisborgurum og íbúum Kúvæts.
 11. Ályktun nr. 677 frá 28. nóv. 1990, þar sem fordæmdar eru aðgerðir Íraka til að hafa áhrif á samsetningu kúvæsku þjóðarinnar með tilflutningi fólks og eyðileggingu þjóðskrár lögmætra stjórnvalda í landinu.
 12. Ályktun nr. 678 frá 29. nóv. 1990. Að margra mati er hún sú mikilvægasta. Þar er aðildarríkjunum veitt heimild í samstarfi við lögmæt stjórnvöld í Kúvæt til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til fullnustu ályktunar 660, þ.e. að Írak dragi herlið sitt til baka, hafi Írak ekki orðið við tilmælum öryggisráðsins í ofangreindum ályktunum fyrir 15. jan. 1991.
    Í þessum tólf ályktunum er ítrekað lýst þeim ásetningi ráðsins að brjóta á bak aftur innrás og hernám Íraka á Kúvæt og að endurheimta fullveldi og sjálfstæði landsins. Við umræður um síðustu ályktunina, nr. 678, var öllum aðildarríkjunum gert ljóst að vopnavaldi kynni að verða beitt sem neyðarúrræði ef Írak virti ekki frestinn sem settur var til 15. jan. 1991.
    Það er því alveg ljóst að viðbrögð þeirra 28 ríkja sem létu til skarar skríða eftir 15. jan. eru til þess að framkvæma ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna er að finna skýlaus ákvæði um heimild öryggisráðsins til að úrskurða hvort fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof eða árás. Skal þá gera tillögur um eða ákveða hvaða ráðstafanir skulu gerðar til að koma aftur á friði og stöðugleika.
    Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna gefur færi á ýmsum leiðum til þess að hrinda í framkvæmd ályktun öryggisráðsins. Framkvæmdin þarf ekki nauðsynlega að vera í höndum ráðsins sjálfs. Öryggisráðið getur einfaldlega farið fram á það við aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að þau veiti þann stuðning sem nauðsynlegur er til að framfylgja ályktunum ráðsins. Og það er nákvæmlega þetta sem öryggisráðið hefur gert varðandi innrás og hernám Íraks á Kúvæt. Aðgerðir þeirra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sem nú beita hernaðaraðgerðum eru byggðar á þessum ályktunum öryggisráðsins sem ég hef þegar tíundað og ákvæðum sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sérstaklega 51. gr. hans sem kveður á um rétt þjóða til sjálfsvarnar. Af því að spurt var um 5. gr. Atlantshafssamningsins, sem að flestra mati er ein mikilvægasta grein hans, skal þess getið að í henni er beinlínis vísað til 51. gr. sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, þ.e. til réttar þjóða til sjálfsvarnar, ýmist hver fyrir sig eða í bandalögum. Til hernaðaraðgerða var ekki gripið fyrr en að fimm mánuðum liðnum, eftir tólf ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og eftir að ljóst var að írösk stjórnvöld virtu að vettugi allar þessar ályktanir og brutu þannig gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalögum og alþjóðlegum samningum.
    Hv. 6. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir spurði fyrst og fremst: Hver er aðild Íslands eða Íslendinga að þessum styrjaldarátökum? Svarið er mjög einfalt. Ísland er ekki styrjaldaraðili og verður það ekki með neinum sjálfkrafa hætti, hvorki að því er varðar samþykktir Sameinuðu þjóðanna né heldur að því er varðar spurninguna um ákvæði 5. gr. Atlantshafssáttmálans. Þetta gerist ekki með neinum sjálfvirkum hætti.

Og ef spurt er: Hver er staða málsins nú? þá er hún sú að Ísland er ekki styrjaldaraðili. En hitt er jafnrétt og skylt að taka fram að Íslendingar eru með samþykktum sínum á öllum þessum tólf ályktunum skuldbundnir til þess að fylgja fram þeirri stefnu sem þar er mótuð og að verða við, eftir getu og vilja, óskum Sameinuðu þjóðanna um aðstoð við að framfylgja þessum ályktunum.
    Ef spurt er um stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar þá er hún nákvæmlega það sem gert hefur verið. Nú vil ég í örfáum orðum rifja upp með hvaða hætti íslenska ríkisstjórnin hefur lýst afstöðu sinni til þessa máls.
    Þann 2. ágúst sl. birti utanrrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fréttatilkynningu þar sem segir: ,,Utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fordæmir harðlega árás Íraka á Kúvæt sem er skýlaust brot á sáttmála hinna Sameinuðu þjóða. Skorað er á stjórnvöld í Bagdad að draga herlið sitt þegar og skilyrðislaust til baka og greiða þannig fyrir friðsamlegri lausn á deilu ríkjanna.``
    Þann 8. ágúst gaf utanrrn. út fréttatilkynningu þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Íslensk stjórnvöld munu ekki viðurkenna hina nýju leppstjórn Íraka í Kúvæt. Stjórnvöld lýsa enn fremur fullum stuðningi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661, um efnahagslegar aðgerðir gagnvart Írak.``
    Þann 9. ágúst er enn gefin út fréttatilkynning þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin samþykkti í dag ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661, um bann við viðskiptum við Írak og Kúvæt vegna innrásar Íraka í Kúvæt.
    Í dag hefur verið gefin út auglýsing á grundvelli laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem lagt er bann við öllum inn - og útflutningsviðskiptum við ofangreind ríki.``
    Þann 17. ágúst er gefin út fréttatilkynning af hálfu utanrrn. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Norðurlöndin hafa sameiginlega mótmælt þeirri ákvörðun stjórnvalda í Írak að neita norrænum ríkisborgurum, sem staddir eru í Kúvæt og Írak, um brottfararleyfi. Norðurlöndin höfðu farið formlega fram á það að fólkinu yrði leyft að fara á brott en því hafa stjórnvöld í Írak neitað. Átta íslenskir ríkisborgarar munu nú vera staddir í Kúvæt, þar af fjögur börn. Utanríkisráðuneyti Norðurlandanna vinna nú sameiginlega að því að tryggja hag norrænna ríkisborgara í Írak og Kúvæt og munu íslensku ríkisborgararnir njóta aðstoðar sendiráðs Svía í Kúvætborg. Stöðugt samráð er á milli utanríkisráðuneyta Norðurlandanna til að reyna að tryggja farsæla lausn mála.``
    Þann 12. sept. er enn gefin út fréttatilkynning á vegum utanrrn. þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna, sem haldinn var í Molde í Noregi 11. og 12. sept., samþykkti m.a. sérstaka yfirlýsingu þar sem innrás Íraka í Kúvæt er fordæmd og lýst er yfir fullum stuðningi við aðgerðir Sameinuðu þjóðanna vegna innrásarinnar. Meðfylgjandi er síðan ofangreind yfirlýsing sem er í ítarlegra máli.``
    Þann 5. okt. er enn birt fréttatilkynning frá utanrrn. þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Fyrirhugað er að verja fjárframlagi að upphæð 140 millj. kr. til neyðarhjálpar vegna Persaflóadeilunnar. Rauði kross Íslands mun ráðstafa 90 millj. kr. af fjárhæðinni, þar af 50 millj. kr. vegna aðstoðar við flóttamenn í Jórdaníu og 25 millj. kr. vegna flóttamanna í Egyptalandi, en ráðgert er að kaupa matvæli og hjálpargögn hér á landi fyrir þessar fjárhæðir. Auk þess verður 15 millj. kr. varið til að kaupa vörur fyrir birgðastöð Rauða krossins á Kýpur vegna Persaflóadeilunnar. Enn fremur mun Hjálparstofnun kirkjunnar ráðstafa 15 millj. kr. til aðstoðar flóttamönnum, einkum í Jórdaníu og Egyptalandi. Enn hafa ekki verið fullmótaðar tillögur um ráðstöfun á 35 millj. kr.``
    Þetta eru þær ályktanir sem birtar hafa verið opinberlega af hálfu ríkisstjórnarinnar. Um þær má segja einfaldlega eftirfarandi: Þær staðfesta að íslenska ríkisstjórnin hefur mótað þá stefnu að styðja ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Það höfum við gert í reynd með því að greiða þeim atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt höfum við orðið við öðrum tilmælum sem okkur hafa borist frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdastjórn Sameinuðu þjóðanna um stuðning við framkvæmd þessara ályktana. Það birtist m.a. í aðild að viðskiptabanni og með framlögum sem við hins vegar skilgreindum af okkar hálfu á þann veg að við beindum okkar framlögum til neyðarhjálpar og aðstoðar af mannúðarástæðum.
    Sérstök ástæða er af þessu tilefni til að rifja upp að margt var gert á þeim fimm mánuðum sem stjórnvöld í Írak höfðu til að sjá sig um hönd og verða við samþykktum hinna Sameinuðu þjóða og til þess að koma í veg fyrir styrjaldarátök og til þess að ná fram
lausn eftir friðsamlegum leiðum. Um það var hins vegar alger samstaða að krafan af hálfu Sameinuðu þjóðanna var sú að Íraksstjórn drægi herlið sitt til baka án skilyrða.
    Ég nefni alveg sérstaklega að áður en úrslitadagurinn rann upp reyndu ýmsar ríkisstjórnir sérstaklega að koma á framfæri tillögum og hugmyndum sem höfðu það að markmiði að lýsa yfir hvert skyldi verða hlutverk hinna Sameinuðu þjóða eftir að Írak hefði orðið við meginkröfunni um að draga herlið sitt til baka. Ég legg áherslu á þetta vegna þess að úrslitakostir hinna Sameinuðu þjóða voru þeir að herinn hyrfi þaðan brott án skilyrða. Um það var út af fyrir sig enginn ágreiningur. En ég nefni sem dæmi um þetta tillögur utanríkisráðherra Norðurlanda sem komið var á framfæri við framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Peres de Cuellar, í tveimur atrennum, ef svo má orða, í vikunni fyrir 15. janúar. Þessar tillögur voru um það að leggja til við framkvæmdastjórann, og biðja hann að koma því á framfæri við öryggisráðið, að Sameinuðu þjóðirnar skilgreindu mjög rækilega hlutverk sitt, hvert skyldi verða þeirra hlutverk eftir að Írak hefði fullnægt kröfum Sameinuðu þjóðanna um að draga her sinn til baka. Og það var, svo að ég

nefni nokkrar helstu hugmyndirnar:
    Í fyrsta lagi að Sameinuðu þjóðirnar lýstu því yfir að þær væru reiðubúnar til þess að senda friðargæslusveitir á vettvang þegar í stað og eftirlitsmenn með framkvæmd vopnahléssamninga eða friðarsamninga.
    Í annan stað að Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þeirra, sem við eiga, hefðu frumkvæði að því að lýsa og skilgreina þann vanda sem við væri að fást og koma með tillögur um framkvæmd og fjármögnun endurreisnarstarfs.
    Í þriðja lagi að Sameinuðu þjóðirnar lýstu sig reiðubúnar til þess að beita sér fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um málefni landanna á svæðinu sem skyldi sinna nokkrum meginverkefnum. Í fyrsta lagi að leita eftir samningum um afvopnun á svæðinu, um niðurskurð vígbúnaðar og sérstaklega um algert bann við framleiðslu, söfnun, hvað þá beitingu annars vegar efnavopna og hins vegar kjarnavopna. Og í þriðja lagi að beita sér fyrir samningum um samskipti ríkja, sem byggð væru á hugmyndum um traustvekjandi aðgerðir til þess að draga úr hættu á óvæntum hernaðaraðgerðum.
    Í fjórða lagi. Að beita sér fyrir pólitískum lausnum á þeim djúpstæðu og langvarandi deilumálum sem hafa verið þjóðum að ágreiningsefni og verið styrjaldartilefni í fortíðinni en þau mál eru mörg. Þau eru aldagamall fjandskapur og deilumál milli Írans og Íraks, svo að ég nefni eitt dæmi. Þau eru langvarandi deilumál og fjandskapur með hernaðaraðgerðum milli Sýrlands og Líbanon, sem m.a. hernemur það land. Og þau eru að sjálfsögðu langvarandi og djúpstæð ágreiningsmál milli annars vegar Ísraels og Arabaríkjanna hins vegar og þá sérstaklega Palestínumanna.
    Við lögðum til að þetta yrði gert á grundvelli áður samþykktra tillagna á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða eftir ákveðnum grundvallarreglum um virðingu fyrir alþjóðalögum, virðingu fyrir rétti þjóða til sjálfsstjórnar o.s.frv. Það skal tekið fram að um þessar tillögur ráðfærðu Norðurlandabúar sig við bandarísk stjórnvöld og þeim var vel tekið eins og fram kom í fréttatilkynningum sem út voru gefnar m.a. af utanríkisráðherrafundi Evrópubandalagsins. Loks má geta þess að tilraunir Frakklandsforseta, Mitterands, á seinustu stundu til þess að fá Íraka til þess að virða ályktanir Sameinuðu þjóðanna og koma þannig í veg fyrir styrjöld voru af mjög svipuðum toga.
    Þetta nægir til þess að færa rök að því að margt var gert áður en til styrjaldarátaka kom og það var hvenær sem var í höndum íraskra stjórnvalda að koma í veg fyrir styrjöld ef þessar og þvílíkar tillögur hefðu fengið einhver viðbrögð. Til þess að það valdi engum misskilningi skal það tekið fram að þessar tillögur út af fyrir sig buðu ekki upp á neina sérstaka tengingu milli annars vegar þeirrar deilu sem við er að fást og leiðir af hernaðarofbeldi, hernámi og innlimun Kúvæts og hins vegar deilunnar milli Ísraels og Arabalandanna og Palestínumanna hins vegar, vegna þess að þær voru tryggilega og rækilega skilyrtar að því leyti að þær skyldu fjalla um hvað gerðist eftir að Írak hefði orðið við kröfu Sameinuðu þjóðanna um að

draga heri sína skilyrðislaust til baka. Þetta var ekki kaupskapur við ofbeldissegginn.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja máli mínu sérstaklega að spurningunni um hugsanlega aðild Íslands að styrjaldarátökum sem hlýst af aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og 5. gr. samnings bandalagsins sem oft hefur verið lýst sem grundvallargrein Atlantshafsbandalagsins. 5. gr. stofnsamnings Atlantshafsbandalagsins hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðilar eru sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður - Ameríku skuli talin árás á þá alla. Fyrir því eru þeir sammála um að ef slík vopnuð árás verður gerð, þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varna og sameiginlegra, sem viðurkenndur er í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá sem á er ráðist með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar og er þar með talin beiting vopnavalds til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður - Atlantshafssvæðisins. Tilkynna skal öryggisráðinu tafarlaust allar þvílíkar vopnaðar árásir og allar ráðstafanir sem gerðar eru vegna þeirra. Hætta skal slíkum ráðstöfunum þegar öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að koma á aftur og varðveita alþjóðafrið og öryggi.``
    Þetta er ákvæði 5. gr. sem um er spurt. Um þetta er margt að segja. Í fyrsta lagi vil ég leggja á það áherslu að 5. gr. Atlantshafssáttmálans er sett fram með beinni tilvísun til 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um rétt þjóða til sjálfsvarnar að því er varðar hverja fyrir sig eða sameiginlega samkvæmt nánari samningum. Þessi 5. gr. er þess vegna með beinni vísan til grundvallarreglna í þjóðarétti að því er varðar Sameinuðu þjóðirnar og enginn vafi á réttarstöðu þessa ákvæðis eða lögmæti vegna þess að sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða kveður í þessari umræddu 51. gr. á um rétt þjóða til sjálfsvarnar ef á er ráðist.
    Nú er rétt að taka það fram að þetta ákvæði, 5. gr., verður ekki virkt með neinum sjálfkrafa hætti. Það sem gerist er einfaldlega það að ef ráðist er á eitt aðildarlanda bandalagsins, þá getur ríkisstjórn þess lands sem á er ráðist farið fram á það formlega að Atlantshafsráðið og varnaráætlunarnefnd þess komi saman og taki ákvörðun á grundvelli 5. gr. Ráðið þarf þá að staðfesta að árás sem falli undir skilgreiningu 5. gr. hafi átt sér stað. Þess skal síðan getið að allar ákvarðanir innan Atlantshafsráðsins, sem eftir atvikum er ráðherraráð bandalagsins, ef þeir ekki koma saman þá fastafulltrúarnir, eru teknar með fullri samstöðu.
    Þá er að víkja að líkum á því að ákvæðum þessarar greinar verði beitt. Á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins þann 17. des. sl. var gerð sérstök ályktun um hættuástandið í löndunum við botn Persaflóa. Í þessari ályktun var frá því skýrt að tyrkneski utanríkisráðherrann hefði fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar lýst sérstökum áhyggjum af því að Írakar kynnu að vilja færa út styrjaldarátökin með því að ráðast á Tyrkland. Þess vegna óskaði tyrkneski utanríkisráðherrann sérstaklega eftir því að Atlantshafsbandalagið áréttaði samstöðu sína á grundvelli 5. gr. með Tyrklandi sem var gert í þessari ályktun. Því var lýst yfir að samstaða Atlantshafsbandalagsþjóðanna væri óbilandi og Írak sérstaklega varað við því að grípa til hernaðaraðgerða gegn Tyrklandi vegna þess að það kynni að hafa í för með sér að ákvæði 5. gr. yrðu virk og þá væri bandalaginu og bandalagsþjóðunum í heild að mæta. Þetta var gert til þess fyrst og fremst að vara við og bægja frá hættu á árás og koma í veg fyrir að misskilningur gæti freistað íraskra hernaðaryfirvalda til þess að færa stríðið út.
    Í framhaldi af þessu gerðist það síðan að tyrkneska ríkisstjórnin óskaði eftir því að þessi afstaða yrði staðfest með áþreifanlegum hætti með því að senda til Tyrklands þrjár flugsveitir og svokölluð Allied Mobile Force eða aðgerðasveit bandalagsins sem var gert. Þannig að nú eru í Tyrklandi þrjár flugsveitir frá Belgíu, Þýskalandi og Ítalíu. Þann 17. jan. sl. gerist síðan það að tyrkneska þingið samþykkir ályktun sem er þess efnis að heimila ríkisstjórn Tyrklands að verða með jákvæðum hætti við aðstoðarbeiðni Sameinuðu þjóðanna um aðstoð við að framfylgja ályktunum Sameinuðu þjóðanna sem og er í þessari ályktun heimild tyrknesku ríkisstjórnarinnar til þess að setja tyrkneska herinn í viðbragðsstöðu ef á Tyrkland verði ráðist. Þessi ályktun tyrkneska þingsins er með öðrum orðum mjög í samræmi við ályktanir margra þjóðþinga aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um það að lýsa ekki einasta yfir stuðningi við ályktanirnar heldur að verða við beiðni sem berst um aðstoð við að framfylgja þeim.
    Það sem síðan gerist í þessu máli er að samningar eru gerðir milli bandarískra og tyrkneskra stjórnvalda þar sem tyrkneska ríkisstjórnin heimilar Bandaríkjunum afnot af flugvöllum í Tyrklandi. Það samkomulag er tvíhliða milli þessara tveggja ríkisstjórna. Engu að síður undirstrika ég það að þing og ríkisstjórn í Tyrklandi hafa fyrst og fremst verið að bregðast við beiðni Sameinuðu þjóðanna með því að lýsa sig reiðubúið og gefa ríkisstjórn heimild til að bregðast með jákvæðum hætti við erindum um að aðstoða við framkvæmd á ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru meginefnisatriði málsins. Ef spurt er hvað mun gerast í því tilviki að Írak ráðist á Tyrkland með vopnavaldi þá er svarið einfaldlega þetta: Þá mun Atlantshafsráðið koma þegar í stað saman og meta allar aðstæður, meta forsendur málsins og í ljósi þeirrar niðurstöðu taka ákvörðun um það hvort 5. gr. verður virk eða ekki. Þeirri spurningu getur enginn svarað fyrir fram vegna þess að það fer eftir mati ráðsins á aðstæðum. Ef niðurstaða ráðsins verður sú að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Tyrkland, hafi orðið fyrir hernaðarárás sem réttlæti það að 5. gr. verði gerð virk, þá er það ákvörðunarefni stjórnvalda í hverju landi hvernig með það mál skuli fara. Það getur verið mismunandi eftir stjórnarskrárákvæðum og stjórnarfarsrétti og venjum í hverju landi. Í sumum löndum er það stjórnarskrárákvæði að slíka ákvörðun skuli bera undir þjóðþing en í öðrum ekki. Að því er varðar íslensku stjórnarskrána, þá er ekki slíkt ákvæði um það. Það kann því að vera breytilegt eftir aðstæðum.
    Ég kýs, virðulegi forseti, að segja ekki mikið meira um þetta á þessu stigi málsins, enda er mér það ekki kleift. Ég get ekki lýst yfir neinu fyrir fram um það hvernig brugðist verður við atburðum sem ekki eru orðnir. Ég vil einungis láta í ljós þá skoðun mína að þessi 5. gr. Atlantshafsbandalagsins er hornsteinn þess bandalags. Hún þýðir í reynd einn fyrir alla og allir fyrir einn. Sú grein verður ekki virk nema með samstöðu allra ríkja sem áréttar að Atlantshafsbandalagið er varnarsamtök lýðræðisríkja, fullvalda ríkja, sem er byggt á trausti.
    Atlantshafsbandalagið hefur að mínu mati sannað það frá því að það var stofnað að það er árangursríkasta varnarbandalag sem nokkurn tíma hefur verið stofnað í þessari veröld. Það eru engar ýkjur að segja að á tímum kalda stríðsins, á þeim tímum þegar Sovétríkin voru vissulega afar ógnvænlegt, hernaðarlegt risaveldi, þá gegndi Atlantshafsbandalagið fyrst og fremst því lykilhlutverki að varðveita stöðugleika og frið í okkar heimshluta. Það hefur sýnt það síðan að sú stefna sem það byggir á, annars vegar öflugur varnarviðbúnaður, þar með talinn fælingarmáttur kjarnavopna til þess að halda ofbeldisseggjum frá ögrunum, sem og sveigjanleg pólitísk afstaða sem lýst hefur sér í því að aðildarríkin hafa verið reiðubúin að taka í útrétta sáttahönd hvenær sem þess gafst færi og sannast hefur í t.d. öllum Helsinki - ferlinum, samstarfinu innan Ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, afvopnunarsamningum o.s.frv., þessi tvíþætta stefna, annars vegar traustur varnarviðbúnaður, byggður á samstöðu lýðræðisríkjanna, hins vegar vilji til þess að ganga til samninga og samkomulags um leið og skilyrði til þess höfðu verið sköpuð, hefur reynst farsæl og hún hefur skilað miklum árangri.
    Það er alveg ljóst að 5. gr. bandalagsins með þessari tilvísun til stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er lykilatriði þessa bandalags. Hver og ein aðildarþjóð hlýtur að hugsa fram í tímann til þess:
Erum við reiðubúin til þess að meta okkar stöðu ef við værum í þeirri aðstöðu að öryggi okkar væri ógnað með hernaðarógnun utan frá? Mundum við ekki gera þá kröfu til þess að þessi grein héldi? Eða vildum við gera eitthvað sem síðar gæti leitt til þess að önnur aðildarríki gætu þvegið hendur sínar og sagt: Við metum það svo að þessi grein haldi ekki?
    Ég hygg að það sé ekki hvað síst hagsmunamál vopnlausrar smáþjóðar, sem á viðsjárverðu tímabili eftir stríð hefur byggt öryggi sitt fyrst og fremst á þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og traustinu á því að þessi grein væri virt, að við munum skoða hug okkar vandlega áður en við stuðlum að því að grundvellinum verði kippt undan samstöðu lýðræðisríkjanna.
    Ég tek það skýrt fram að spurningum hv. málshefjanda er ekki hægt að svara að fullu og öllu, en ég dreg það saman í kjarna málsins.
    Í fyrsta lagi: Ísland er ekki stríðsaðili með neinum sjálfvirkum hætti samkvæmt ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

    Í annan stað: Við höfum hins vegar skuldbundið okkur með stuðningi okkar við ályktanir Sameinuðu þjóðanna til þess líka að leggja fram okkar skerf, að okkar eigin mati, til þess að stuðla að framkvæmd þessara ályktana.
    Í þriðja lagi: Við erum að sjálfsögðu fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu og ef á eitthvert aðildarríki verður ráðist þá munum við ekkert skorast undan þeim skyldum okkar að meta það ásamt bandalagsþjóðum okkar, það gerum við í hverju einstöku tilviki. Ég lít hins vegar svo á að það sem tyrkneska ríkisstjórnin, bandalagsþjóð okkar, hefur gert í þessu máli hingað til sé fyrst og fremst að verða við óskum um stuðning við að framfylgja þessum ákvörðunum, að það verði ekki með réttu túlkað sem tilefnislaus ögrun við Írak sem í þessu tilviki er upphafsaðili styrjaldarinnar með hernaðar- og ofbeldisaðgerðum. Fjölmörg af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafa ekki einasta sent á vettvang her heldur látið í té aðstöðu af því að þær voru með þeim hætti að undirstrika vilja sinn til þess að aðstoða hinar Sameinuðu þjóðir við framkvæmd á þeirra ályktun. Það verður ekki að mínu mati skoðað sem tilefnislaus styrjaldarögrun. Þess vegna legg ég á það áherslu að írösk stjórnvöld eiga að líta svo á að þau taki þá stórkostlegu áhættu, ef þau ætli að færa stríðið út með árás á Tyrkland, að þau séu þar með vitandi vits og af ásettu ráði að reyna að draga inn í stríðið Atlantshafsbandalagsríkin öll. Ef menn reyna að meta hvort líkurnar á því eru meiri eða minni getur auðvitað enginn sagt neitt um það. Viðbrögð einræðisherrans í Bagdad eru óútreiknanleg eins og fram kom í máli frummælanda. En miðað við þá umfjöllun sem ég sé almennt af fundum, ráðstefnum og umfjöllun í fjölmiðlum, þá eru líkurnar á því á þessu stigi málsins ekki taldar mjög miklar.