Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að svara öllum þeim spurningum um stríð eða frið sem hér hafa verið orðaðar í þessari umræðu, heldur einungis þeim spurningum sem beinlínis var til mín beint og varða málið sem var spurt um.
    Í fyrsta lagi spyr ég sjálfur hv. þingheim: Hefur einhvers staðar komið fram ágreiningur innan þings eða milli þingflokka um afstöðu Íslendinga í þessu máli, t.d. varðandi afstöðu gagnvart ályktunum Sameinuðu þjóðanna? ( Gripið fram í: Nei.) Svarið er nei. Það hefur verið ágreiningslaust. Þessar samþykktir Sameinuðu þjóðanna hafa verið ræddar á löngum tíma. Þær hafa verið ræddar í utanrmn. Afstaða hefur verið kynnt af hálfu ríkisstjórnar. Enginn þingmaður, enginn hv. þm. hefur kvatt sér hljóðs til þess að andmæla þeim eða lýsa annarri skoðun þannig að ég hlýt að líta svo á að það sé samstaða um það á þingi og milli þingflokka um að við þær skuldbindingar skulum við standa.
    Í annan stað er spurt: Er Ísland styrjaldaraðili? Reyndar var því haldið fram af einum hv. þm., annar bað um nánari skýringar á því. Svarið er einfalt: Ísland er ekki styrjaldaraðili vegna þess að Ísland gerist ekki styrjaldaraðili með neinum sjálfvirkum hætti. Eitt er það að við höfum skuldbundið okkur af samþykki okkar við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og við höfum einnig orðið við áskorunum um að aðstoða við framkvæmd þeirra en við erum ekki styrjaldaraðilar. Við höfum ekki tekið ákvörðun um það.
    Það er spurt: Eru hernaðaraðgerðirnar sem gripið var til á vegum Sameinuðu þjóðanna eða ekki? Svarið við því er: Já, þær eru á vegum Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráðið ályktaði að brjóta á bak aftur innrás
og hernám Íraka í Kúvæt. Það gaf ofbeldisseggnum tímafrest til þess að draga hersveitir sínar til baka. Það heimilaði aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða eftir það til þess að ná fram þessu markmiði og reyndar bætti um betur og skoraði á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að aðstoða við framkvæmd þeirrar ályktunar. Það eru ýmsar leiðir sem Sameinuðu þjóðirnar samkvæmt sáttmála sínum hafa til þess að framkvæma slíkar ályktanir. Ég skýri ekki frá því nánar. Ég vék að því í framsöguræðu minni. Í þessu tilviki var framkvæmd ályktana öryggisráðsins um Persaflóa byggð á ályktunum öryggisráðsins sem og 51. gr., um rétt ríkja til sjálfsvarnar. Það hefði út af fyrir sig verið unnt að beita öðrum ráðum. En það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Að því leyti er samlíkingin við íslenska þjóðveldið gild að Sameinuðu þjóðirnar geta beitt ráðum til þess að fá aðildarríki sín til þess að framfylgja ályktunum sínum og reyndar eru þær skuldbundnar til þess skv. 25. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Þá er ein spurning sem tengist spurningunni um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og Tyrklandi og hún er þessi: Er Tyrkland árásaraðili? Mitt svar við

því er nei. Rökin eru þessi: Tyrkneska þjóðþingið hefur samþykkt að verða við beiðni öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að aðstoða við framkvæmd ályktana Sameinuðu þjóðanna. Hver er munurinn á afstöðu Tyrklands og annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í því tilviki sem ýmist hafa látið í té land til þess að verða við þeim óskum eða látið í té herlið til þess að verða við þeim óskum eða látið í té skip, flugvélakost eða annað? Ég tel að sá munur sé enginn. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt ráðið hjá Atlantshafsbandalaginu þegar það varaði Írak á sínum tíma, strax 17. des., mjög við því að færa út sviðið með því að ráðast á Tyrkland, varð við tilmælum tyrknesku ríkisstjórnarinnar um að flytja þangað liðsveitir sem gert var með sérstakri samþykkt, gátu reyndar ekki verið bandarískar vegna þeirrar skipunar Atlantshafsbandalagsins að þessar sveitir tilheyrðu suðurvæng og voru þar samkvæmt fyrri áætlunum þeim til varna, vegna þess að ég tel það öryggisatriði að það leiki enginn vafi á því að ef Írak ræðst á Atlantshafsbandalagið tekur það náttúrlega þá áhættu að 5. gr. bandalagsins verði virk svo fremi sem aðilar eru sammála um að Tyrkland hafi ekki gerst árásaraðili.
    Ég tek sérstaklega undir þau orð sem hér voru látin falla af hv. þm., formanni Alþb., þegar hann sagði: Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt fyrir smáþjóðir í þessum heimi að ofbeldisaðgerðir af því tagi sem Írak stofnaði til verði ekki látnar ná fram að ganga án aðgerða af hinu alþjóðlega samfélagi. Og ég tek undir með honum þegar hann sagði: Það er óháð stjórnarfari þeirra ríkja sem hér er um að ræða. Ég lýsi ekki yfir neinum stuðningi við það stjórnarfar sem ríkir í mörgum löndum Arabaheimsins. En það breytir engu um það, vegna þess að við erum hér að tala um grundvallaratriði, um alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðleg samskipti að þessu leyti. Jafnvel þótt færa mætti rök að því að eitthvað væri hæft í sögulegum röksemdum Íraksstjórnar um landamærakröfur á þessu svæði þá réttlætir það heldur ekki hernaðaraðgerðir með vísan til sömu grundvallarreglna.
    Þá var spurt: Eru íslensk stjórnvöld sammála því að markmiðið með hernaðaraðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna sé ekki lengur að reka Íraka úr Kúvæt heldur að brjóta veldi Saddams Husseins á bak aftur? Svar við þessu lá fyrir fyrir fram. Markmiðið er að knýja með öllum mögulegum ráðum Saddam Hussein til þess að fara með her sinn frá Kúvæt og endurreisa fullveldi Kúvæts. Þar á meðal kemur það síðan til mats hvernig haldið er á þeim styrjaldarrekstri. Ég lýsi því yfir að ég tel það hafa verið sjálfsagt mál að beina hernaðaraðgerðum að því að eyðileggja og útrýma getu íraska hersins til þess að beita kjarna - og eiturvopnum, svo að ég nefni sem dæmi. Og það er þáttur í því sem við á að taka, nefnilega þeim vanda að vinna friðinn, að hernaðarmáttur Írakshers verði verulega minnkaður jafnframt því sem það er nauðsynlegt að draga úr mannfalli við að ná fram því markmiði að frelsa Kúvæt.
    Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki tímans

vegna sagt margt um þær spurningar sem hér hafa verið vaktar um stríð og frið, þar á meðal spurningu hæstv. forseta um hverjir hafi óbilaða eða óbrjálaða dómgreind í þessum málum o.s.frv., enda ekki til við þeim einhlít svör. Við getum aðeins litið til baka til sögulegrar reynslu Evrópuþjóða á okkar öld. Við höfum lifað einhverja blóðugustu öld sem nokkrar sögur fara af í sögu mannkynsins, miklu grimmilegri, miklu blóðugri í mannfórnum og töpuðum mannslífum heldur en þær aldir sem við kennum við myrkar miðaldir eða fyrri tíðar styrjaldir. Það má spyrja: Var það heilbrigð dómgreind þeirra sem töldu sig mesta friðarsinna á sínum tíma þegar ekki voru í tæka tíð gerðar ráðstafanir til þess að stöðva Adolf Hitler og ofbeldisheri hans? Við vitum síðar að það kostaði 52 milljónir mannslífa að stöðva hann. Það hefði mátt gera það fyrr og spara við það mörg mannslíf. Hefði verið unnt að koma í veg fyrir þær tugmilljóna blóðfórnir sem ógnarstjórn Jósefs Stalíns kostaði Sovétþjóðirnar með því að koma honum frá valdastóli fyrr? Þetta eru spurningar sem varða dómgreind. En eitt er víst að þeir menn á þeim tíma sem lýstu skoðunum eins og þeim sem fram hafa komið í máli kvennalistakvenna og í máli hæstv. forseta Sþ., spöruðu ekki mannslíf með þeim skoðunum.