Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég tel eðlilegt að störf deildarinnar liggi niðri á meðan. Ég vil með því að óska þess leggja áherslu á mikilvægi málsins og um leið undirstrika þær aðfinningar mínar að stjórnarandstöðunni skuli ekki hafa verið gert það kunnugt að efnt yrði til nýrra kosninga á undan fjölmiðlum, einkanlega þar sem fréttatilkynning forsrh. fjallar einkum um afstöðu stjórnarandstöðunnar.
    Ég vil óska eftir því að fá að bera mig saman við þingmenn Kvennalista um það sem stendur hér í fréttatilkynningu forsrh. þannig að við getum í sameiningu gert okkur grein fyrir því hvort þessi ummæli hafi við rök að styðjast varðandi stjórnarandstöðuflokkana báða og tel þess vegna eðlilegt að þessi frestur verði veittur. Það mun líka ýta á eftir því að náð verði í hæstv. sjútvrh., en eins og hæstv. forseta er kunnugt veltur það nú mjög á ýmsu hvort hæstv. ráðherrar telji ástæðu til þess að sitja yfirleitt inni í þessari deild þegar þeirra mál eru rædd.