Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi ítreka aðfinnslur mínar yfir því að þingflokkur Sjálfstfl. skuli ekki hafa fengið fréttatilkynningu frá forsrh. um kjördag í hendur öðruvísi en að biðja fréttamenn að lána sér eintak af henni. Það væri auðvitað sjálfsögð kurteisi að senda stjórnarandstöðuflokkunum slíka fréttatilkynningu ekki síður en fjölmiðlum. Það er í samræmi við önnur vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og þá áráttu hennar að hafa sem minnst samband og samvinnu við stjórnarandstöðuna. En hver verður að ráða sínum vinnubrögðum.
    Ég vil í fyrsta lagi lýsa því yfir að ég fagna því að ríkisstjórnin skyldi hafa tekið þá ákvörðun að flýta kjördegi fram yfir það sem segir í stjórnarskrá og fram yfir það sem skilja má af áratuga hefð og kosningalögum hér á landi. Árið 1983 var kosið hinn 23. apríl eða fjórða laugardag í apríl. Það var kosið fjórða laugardag í apríl árið 1985 og samkvæmt lagahefð ber reglulegan kjördag að þessu sinni upp á 27. apríl. Það er í samræmi við þau ákvæði kosningalaga hinna eldri að kjósa skuli fjórða sunnudag í júní. Nú er talað um að kjósa skuli annan laugardag í maí og ber þá að sjálfsögðu að skilja það svo, ef mark væri að kosningalögum, að alþingiskosningar hefðu átt að vera annan laugardag í maí fyrir tæpu ári og skírskota ég þá til ákvæða um forsetakosningar máli mínu til stuðnings og hefð sem orðið hefur hér á landi. Þetta sýnir okkur auðvitað að ákvæðið um reglulegan kjördag í kosningalögum er marklaust og skiptir ekki máli.
    Það er rétt sem stendur í fréttatilkynningu frá forsrh. að við í Sjálfstfl. lögðumst gegn því að kjördagur yrði 11. maí, hálfum mánuði eftir að kjörtímabili lyki, á þeirri forsendu að kjörtímabil sé eins og stendur í 31. gr. stjórnarskrár: ,,á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri, hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í þessum kjördæmum``. Þetta ákvæði er óhjákvæmilegt að skilja þröngt. Það getur ekki gengið að alþingismenn sitji lengur en fjögur ár. Ég minnist þess ekki meðan Ólafur Jóhannesson var formaður Framsfl. að hér risu upp deilur um það hvernig bæri að skilja það hversu langt kjörtímabil alþingismanna væri.
    Nú vill svo vel til að ákveðið hefur verið að leggja fyrir Alþingi í vikunni frv. til laga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins og er þá óhjákvæmilegt að inn í það frv. verði tekin afdráttarlaus ákvæði um það hvenær kjörtímabili Alþingis ljúki og hvenær alþingiskosningar skuli halda, reglulegar alþingiskosningar. Virðing Alþingis er ekki of mikil og keyrir að sjálfsögðu um þverbak þegar upp rísa deilur um það á Alþingi sjálfu hversu langt kjörtímabil alþingismanna sé.
    Ég skal ekki hér og nú elta ólar við fullyrðingar forsrh. um að eðlilegt hafi verið að kjósa 11. maí nk. Ég lýsi því einungis yfir að kjörtímabil þingmanna er fjögur ár, ekki lengra, má þó að sjálfsögðu kjósa hinn sama laugardag í árinu, fjórða laugardag í apríl ef svo ber undir. Fyrir þessu er hefð frá því Alþingi var sett 930 að það var haldið í hinni sömu viku sumars á

hverju ári. Um þetta þarf ekki að deila, um þetta eru langar hefðir, lagahefð í landinu og ekki nema útúrsnúningur að halda því fram að ekki hafi verið heimilt að kjósa hinn 27. apríl að þessu sinni. Ég vil vekja athygli á því að þegar kosið var 1983 voru fimm laugardagar í aprílmánuði, þá var kosið þann 23. Að minni hyggju er eðlilegt að telja frá upphafi mánaðar.
    Hér segir síðan í fréttatilkynningu frá forsrh.: ,,Þótt ekki sé að finna nein ákvæði í stjórnarskrá eða lögum sem krefjast þess að kosið sé til Alþingis innan fjögurra ára og fordæmin um að landið sé án þings séu mörg, er ríkisstjórninni kappsmál að samstaða geti orðið um kjördag.`` Ég hélt nú að venjulegum ríkisstjórnum væri kappsmál að þing gæti setið, það væri kappsmál númer eitt. Ég vil af þessu tilefni víkja að 1. gr. stjórnarskrárinnar. Hún er svohljóðandi: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.`` Sú ríkisstjórn sem hér situr nú er þingbundin. Hún starfar í umboði Alþingis og ég get ekki séð að hún hafi umboð Alþingis til þess að leggja Alþingi niður. Stjórnarskráin tekur enda á þessu álitaefni í 36. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.`` Nú veit ég ekki hvort mönnum finnst raskað friði Alþingis eða frelsi ef hugmyndin hefur verið sú að leggja Alþingi niður. Mér finnst það nú allmikil röskun á friði og frelsi ef ríkisstjórnir eiga að komast upp með slíkt. Við sjáum það í kringum okkur hvaða afleiðingar það hefur ef ríkisstjórnum og valdhöfum er ekki veitt sterkt aðhald af þjóðþingum. Ég vil láta í ljósi vonbrigði mín yfir því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. skuli tala um það eins og sjálfsagðan hlut að eftir geðþóttaákvörðun þeirra sé unnt að leggja Alþingi niður um lengri eða skemmri tíma.
    Ég veit ekkert fordæmi fyrir því í sögu okkar Íslendinga síðan við fengum lýðveldi og okkar eigin þjóðhöfðingja að kjörtímabil hafi verið lengt um hálfan mánuð eða svo. Það hefur verið haldið sig við þessa reglu að alþingismenn séu kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.
    Ég vil svo, herra forseti, láta í ljósi ánægju mína yfir því að ríkisstjórnin skuli, að tilmælum og samkvæmt kröfu Sjálfstfl., taka þann kostinn að láta Alþingi í friði, taka þann kostinn að halda sig innan ramma stjórnarskrárinnar. Og ég vil láta í ljósi sérstaka ánægju mína yfir því að ríkisstjórnin hafi tekið þann kostinn til viðbótar að stytta kjörtímabil sitt um sjö daga og skuli nú hafa ákveðið að kosningar til Alþingis verði 20. apríl.