Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um fréttatilkynningu forsrh., sem birt var í morgun, vil ég láta þess getið og eiginlega endurtaka það sem ég sagði áðan að aðstoðarmaður forsrh. hringdi í þingflokksformann Kvennalistans í morgun og tilkynnti um þessa ákvörðun. Það er auðvitað vel að látið er vita en það hefur greinilega ekki verið þannig á öllum bæjum.
    Formaður þingflokks Kvennalistans setti sig ekki upp á móti þessari dagsetningu og eftir að hafa kynnt sér þau lögfræðilegu álit sem lögð voru fram á fundi með þingflokksformönnum sl. föstudag var hún sannfærð um að ekki væri verið að brjóta stjórnarskrána þó kjördagur yrði 11. maí. Það hlýtur því að vekja undrun okkar að hér skuli sagt í þessari fréttatilkynningu að stjórnarandstaðan leggist gegn því að kjördagur verði 11. maí. Nú held ég að ég verði að endurtaka orð mín í þriðja skiptið í dag. Ég vil benda hæstv. starfandi forsrh. á það að formaður þingflokks Kvennalistans lagðist ekki gegn kjördegi 11. maí og því hlýt ég að fara fram á að þessi fréttatilkynning verði dregin til baka og leiðrétt. Á fundinum benti hún einmitt sérstaklega á það að á þessum tíma árs væru samgöngur orðnar öruggari og betri þannig að auðveldara væri fyrir fólk að komast leiðar sinnar.