Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Út af þeirri umræðu sem hér er hafin þá hlýt ég að vísa til þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað milli formanna þingflokka um þetta mál og skoðunar ríkisstjórnarinnar að í fyrsta lagi sé það rétt að hafa kosningar 11. maí. Ríkisstjórnin styðst í því sambandi við þá löggjöf sem sett var 1987 þegar ákveðið var að kosningar yrðu 25. apríl og það var jafnframt ákveðið að reglulegur kosningadagur yrði annar laugardagur í maí.
    Þetta er samkvæmt gildandi lögum sem Alþingi hefur sett og ætti ekki að koma neinum á óvart.
    Sjálfstfl. hefur hins vegar haft þá afstöðu, sem fáir skilja og er í ósamræmi við þá túlkun sem sett hefur verið fram, m.a. af skrifstofustjóra dómsmrn., Ólafi Walter Stefánssyni, og Baldri Möller, fyrrv. ráðuneytisstjóra, að þetta væri ekki í samræmi við okkar stjórnarskrá. Hitt er svo annað mál að við hljótum að leita eftir sem bestri samstöðu um kjördag. Sjálfstfl. virtist helst vera inni á því, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, að kosningadagur yrði 27. apríl, þ.e. tveimur dögum síðar en síðast var kosið, sem þýddi þá að þingmenn eru umboðslausir í stuttan tíma.
    Ég heyrði það hins vegar á hv. þm. að hann var mjög ánægður með það að ríkisstjórnin skuli hafa fallist á að breyta þessari afstöðu til þess að um þetta mál gæti náðst samstaða. Það þarf að flytja frv. þess efnis, sem er að sjálfsögðu skylda ríkisstjórnarinnar. Hann gat hins vegar ekki leynt óánægju sinni með málsmeðferð og hefur hann nú verið vanur að gera ágreining um æði margt að undanförnu og ekki getað leynt óánægju sinni með núv. ríkisstjórn, sem verður að sjálfsögðu að hafa sinn gang. En það kemur á óvart að hann skuli með þessum hætti hefja hér umræður um þetta mál.
    Ég fagna því hins vegar ef um það getur orðið samstaða að kosningar verði 20. apríl og vænti þess að sú samstaða komi fram í afgreiðslu þess frv. sem þarf að flytja um þetta mál.
    Ég harma það hins vegar ef uppi hefur verið sá misskilningur sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur að Kvennalistinn hafi getað fallist á að kjördagur yrði 11. maí. Ég skal játa það að ég hef ekki heyrt það fyrr. Ég hef skilið það svo að Kvennalistinn kysi heldur að kosningar yrðu fyrr, en ég hef, eins og henni er kunnugt um, ekki tekið þátt í þessum umræðum milli aðila og ber að sjálfsögðu að leiðrétta það. Hins vegar hefur það verið staðfest hér í þessum umræðum að Sjálfstfl. gerir stóran ágreining um kosningar 11. maí, jafnvel þótt Sjálfstfl. hafi staðið að því á sínum tíma að ákveða að reglulegar kosningar skyldu vera annan laugardag í maí. Er vandséð hvenær þeirri skipan verður komið á ef sú túlkun á að vera uppi sem hv. þm. Halldór Blöndal hafði frammi í ræðu sinni áðan. Það er kappsmál að mínu mati að komast niður á reglulegan kjördag. Það verður líka að taka það fram að maímánuður er almennt heppilegri til kosninga en aprílmánuður. Það er nú svo víða um landsbyggðina að

febrúar og mars eru oft erfiðir mánuðir. Undirbúningur kosninganna hlýtur að flytjast fram og gerir mönnum erfiðara fyrir.
    En til þess að um þetta geti orðið sem best samstaða hefur ríkisstjórnin tekið þessa afstöðu og vænti ég þess að hv. þm. Halldór Blöndal geri þá meira að því að fagna því og lýsa ánægju sinni yfir því að þarna skuli hafa verið breytt um skoðun, ekki til þess að taka undir afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli, það er langt í frá, heldur til þess að um þetta geti orðið bærileg samstaða. Það er vilji ríkisstjórnarinnar og ég vænti þess að sá vilji komi jafnframt fram hjá Sjálfstfl. í þessu máli. Þykist ég viss um að hann muni koma betur fram í þeirri síðari ræðu sem hv. þm. hefur nú boðað.