Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Út af því sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan þá er ekki allt fengið með því að hv. þm. Halldór Blöndal verði ánægður, það dugar bara skammt. ( Gripið fram í: Það er rétt.) Það er rétt, já. Það þarf kannski að hugsa um fleiri einstaklinga í þessu landi sem eiga að ganga að kjörborði heldur en hv. þm. Halldór Blöndal. Þess vegna er þetta að mínu viti talsvert örlagarík ákvörðun sem hér er verið að taka fyrir fólk sem býr á þeim landsvæðum þar sem samgöngur eru erfiðar á þessum tíma og það er miklu stærra mál heldur en hvað líður ákvörðun Sjálfstfl. í þessum efnum.
    En út af því sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, varaformaður þingflokks þeirra sjálfstæðismanna, þá er auðvitað ástæða til að spyrja aðra hv. þm. Sjálfstfl. hér í þessari hv. deild: Er þetta krafa þingflokks Sjálfstfl., að kosningum sé flýtt með þessum hætti? Ég spyr aðra hv. þm. Sjálfstfl. í þessari deild um þetta. Er þetta sameiginleg krafa þingflokks Sjálfstfl., að kosningum verði flýtt með þessum hætti? Ég geri ráð fyrir að við fáum svör við þessu því að það er auðvitað mikilsvert að vita hvort það eru einn eða tveir úr þingmannaliði Sjálfstfl. sem hafa uppi þessar raddir eða hvort það er þingflokkurinn sem heild sem hefur samþykkt það.
    Í öðru lagi virðist það vefjast fyrir ýmsum, bæði hæstv. forsetum Alþingis og hæstv. ríkisstjórn, hvernig menn eru flokkaðir í stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Nú hefur það legið fyrir af minni hálfu að ég er óskuldbundinn hæstv. ríkisstjórn. Ég er enginn flokksþræll hæstv. ríkisstjórnar, hef margoft lýst því yfir, og tek afstöðu til mála eftir þeim málum sem eru lögð fyrir hverju sinni samkvæmt sannfæringu minni og samkvæmt þingmannseiði. Og í þessu tilviki er ég stjórnarandstæðingur með þessa ákvörðun. Ég tel það nánast glapræði að vera að etja fólki út um landsbyggðina út í kosningar upp úr miðjum apríl. Ég tala nú ekki um þegar það liggur fyrir að ein vika getur breytt miklu. Kjörtímabilið gæti verið viku lengur heldur en þetta. Og því ekki þá að nota þá viku a.m.k. og láta kjósa á réttum tíma?
    Þó að hæstv. ríkisstjórn leggi mikið upp úr því að ná sameiningu og samstöðu með tilteknum einstaklingum í Sjálfstfl., þá finnst mér þetta of langt gengið, hæstv. starfandi forsrh. Menn hefðu átt að athuga sinn gang betur áður en þessi ákvörðun var tekin. Því að í lýðræðislandi á auðvitað að huga fyrst og fremst að því að hinn almenni maður sem nýtur kosningarréttar geti nýtt sér þá aðstöðu til þess að nota hann og það gerist ekki með því að vera að efna til kosninga á verstu tímum ársins.
    Ég vildi að það kæmi fram að í þessu eins og mörgu öðru er ég andstæður þessari ákvörðun, teldi a.m.k. að það hefði átt að fara þá leið að kjósa á þeim venjulega tíma sem menn eru þó sammála um, 27. apríl, þó að ég ítreki líka að það stóðu flestir eða líklega allir þingmenn að því að ákveða kosningadaginn eins og hæstv. starfandi forsrh. gerði hér grein fyrir áðan. Og menn hlaupa ekki til með það frá ári til árs eða frá kjörtímabili til kjörtímabils. Það er ákvörðun sem búið er að taka og við hana á auðvitað að standa.
    Ég skal ekki, herra forseti, hafa fleiri orð um þetta. Ég tek undir það sem bæði hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir sagði hér áðan og hæstv. sjútvrh. að maímánuður er auðvitað miklu heppilegri heldur en apríl til umferðar til þess að menn komist leiðar sinnar til að nota þann mikilvæga rétt sem atkvæðisrétturinn er.