Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja það að það virðast hafa orðið endaskipti hér nokkur á hlutunum í þessari deild þegar hv. þm. Halldór Blöndal er kominn hér til þess að þakka ríkisstjórninni fyrir tillitssemi og nýgerðar samþykktir. Ég er ekki kominn hingað upp til þess að þakka ríkisstjórninni fyrir og ég út af fyrir sig harma það að ríkisstjórnin skuli taka þennan kostinn og falla frá því, eins og segir í lögum, að kosið skuli annan laugardag í maí.
    Eins og við höfum hér heyrt hafa hinir virtustu lögmenn sem leitað hefur verið til staðfest það, bæði Ólafur Walter Stefánsson og Baldur Möller, sem ég held að enginn leyfi sér að vefengja að hafa alla burði til þess að kveða upp úrskurði í slíku máli, telja það að hér sé ekki á neinn hallað þó að kosið hefði verið 11. maí eins og lög kveða á um.
    En því miður er það svo að sjálfstæðismenn hafa hafnað samkomulagi í þessa átt, að við gætum náð samkomulagi um það að kjördagur yrði 11. maí eins og lög kveða á um. En þannig er það nú að við höfum heyrt fyrr samþykktir gerðar eða okkur sagðar gerðar í þingflokki Sjálfstfl. og ekki mjög langt síðan. Og eitthvað fór það nú á milli mála sem skeði inni í því flokksherbergi á þeirri stundu um samþykktir manna. ( KP: Ætli það sé ekki það sama núna.) Já, það er spurning, hv. þm. Karvel Pálmason, hvort það er eitthvað svipað núna og væri kannski fróðlegt að heyra um það. Kannski er það svo. Mér finnst hins vegar að ríkisstjórnin hafi teygt sig býsna langt og of langt til þess að ná samkomulagi við einhvern hluta af þingflokki Sjálfstfl. Ég er sannfærður um það að einhver hluti af Sjálfstfl., þó að ég viti og geri mér grein fyrir því að þeim fer því miður fækkandi, gerir sér grein fyrir því að það geta verið margvíslegir erfiðleikar á því að kjördagur sé í aprílmánuði. Og við þurfum ekkert að fara langt aftur til að minnast þess. Ég gæti nefnt mörg dæmi um það hvernig ástatt var í mínu kjördæmi á þessum dögum. Það væri líka hægt að draga hér fram kostnaðartölur frá Vegagerð ríkisins og mörgum öðrum aðilum, hvað það kostaði að koma þingmönnum og öðrum milli staða til að uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um.
    En vegna þess, virðulegi forseti, að hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason spurði þingmenn Sjálfstfl. út úr í þessu máli og óskaði eftir því að þeir kæmu hér upp og svöruðu, þá þætti mér vænt um að fá sérstaklega einn þingmann hingað upp úr þingliði Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Já, ég hefði ekki á móti því en einn sérstaklega. Hv. 4. þm. Vestf. Ég hefði mjög gaman af því að fá hann hingað upp sem reyndan þingmann, með mikla þingreynslu og líka ekki síður sem fyrrverandi forseta Sþ. og heyra álit þess mæta manns sem nú er að hverfa af þingi, því miður, á þessu atriði, hvort hann sé sammála túlkun flokksbræðra sinna í þessu máli. Ætli það sé ekki svipað og með samþykktina sem var gerð hér fyrr í vetur eða átti að hafa verið gerð í þingflokki Sjálfstfl.