Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. spurði mig um það hvaða rök ég færði fyrir því að kosningar gætu verið 11. maí. Það kom skýrt fram í máli hans að hann hafði ekki mikla trú á núv. ríkisstjórn, hvorki til góðra verka og jafnvel ekki til vondra, og látum það liggja á milli hluta, en hann hafði hins vegar mikla trú á áliti Ólafs heitins Jóhannessonar um þessi mál. Eigum við þó a.m.k. það eitt sameiginlegt að við höfum mikið álit á því sem hann lét frá sér fara og var yfirleitt mjög yfirvegað.
    Þá er rétt að byrja á því að vitna í Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson sem ráðuneytisstjóri dómsmrn. vitnar í í minnisblaði um þetta mál 5. febr. 1987, í aðdraganda að breytingu kosningalaganna. En á bls. 253 í Stjórnskipun Íslands segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þingrofið fellir umboð allra þingmanna úr gildi, og væri óheimilt að undanskilja því suma þingmenn, t.d. þingmenn efri deildar. Eru því engir alþingismenn til frá þeim tíma, er þingrof tekur gildi og þangað til nýjar alþingiskosningar hafa farið fram. Þeirri skoðun hefur að vísu verið hreyft, að það væri ekki þingrofið heldur hinar nýju kosningar, sem felldu umboð þingmanna úr gildi, af því að út frá því verði að ganga, að þingmenn séu alltaf til staðar, en sú kenning fær ekki staðist. Hins vegar fer auðvitað best á því, að þetta tímabil sé sem styst, og er ekkert því til fyrirstöðu eftir stjórnarskránni að þingrofið sé fyrst og fremst látið taka gildi frá og með þeim degi sem almennar alþingiskosningar fara fram. Þó verður því ekki við komið, ef strax á að binda enda á störf þingsins, en skilyrði til þingslita eru ekki fyrir hendi.``
    Árið 1971, og til þess er vitnað í minnisblaði Ólafs Walters Stefánssonar, kom sú staða upp að kosningar 1967 höfðu farið fram 11. júní. Samkvæmt kosningalögum hefðu kosningar þá átt að fara fram sunnudaginn 27. júní. Hins vegar var talið henta að kosningar færu fram fyrr og var því flutt lagafrv. um kjördag 13. júní, þ.e. tveimur dögum eftir að kjörtímabilið rann út. Var það svipaður árstími og 1963 og 1967. Í bæði skiptin var kjördagurinn ákveðinn í sambandi við þingrof, í fyrra skiptið til að stytta kjörtímabil, sem hefði ekki runnið út fyrr en í október, í síðara skipti vegna breytinga sem samþykktar voru á stjórnarskránni.
    Í framsögu þáv. dómsmrh., Auðar Auðuns, kom fram að verið var að velja hentugri tíma en hinn lögboðna. Var litið svo á að um það væri samstaða. Þá sagði ráðherrann:
    ,,Síðustu alþingiskosningar fóru fram 11. júní fyrir fjórum árum síðan og er því umboð þingmanna fallið niður þann 11. júní nk. og má segja að að því leyti til komi þessi kjördagur, 13. júní, vel heim við það.``
    Nokkur umræða varð um það hvort flýta ætti kosningunum og snerist umræðan þá um það hvort slíkt væri heppilegt. Í þeim umræðum sagði Ólafur Jóhannesson, sem var formaður þingflokks framsóknarmanna, m.a.:

    ,,Það var nú raunar aðeins ein ástæða sem hæstv. ráðherra benti á, að mér skildist, og það var þetta, að umboð þingmanna væri útrunnið um þetta leyti. Það má segja það. Á hitt ber náttúrlega að líta í þessu sambandi, án þess að það megi skoða sem andstöðu mína við þennan kjördag, að í kosningalögunum er ákveðið í eitt skipti fyrir öll, ef ekki er gerð breyting þar á, að kjördagur sé síðasti sunnudagur í júní og það verður náttúrlega að álíta að það hafi ekki verið ákveðið út í bláinn heldur að vel yfirveguðu ráði, t.d. með tilliti til samgangna.``
    Þetta gerðist 1971. Það sem gerist 1987, þegar lög voru sett, og vil ég þá vitna í niðurlagsorð skrifstofustjóra dómsmrn., en þar segir:
    ,,Samkvæmt þessu standa lög til þess að kosningar verði næst laugardaginn 11. maí 1991. Ákvæði stjórnarskrár standa því ekki í vegi. Sá kjördagur var í raun ákveðinn af Alþingi með kosningalagabreytingunni 1987 samtímis því að kjördagur það ár var ákveðinn 25. apríl. Lá þá því þegar fyrir að reglulegur kjördagur yrði ekki fyrr en nokkur tími væri kominn fram yfir fjögur ár.
    Þessi niðurstaða varðar það hins vegar ekki hvort það kunni að teljast óeðlilegt að sú staða komi upp að ekki séu fyrir hendi kjörnir þingmenn með umboð. Það er annað mál en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að slík staða komi upp þegar þing er rofið og þingrofið fer ekki saman við nýjan kjördag.``
    Það er því ljóst að það sem hér er um að ræða er mat á því sem fram kemur í áliti Ólafs heitins Jóhannessonar þar sem hann segir: ,,Hins vegar fer auðvitað best á því að þetta tímabil sé sem styst.`` Og því held ég að allir geti verið sammála.
    Hér er um stutt tímabil að ræða, frá 25. apríl til 11. maí. Og þegar það liggur fyrir að Alþingi hefur lýst vilja sínum í þessu máli fyrir fjórum árum með því að ákveða reglulegan kjördag 11. maí 1991 þá hefur Alþingi þar með lýst þeim vilja sínum að hér líði ekki óeðlilega langur tími.
    Hins vegar tek ég mjög undir það með hv. þm. að þetta tímabil hlýtur að þurfa að vera sem styst og hann hefur hér lýst því yfir að það megi verða tveir dagar og ég hlýt að spyrja hann um það: Hvers vegna má það vera tveir dagar? Hvers vegna gæti hann þolað hæstv. sjútvrh. að starfa þessa tvo daga en ekki hina sem á eftir mundu koma? Það fæ ég ekki skilið. En ég vil ítreka að það er skoðun ríkisstjórnarinnar að það sé eðlilegt að fara að kosningalögunum í þessu efni og reglulegar kosningar fari fram 11. maí. Hins vegar telur ríkisstjórnin óheppilegt að um kosningadaginn standi deilur og það sé dregið í efa af einhverjum þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að slíkt fái staðist stjórnarskrá. Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál en ríkisstjórnin er ósammála þeirri túlkun og vitnar í því sambandi til laganna og þeirra ummæla sem hafa komið hér fram á Alþingi og álits virtra lögfræðinga í þeim efnum, og reyndar þeirra aðila, sem hv. þm. vitnaði hér í, sem voru hér áður á Alþingi.
    Það hefur hins vegar verið staðfest hér í umræðunum að það geta allir þingflokkar fallist á 11. maí nema Sjálfstfl. Ef Sjálfstfl. breytir um skoðun í þeim efnum og vill fallast á 11. maí þá er komin samstaða um málið hér á Alþingi og er þá óþarft að flytja frv. til laga um þetta mál og mun það væntanlega skýrast við frekari meðferð málsins hér á Alþingi en ég hef talið svo að þetta hafi verið alveg skýrt í þeim viðræðum sem hafa átt sér stað við þingflokksformann Sjálfstfl., af hvaða ástæðum sem það svo var.